Kaup á björgunarþyrlu

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 15:21:50 (6455)


[15:21]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í björgunarþyrlumálinu. Ég fullyrði vegna stöðu málsins að það hefur aldrei verið vilji eða ætlunarverk þessarar ríkisstjórnar að kaupa fullkomna björgunarþyrlu.
    Nú eru vikurnar orðnar yfir 60 síðan hæstv. forsrh. sagði málið verða afgreitt allra næstu daga. Ég spyr: Er hæstv. forsrh. tímaskertur? Málið hefur alltaf farið á ný inn í nýjan blekkingar- og lygavef. Hæstv. dómsmrh. hefur látið draga sig á asnaeyrum í þessu máli sem hlýtur að vera þreytandi til lengdar. Hans staða er aumkunarverð ef hann krefst ekki niðurstöðu í þessu máli.
    Hæstv. utanrrh. hefur uppi önnur áform og getur stöðvað hvaða mál sem er í þessari ríkisstjórn hvar sem hann er staddur á hnettinum, hvort sem það er í Kína, Kóreu eða Afríku. Svona gerist þegar ríkisstjórn verður til á tveggja manna tali úti í Viðey. Þá er hægt að fara svona með þingmeirihluta stjórnarflokkanna. Hæstv. forsrh. stritast nú við að sitja fram yfir 17. júní til þess að geta tekið í hendurnar á þjóðhöfðingjum. Hann veit sem er að ríkisstjórnin er lifandi dauð og nær ekki utan um hið smæsta mál fremur en aðrir sem látnir eru.
    Það væri myndarlegt ef hæstv. dómsmrh. gæfi tímafrest og segði af sér ef málið yrði ekki leyst innan tímamarka, setti þeim stólinn fyrir dyrnar og það yrði að afgreiða málið. Ég skora á hann að gera það ellegar hverfa úr stól dómsmrh. og sjútvrh. Ég er sannfærður um að sjómenn og fjölskyldur þeirra um allt land, svo og allir landsmenn, fordæma framgöngu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í björgunarþyrlumálinu. Það er til skammar. Þess mun lengi verða minnst.