Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 14:14:51 (6500)


[14:14]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Að vissu leyti get ég ekki varist þeirri tilfinningu að það sé dálítið sérkennilegt að vera að eyða tíma þingsins nú í þennan viðbótarpakka við EES á meðan upp hrannast vísbendingar um að Evrópumálin séu öll mjög óljós svo ekki sé meira sagt.
    Fyrst er til að taka að ekki er búið að ganga frá þessum viðbótarpakka í Evrópuþinginu en það kvað eiga að gera það þann 4. maí nk. Kosningabarátta er hins vegar að fara í fullan gang eða í fullum gangi og fyrr hefur það nú gerst að ekki hafi tekist að smala nógu mörgum Evrópuþingmönnum á vettvang til að ganga frá formsatriðum. En látum það nú vera.
    Hitt finnst mér einnig íhugunarvert hve þétt við vefum okkur inn í reglugerðarvef Evrópusambandsins núna þegar við stefnum flestöll nema e.t.v. hæstv. utanrrh. í tvíhliða viðræður við ESB. Væri ekki tilefni til að doka hér við og athuga hvert við ætlum í raun og veru?
    Áður en ég kem að einstökum atriðum þessa pakka, þá langar mig einnig að taka það fram að ég er undrandi á þeim málflutningi sem heyrst hefur frá einstaka stjórnarsinnum og ráðherrum að það sé lítið mál að taka upp einhvers konar aðildarviðræður við ESB til þess að láta reyna á það hvernig gengur og máta treyjuna. Það er auðvitað ekki hægt en þessi málflutningur hefur hins vegar gefið almenningi mjög ranga mynd af raunveruleikanum í þessum efnum.

    Mér þykir það líka dálítið sérkennilegt að við skulum vera að ræða hér mál á meðan gögn eru enn að berast eins og þetta 6. bindi af bláu doðröntunum sem var að koma á borð okkar þingmanna nú í dag. Ef þetta er vísbending um það við hvaða vinnubrögð við megum búa í framtíðinni þá finnst mér sú vísbending gefa fulla ástæðu til þess að staldra við og velta því fyrir sér hvort við höfum ekki verið á rangri leið og séum það. Ég tel nefnilega að nú sé fullt tilefni til þess, hvernig svo sem mál þróast, að fara að taka til við raunverulegar tvíhliða viðræður og ekki láta athugasemdir einstakra ráðherra eða kannski má segja óskhyggju villa okkur sýn.
    Ég vil einnig taka undir það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 7. þm. Reykn., að við erum alltaf að fá nýjar og nýjar vísbendingar um það hvað við erum að reyra okkur inn í mikla fjötra viðskiptahindrana og lokunar á viðskipti við aðra heimshluta heldur en Evrópu. Evrópa er ekki endilega nafli alheimsins. Þó að hún hafi verið okkar menningarlega umhverfi og við höfum átt samleið með Evrópu og eigum, þá verðum við að sýna ákveðna víðsýni og mér þykir það ekki víðsýni þegar verið er að leggja stein í götu almennra viðskipta við heiminn. En það er kunnara en frá þurfi að segja að þar eru mjög sterkar tilhneigingar í þá átt þrátt fyrir allt GATT og aðra alþjóðasamninga.
    En ég tók þann kostinn að fara, þrátt fyrir að nokkuð sé það erfitt, lítillega inn í þau efnisatriði sem við erum hér með og ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að þegar staðið er frammi fyrir óþolandi kostum, þá er ekki nema um tvennt að velja, að gefast upp eða glíma við vandann. Og það er óþolandi kostur að standa frammi fyrir því að eiga einhvern þátt í því að leiða yfir þjóðina það reglugerðafargan sem fylgir aðildinni að EES og nú hefur verið að líkamnast í þeim andlausu bókadoðröntum sem hlaðið var á borð þingmanna fyrst fyrir um það bil tveimur vikum og er enn verið að bæta í. Því miður á ég eins og aðrir óbeinan þátt í að leiða þessa ofstjórn yfir landslýð með því að hafa ekki haft kraft eða fylgi til þess frekar en aðrir stjórnarandstæðingar að sjá til þess að þjóðinni yrði a.m.k. leyft að segja skoðun sína á því hvort hún vildi taka þátt í þessum pappírsfarsa. Freistingin er sú að hafna því að taka þátt í umfjöllun um allar þær gerðir sem fylgja EES og það sýnist mér a.m.k. flestir stjórnarþingmenn hafa gert því að hér er ekki einn einasti slíkur ef frá er talinn forseti og ráðherra sá sem er að spjalla við hann, e.t.v. gáfulega um það sem hér er um að ræða, og sá ráðherra sem í hlut á, hæstv. utanrrh. En það er að mínu mati ábyrgðarleysi að reyna ekki að kynna sér það sem hér er tekið til afgreiðslu hversu hvimleitt sem það verk getur verið og hversu í rauninni óvinnandi það er við þær aðstæður sem okkur eru búnar. En eins og ég gat hér um áðan erum við enn að fá doðranta í hendurnar og ég er a.m.k. ekki svo hraðlæs að ég komist yfir það á hálftíma í miðri atkvæðagreiðslu að kynna mér nokkur hundruð síður af reglugerðum. Og ég er ekkert sérlega feimin við að viðurkenna það. Ég geri ekki ráð fyrir að öðrum séu heldur búnir þeir hæfileikar. Hins vegar hef ég vissulega ásamt öðrum utanríkismálanefndarfulltrúum setið og hlýtt á samviskusamt ráðuneytissfólk sem er alls ekki of sælt af því að glíma við það verk að koma EES fyrir í hverjum króki og kima sem finnst í andlegu og veraldlegu rými ráðuneytanna.
