Áburðarverksmiðja ríkisins

137. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 16:57:02 (6481)


[16:57]
     Frsm. minni hluta landbn. (Sigurður Hlöðvesson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta landbn. á þskj. 946, um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins.
    ,,Ljóst er að rekstur Áburðarverksmiðjunnar er í mikilli hættu. Það stafar ekki af því að verksmiðjan sé rekin með miklu tapi. Á árinu 1993 var 57,2 millj. kr. hagnaður af rekstri og 14,9 millj. kr. hagnaður á árinu 1992. Hættan stafar heldur ekki af því að verksmiðjan sé skuldum hlaðin. Eigið fé sem hlutfall af heildarfjármagni hefur vaxið ört undanfarin ár og er nú 90% en veltufjárhlutfallið er 6,6 og er eignarstaða verksmiðjunnar mjög traust. Enn síður stafar hættan af því að verksmiðjan geti ekki selt framleiðslu sína. Á síðasta ári seldi verksmiðjan alla framleiðslu sína, rúm 52.500 tonn, á innlendum markaði auk rúmlega 1.500 tonna sem voru innflutt og námu heildartekjur fyrirtækisins 1.149 millj. kr. Fjöldi starfsmanna er nú 110.
    Yfirvofandi hætta stafar hins vegar af því að samkvæmt samningi um EES verður opnað fyrir innflutning á áburði frá ársbyrjun 1995. Á undanförnum árum hafa nokkur risafyrirtæki með Norsk Hydro í broddi fylkingar náð yfirburðastöðu á norrænum markaði með áburði unnum úr jarðgasi. Líklegt er að Áburðarverksmiðjan muni eiga í erfiðleikum með að standast þá samkeppni þar sem íslenskur áburður er talinn um 10% dýrari en erlendur þótt raunverð á innlendum áburði hafi farið verulega lækkandi á liðnum árum eins og sjá má í meðfylgjandi fylgiskjali. Vissulega fylgja því nokkrir kostir fyrir bændur og neytendur landbúnaðarvara að áburðarverð lækki. Hins vegar er það stórfellt áfall fyrir þjóðarbúið og íslenskt efnahagslíf er framleiðsla, sem nemur rúmum milljarði króna, fellur niður.
    Fyrirhuguð breyting á rekstrarformi verksmiðjunnar leysir engan vanda. Nú er stjórn verksmiðjunnar kjörin af Alþingi en með stofnun hlutafélags um reksturinn verður sú breyting að landbúnaðarráðherra velur alla stjórnarmenn. Þótt eignarstaða fyrirtækisins sé mjög góð er ekki líklegt að eftirspurn verði eftir hlutabréfum í hinu nýja hlutafélagi við þær aðstæður sem vænta má. Því er langlíklegast að hlutabréfin verði áfram í eigu ríkisins.
    Engin ástæða er til að ætla að staða verksmiðjunnar batni með þeirri miðstýringu og ólýðræðislegu valdasamþjöppun sem felst í því að önnum kafinn stjórnmálamaður, sem gegnir starfi landbúnaðarráðherra hverju sinni, verði einráður um málefni fyrirtækisins.
    Brýnasta verkefnið í málefnum þessa fyrirtækis er því ekki breyting á rekstrarformi heldur hitt að tryggja rekstur þess í framtíðinni og skapa því öruggan rekstrargrundvöll. Jafnhliða þessu þarf að huga að réttarstöðu þeirra starfsmanna verksmiðjunnar sem búa nú við réttindi ríkisstarfsmanna, en frumvarpið gerir ráð fyrir verulegri skerðingu á réttindum starfsmanna.
    Undirrituð, sem skipa minni hluta nefndarinnar, telja óhjákvæmilegt að gerð verði vönduð úttekt á því á vegum landbúnaðarráðuneytisins og bændasamtakanna hvað gera þarf til að tryggja rekstur verksmiðjunnar til frambúðar eftir að innflutningur erlends áburðar hefst í samræmi við EES-samning á árinu 1995. Því er hér lagt til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir nál. minni hlutans skrifar auk mín hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir.
    Virðulegi forseti. Með þeim gögnum sem fylgja þessu nál. geta menn séð að staða Áburðarverksmiðju ríkisins er mjög góð. Ég nefndi það áðan að veltufjárhlutfall fyrirtækisins er 6,6 og hygg ég að það

séu ekki mörg fyrirtæki í einkarekstri sem geta státað af slíku hlutfalli. Það var fyrir nokkrum árum talið að fyrirtæki væru hólpin eða mættu vera sæmilega ánægð ef þetta hlutfall næði einum. Hjá mörgum fyrirtækjum er þetta hlutfall undir einum. Það er því ekki hægt að segja að það að fyrirtækið er ríkisfyrirtæki hafi orsakað það að reksturinn sé slæmur.
    Á þeim fylgigögnum sem hér fylgja með líka má sjá að eigið fé sem hlutfall af heildarfjármagni hefur vaxið verulega frá árinu 1985, úr 47,4% í 90% á árinu 1993. Það er rétt að vekja athygli á því að á sama tíma, á sömu árum, frá árinu 1985 til 1994, þá hefur þróun verðs á áburði miðað við byggingarvísitölu verið þannig að hún hefur lækkað úr 100 í 57. Þannig að ekki geta það verið rök til þess að segja að fyrirtækið sé ekki vel rekið af því að það sé ríkisfyrirtæki.
    Það kemur fram í grg. með lagafrv., með leyfi forseta, eins og hér segir:
    ,,Hin almennu rök, sem hníga að því að breyta ríkisfyrirtæki á borð við Áburðarverksmiðjuna í hlutafélag, hafa flest komið fram. Hér á landi jafnt og annars staðar á Vesturlöndum hefur þeirri skoðun vaxið fylgi að eðlilegt sé að ríkið dragi sig sem mest út úr atvinnustarfsemi sem keppir við almennan atvinnurekstur.``
    Segja má að Áburðarverksmiðja ríkisins sé fákeppnisfyrirtæki eða það er einokunarfyrirtæki eins og er þannig að ekki er hægt að segja að það sé verið að breyta þessu vegna þess að þetta fyrirtæki búi við einhver annarleg eða betri skilyrði heldur en önnur fyrirtæki í sömu grein. Þannig að ekki hallast þau rök að því að þetta fyrirtæki sé gert að hlutafélagi og breytt úr því að vera bara hreint ríkisfyrirtæki.
    Virðulegi forseti. Ég held að þetta mál sé nánast trúaratriði hjá þessari hæstv. ríkisstjórn, einkavæðingaráformin eru orðin trúaratriði og það skal einkavæða eins og mögulegt er og menn sjást ekki fyrir hvar þeir lenda. Það eru engin rök sem hægt er að taka gild um það að þessu sé breytt. Það er nokkuð augljóst í mínum huga að ekki verður auðvelt að selja þetta fyrirtæki ef til kemur að selja hlutabréf ríkisins í fyrirtækinu. Eignarstaða fyrirtækisins er það góð að ég hef ekki trú á því að það séu nokkrir sem geta keypt það nema þá á sérstöku útsöluverði eða undirverði eins og hefur raunar tíðkast með sölu á ríkisfyrirtækjum.
    Þannig að, eins og ég segi, það eru engin skynsamleg rök sem mæla með því að þetta frv. verði samþykkt eins og það er lagt fram og ég ítreka tillögu minni hluta landbn. um að málinu verði vísað til ríkisstjórnar.