Vegalög

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 14:47:08 (6447)


[14:47]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim sem hafa þakkað fyrir starfið í nefndinni við þetta mál. Mér finnst það hafa verið til fyrirmyndar hvernig að því hefur verið staðið að reyna að ná svona samhljóða niðurstöðu í þau mál sem ágreiningur var um í nefndinni og það að reyna að vinna þetta sem mest í sem víðtækustu samkomulagi. Auðvitað er það þannig að það er ýmislegt í þessu sem mönnum sýnist svolítið misjafnlega um en það er nú kannski smekksatriði sumt í því eins og t.d. hvað vegirnir eiga að heita og annað því um líkt en það breytir kannski ekki öllu um frv. í sjálfu sér.
    Mig langar þó að nefna hér í sambandi við einkavegina að mér virðist það vera rétt að okkur muni hafa sést yfir í sambandi við 9. gr., þ.e. hún er óbreytt inni undir fyrirsögninni Einkavegir. Þar stendur, með leyfi forseta.
    ,,Einkavegir eru þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir og eru kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum.``
    En með að brtt. við 9. gr. kemur nýr málsl.: ,,Almennir vegir eru þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir en eru í eigu opinberra aðila og eru ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar.`` Þá þarf kannski að bæta inn í setninguna sem fyrir var orðunum ,,eða almennir vegir`` svo að hún orðist þá þannig til frekari skýringar: Einkavegir eru vegir sem ekki teljast þjóðvegir eða almennir vegir og eru kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum. Ég bendi nú á þetta að það gæti orðið til glöggvunar því að hv. 4. þm. Austurl. af næmni sinni á svona hluti kom auga á að það væri í þessu hægt að sjá ósamræmi.
    Það sem ég vil fjalla helst um hér er sú niðurstaða sem varð vegna 16. gr. og þeirrar 23. þá í samhengi, þ.e. um ferjusiglingarnar. Mér er engin launung á að ég var mjög óánægður með tillöguna eins og hún lá fyrir í frv. en þar var gert ráð fyrir því að það ætti að leggja af ferjusiglingar nema þar sem ferjur kæmu í stað vegsambands um stofnveg a.m.k. hluta úr árinu sem þýddi í raun og veru að það væri verið að taka stefnumarkandi ákvörðun um það að leggja niður ferjusiglingar á öllum leiðum þar sem hægt er að halda vegi opnum allt árið og í raun og veru burt séð frá því hve langt er á milli byggðarlaga í slíkum tilfellum. Ég tel og vil segja það hér svo að það liggi alveg fyrir þó að ég standi að þessu nefndaráliti og samkomulagi um að afgreiða málið eins og það er, að ég tel að það sé ekki rétt að marka stefnu með svo ákveðnum hætti eins og gert er í þessu tilviki, einfaldlega vegna þess að það getur auðvitað verið hagkvæmt að reka ferju þó svo það sé hægt að halda vegi opnum allt árið. Það er gert mjög víða um heiminn að reka ferjur og það getur alveg orðið hagkvæmt og það getur meira að segja verið að það sé hagkvæmt þjóðhagslega að reka einhverjar ferjur sem við höfum nú í rekstri en yrði ekki leyfilegt að reka sem hluta af kostnaði við vegáætlun eins og gert er ráð fyrir að 23. gr. verði. En sú málamiðlun sem þarna náðist raunverulega um það bráðabirgðaákvæði sem fylgdi þessari 23. gr., þ.e. að það mætti þrátt fyrir ákvæði 23. gr. reka þessar ferjur í þrjú ár, það var lengt upp í fimm ár og síðan var sett heimild inn í 16. gr. þar sem gefinn var möguleiki á því að halda áfram að reka ferjur sem ekki uppfylltu þessi ákvæði í 23. gr. Þarna var farin svona, hvað á maður að segja, fjallabaksvegur að málinu þannig að menn væru ekki að setja sig í þá stöðu að þurfa að leggja endanlega niður ferjusiglingar á leiðum sem ekki uppfylltu ákvæði 23. gr. en það yrði samt að vera sérstök ákvörðun um það að viðkomandi ferjusiglingar kæmu þá inn með þessum heimildum sem um ræðir í 16. gr. Vegna þess að þetta mál er mjög mikilvægt að mínu viti fyrir þó nokkur byggðarlög, og ég ætla ekki að fara að teygja lopann um þetta mál hér því að ég hef sagt mína skoðun á því áður, þá taldi ég mikilvægt að við gætum staðið sameiginlega að niðurstöðu sem bæði frestaði því að þessi stefnumörkun kæmi til framkvæmda og opnaði leið til þess að það væri þrátt fyrir hana hægt að halda áfram rekstri ferja á þessum leiðum sem hér er um að ræða.
    Ég ætla ekki að fara að endurtaka allt það sem hér hefur verið sagt um þessa hluti. Ég held að það hafi í raun og veru verið svipaðir hlutir sem eru okkur öllum efst í huga sem stóðum að þessu samkomulagi. Ég tel það mjög mikilvægt sem varð til þess að samkomulagið náðist, bæði í sambandi við ferjurnar og líka í sambandi við girðingarnar, að það verði við það staðið og að komandi þing á næsta hausti fái þá til meðferðar þessi girðingarmál. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það gangi allt saman hratt fyrir sig þannig að samgn. fái þá þetta mál aftur til sín í haust og það verði hægt að halda áfram. Í raun og veru er þessum girðingarmálum frestað til haustsins og gert ráð fyrir því að þær girðingar sem liggja meðfram vegum verði teknar undan girðingarlögunum og settar inn í vegalögin.
    Ég vil vegna þess sem hv. 4. þm. Austurl. var að nefna um snjóflóð og skriðuföll benda á það að í 52. gr. er raunverulega verið að tala um skriðuföll og skemmdir á vegum. Þar er ekki talað um snjóflóð og það hefði kannski verið ástæða til að gera það, en ég veit að menn hafa mismunandi skoðanir á því. Ég hef rætt það mál við vegagerðarmenn og það er auðvitað fleira sem teppir vegi heldur en sjóflóð. Næsta spurning hlýtur að vera: Á að loka vegum vegna snjóflóða? Á þá líka að loka vegum vegna t.d. fárviðra? Á Vegagerðin að hafa vit fyrir mönnum alveg um það hvenær þeir eigi fara um vegi? Þetta er atriði sem er auðvitað sjálfsagt að ræða en nefndin hefur ekki lagt til að Vegagerðinni væri gert að hafa þetta hlutverk að hafa vit fyrir öllum um það hvort þeir eigi að fara á milli byggðarlaga.
    Ég held að ég hafi komið því á framfæri sem ég tel raunverulega ástæðu til að segja hér að lokum í sambandi við þetta mál. Ég tel að það sé kannski ástæða til þess að nefndarmenn eins og hv. formaður nefndarinnar nefndi hittist og athugi 9. gr., hvort það er ástæða til þess að skoða einhverja lagfæringu á henni en að öðru leyti vil ég segja það að ég mun standa að þessu að samþykkja þetta frv.