    Ég mun ekki hér frekar en aðrir í umræðunni geta gert skil öllum þeim reglugerðarbreytingum sem fylgja þessum pakka af EES-gjörðum. Lagabreytingarnar fá sjálfstæða umfjöllun, en að vísu aðeins sýndarumfjöllun því að aðeins er hægt að samþykkja þær undir EES-rétti en ekki synja. Mér finnst hins vegar rétt að greina frá nokkrum atriðum sem fram hafa komið vegna þessa viðbótarpakka.
    Í fyrsta lagi hlýtur að verða að spyrja: Í þágu hvers er verið að undirbúa hinar smásmugulegustu reglur? Er það t.d. í þágu neytenda? Svo er nefnilega oft látið í veðri vaka. En þá skýtur skökku við að hluti af viðbótarpakkanum sem hér um ræðir fjallar m.a. um það að við megum ekki krefjast þess að vara sé seld hér á landi merkt þeim upplýsingum sem við höfum fram til þessa krafist og erum við þó frekar aftarlega á merinni í neytendavernd og umhverfisvernd. Þarna er m.a. um að ræða upplýsingar sem geta skipt máli fyrir neytadandann, t.d. um aukefni og aðskotaefni í matvælum. Nú er vitað að upplýsingar um aukefni geta skipt þá máli sem hafa óþol eða ofnæmi gagnvart ýmsum efnum auk þess sem einhver slíkra efna liggja undir grun um að vera krabbameinsvaldandi þótt oft sé það ekki sannað. Í þessum EES-gjörðum er verið að gæta hagsmuna vöruframleiðenda, ekki neytenda. En til að bæta upp skort á pappírsvinnu um slík mikilvæg mál þá liggur fyrir heilmikil vinna í staðinn sem mun fara í að ganga frá eyðublöðum sem senda á eftirlitsstofnun EFTA, þ.e. þau eyðublöð sem sýna hvernig staðið er að framkvæmd samningsins á matvælasviði þannig að ef Hollustuvernd fær þau eitt eða tvö stöðugildi sem talið er nauðsynlegt að komi í þá stofnun í viðbót vegna aukaálags vegna aðildarinnar að EES, þá er líklegra að það verði fjallað um form upplýsinga heldur en innihald hjá þessum nýju starfsmönnum. Ég hef enga trú á því að fólki sé það almennt ljúft að eyða tíma sínum á þennan veg en þetta er sá rammi og sú umgjörð sem EES býr okkur.
