Kaup á björgunarþyrlu

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 15:33:29 (6461)


[15:33]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru reyndar sorgleg upptalning á því hvernig meðferð hæstv. ríkisstjórnar hefur verið á þessu máli og staðfestu það sem ég sagði, að allt hefur þetta gengið út á það að reyna að tengja björgunarstarfsemi og öryggismál sjómanna og Íslendinga annarra sem þurfa á þyrlu að halda við veru hersins í landinu. Í því svífast menn einskis. Raunverulega hafa málin legið fyrir alveg klár í heilt ár og það hefur legið fyrir tillaga frá hæstv. dómsmrh. og allir vita hvernig með þessi mál hefur verið farið. Svo mætir hæstv. utanrrh. í ræðustól og hvað segir hann: Þetta er allt saman í lagi og þess vegna liggur okkur ekkert á. Það er nákvæmlega það sem hæstv. ráðherra er að segja. Við höfum aðgang að ágætis þyrlukosti miðað við mannfjölda. Þess vegna liggur ekkert á. Það er hægt að spekúlera í alls konar tilboðum hvort sem þau eru grín eða alvara. Ef maður hlustar á hæstv. ráðherra þá virðist það alla vega vera í góðu lagi.
    Hann nefndi að það væri á leiðinni til landsins sérfræðingasveit til að skoða þessi mál. Ég biðja hæstv. dómsmrh. að vera aðeins nákvæmari í orðum. Hann var að tala um að það yrði að taka tilboðinu með tveggja daga fyrirvara ef önnur tilboð kæmu í þessa þyrlu. Stendur það tilboð lengur en þær þrjár vikur sem fresturinn gildir? Ef sérfræðingasveit kemur til landsins er ótrúlegt að það verði tími til þess að ljúka við samninga á þessum þremur vikum. Og síðan hinar tvær spurningarnar sem ég bar fram. Er búið að ákveða að viðræðum við amerísk stjórnvöld um málið ljúki á þessum þremur vikum? Ég tek það sérstaklega fram. Ætlar hæstv. dómsmrh. að fallast á enn eina framlenginguna á frestinum í málinu, til viðbótar við þann frest sem fyrir liggur, ef á þarf að halda vegna viðræðna við Bandaríkjamenn?