    Önnur breyting sem staðfestist í þessum viðbótarpakka er að nú verður okkur skylt að leyfa auglýsingar á lyfjum, þ.e. þeim sem ekki eru lyfseðilsskyld. Þetta mál var nokkuð rætt þegar EES var til umfjöllunar og mátti þá stundum halda að menn tryðu því ekki að til þessa kæmi. En mér finnst það a.m.k. spor aftur á bak ef við ætlum að fá yfir okkur hvatningu um að nota alls konar lyf og helst sem mest af þeim. Hvernig á þetta við ef við erum að hugsa um hagsmuni neytenda? Á að fara að telja mönnum trú um það t.d. að einhverjar vængjaðar verkjatöflur leysi öll mál í takt við aðrar vængjavörur sem hér eru á markaði? Eða hvað er það eiginlega sem við erum að kalla yfir okkur með þessu? Ég trúi því ekki að það geti verið markmið eða vilji einhvers að auka lyfjaneyslu jafnvel þótt um sé að ræða lyf sem ekki eru lyfseðilsskyld.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v., Páll Pétursson, hefur þegar gert að umtalsefni þær kröfur sem gerðar eru til búnaðar bifreiða og ég hef ekki miklu við það að bæta, en tek undir að þarna ræður einföld hugsun, þ.e. að reyna að nýta slíkar kröfur til að bæta stöðu evrópskra bíla umfram annarra. Ég vil líka árétta það vegna athugasemda sem mig minnir að hafi komið frá hæstv. viðskrh. um að hér væri um að ræða fáar bílategundir og jafnvel ekki nema eina sem væru útilokaðir frá markaði okkar, þá er það ekki rétt. Hér er um að ræða allnokkrar vinsælar tegundir sem fram til þessa hafa þótt fullboðlegar hér á Íslandi, m.a. af þekktum amerískum bílagerðum, og við höfum ekki fengið svör sem í rauninni taka af öll tvímæli um það hvernig verður með austur-evrópska bíla. Það er einfaldlega ekki vitað hvernig þeir munu standa sig í þessari kröfugerð sem nú er verið að setja yfir okkur.
    Þó að það sé kannski orðið nokkuð gamalt mál langar mig að geta þess að góðkunningi okkar alþingismanna, vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum, er hér enn á dagskrá og mun verða í framtíðinni. Það mál er svo sannarlega ekki komið í höfn þrátt fyrir alla þá vinnu og þær tungumálaskýringar sem fram fóru í fyrravetur þar sem m.a. kom í ljós að menn höfðu ruglað saman grunnhugtökum án þess að nokkur fyndist í lengri tíma sem hafði áttað sig á því að það hefði verið gert. Það hefur komið í ljós að öll EES-vinnan er ekki fullnægjandi miðað við kröfur GATT og það þarf að taka málið upp á nýtt. Ég býst við að þingmenn hljóti að hafa blendnar tilfinningar til þess að fara að taka þetta mál upp eina ferðina enn.
    Virðulegi forseti. Þessi pakki, þessar 400 gerðir með öllum sínum sérkennum og skringilegheitum, er vissulega ekki mergurinn málsins. Við höfum þegar tekið þá ákvörðun sem hafði úrslitaáhrif og það í bullandi ósátt bæði við þjóð og þann nauma minni hluta þingsins sem var fyrir því að málið yrði lagt fyrir þjóðaratkvæði. Ég ætla ekki að fara að taka upp efnislega umræðu um EES-stöðuna yfir höfuð, en mér finnst hins vegar mikið íhugunarefni að núna þegar jafnvel innan þjóða Evrópubandalagsins eru uppi verulegar efasemdir um þróun mála þá séum við að tryggja okkur stöðu í þessu feni sem við vitum ekki hvort er að sökkva eða festa okkur. Við vitum í rauninni afskaplega lítið um þessi mál.
    Eins og gengur og gerist er í EES-pakkanum bæði um jákvæðar og neikvæðar gjörðir að ræða, en ég vil ítreka það enn og aftur því að mér finnst þess misskilnings gæta mjög að það er ekkert því til fyrirstöðu að við breytum því sem breyta þarf í íslenskum lögum og við þurfum ekkert EES til þess að gera það. Fyrst og fremst eigum við það við okkur sjálf hvaða lagabreytingar við gerum og að sjálfsögðu er það það sem gildir og ekkert annað.
    Virðulegi forseti. Mér þótti það mjög athyglisvert þegar ég rak augun í það miðvikudaginn 13. apríl sl. að í Staksteinum Morgunblaðsins var farið að fjalla um efasemdir innan Evrópubandalagsins og þar vitnað í orð breska sagnfræðingsins og blaðamannsins Pauls Johnsons sem skrifar vikulega í ,,The Spectator``. Hann er sérstaklega að gera þar að umræðuefni mál sem hefur verið okkur andstæðingum Evrópusamrunans mjög hugleikið, þ.e. hve lýðræðið stendur völtum fótum í Evrópu og þar tekur þessi sagnfræðingur og blaðamaður, Paul Johnson, í raun upp mörg af þeim rökum sem hér hafa margsinnis verið rædd í þingsölum. Mér þykir það bæði áhugavert og athyglisvert að Morgunblaðið og fulltrúar í löndum innan Evrópubandalagsins skuli vera með þessa umfjöllun og ég vona það að alla vega sá stjórnarflokkur sem hefur verið kenndur við Morgunblaðið lesi blaðið gaumgæfilega og dragi e.t.v. einhvern lærdóm af því lesefni sem þar er.