Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 14:30:36 (6501)


[14:30]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er öllum kunnugt að nú þegar þetta mál kemur hér til umræðu, þá hafa þeir atburðir gerst að Evrópska efnahagssvæðið er að ýmsu leyti komið á það sem kallað hefur verið síðasta snúning. Við vorum ýmsir sem spáðum því hér fyrir rúmu ári síðan að samningaviðræður Norðurlandanna þriggja og Austurríkis við Evrópusambandið mundu ganga fljótt fyrir sig og þess vegna væri nauðsynlegt þegar fyrir rúmu ári síðan að hefja undirbúning að því hvað tæki við af hálfu Íslands. Hér í þessum sal vildi hæstv. utanrrh. ekki taka mikið mark á þeim spádómum að samningaviðræðum Norðurlandanna þriggja og Austurríkis við Evrópusambandið mundi ljúka fljótt, heldur flutti hér lærðar lýsingar á því að kynni hans af Evrópusambandinu væru á þann veg að þetta mundi taka mjög langan tíma og Evrópska efnahagssvæðið mundi þess vegna vera við lýði mörg ár enn.
    Þegar við fjöllum nú um þær viðbætur sem orðið hafa í reglusetningu á vegum Evrópusambandsins frá því að samningur um Evrópskt efnahagssvæði var undirritaður og þar til hann tekur gildi, þá er staða málsins í raun og veru sú að miklu nær væri að ræða hér á þinginu með hvaða hætti samningaviðræður Íslands við Evrópusambandið um að breyta samningnum um Evrópska efnahagssvæðið í tvíhliða samning eigi að fara fram. Ég hef þess vegna óskað eftir því í utanrmn. að í tengslum við þetta mál verði gerð grein fyrir því, bæði af hálfu hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. hvernig ríkisstjórnin hyggst halda á samningaviðræðum við Evrópusambandið um það hvað taki við þegar Evrópska efnahagssvæðið líður undir lok.
    Í sjálfu sér er ekki margt um það að segja sem felst í bakgrunni þeirra texta sem hér er verið að fjalla um. Þeir eru mjög margbrotnir. Margir þeirra eiga ekkert við hér á Íslandi og munu aldrei hafa nein áhrif á atferli manna og starfsskilyrði hér á landi. Aðrir eru með þeim hætti að þeir koma eðlilega inn sem

breyting á reglugerðum og hugsanlega lagasetningu og tengjast fjölmörgum sviðum í íslensku þjóðfélagi. Margir þeirra eru einnig á þann veg að þeir eru eðli málsins samkvæmt til bóta.
    Hins vegar er einn hlutur í þessu máli, eins og hv. 7. þm. Reykn. vakti athygli á hér áðan, sem er nauðsynlegt að hæstv. utanrrh. geri sér skýra grein fyrir og kom utanríkismálanefndarmönnum satt að segja nokkuð á óvart þegar nefndin á undanförnum vikum fór yfir þær reglusetningar sem eru inntak þeirrar staðfestingar sem hér er verið að fjalla um. Þetta eru ákvæði sem greinilega mismuna vörum frá t.d. Ameríku, Japan og öðrum Asíuríkjum, annars vegar bifreiðum og hins vegar hinum fjölmörgu vörutegundum á sviði tækjabúnaðar sjúkrahúsa og tækjabúnaðar í heilbrigðismálum almennt. Nú er það þannig t.d. að á undanförnum árum hefur það komið í ljós að tæki frá Japan hafa reynst mun ódýrari í innkaupum fyrir íslenskar heilbrigðisstofnanir heldur en tæki frá Evrópu. Það var fullyrt af hæstv. utanrrh., ég man ekki hvað oft en skiptir mörgum tugum, að vegna þess að Ísland væri ekki að ganga inn í tollabandalag Evrópusambandsins, þá mundi aldrei tengjast EES-samningnum óhagkvæmni hvað snertir viðskipti Íslendinga við Bandaríkin og Asíu. Nú er það hins vegar nokkuð ljóst, hæstv. utanrrh., að á sviði bifreiða og á hinu fjölbreytta sviði og æ mikilvægara sem snertir tækjakost sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana er í efnisinnihaldi þess sem hér er fjallað um um slíka mismunun að ræða. Ég vil þess vegna ítreka þá spurningu til hæstv. utanrrh.: Hvernig hyggst hann bregðast við því? Eða ætlar hann að mæla með því að við förum að ganga þá götu að gera viðskipti Íslendinga við þessar tvær mikilvægu viðskiptaheildir, Asíu og Vesturheim, óhagkvæmari vegna hins Evrópska efnahagssvæðis? Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra flytji skýr svör við þessu hér.
    Það kom jafnframt fram í umfjöllun utanrmn. að ábyrgðaraðilum og stjórnendum á sviði heilbrigðismála er engan veginn ljóst hvernig á að lögtaka á Íslandi þá þætti þessa máls sem snerta tækjabúnað og annað á sviði sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana. Satt að segja var þessum forráðamönnum til efs að það yrði kleift á Íslandi að gera það. Þeirra skoðun var sú að líklegast væri skynsamlegt og jafnvel óhjákvæmilegt fyrir Íslendinga að reyna ekki að láta slíkt gilda hér á landi.
    Virðulegi forseti. Tími minn er senn úti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég hef þegar beitt mér fyrir því í utanrmn. að í tengslum við þetta mál fari fram ítarleg umræða um viðræður Íslands við Evrópusambandið um framtíðarskipan þeirra mála því það sem við erum hér að fjalla um heyrir senn sögunni til. Tímabil sem olli hér miklum deilum en hefur orðið mun skammvinnara en talsmenn þess fullyrtu í þessum sal og ég vænti þess að bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. veiti skýr svör við því. Sérstaklega er nauðsynlegt að þingið átti sig á því hvort það er samhljómur í afstöðu hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. í þessu máli. Þess vegna hef ég óskað eftir því að forsrh. geri sérstaka grein fyrir sinni afstöðu og hæstv. utanrrh. geri einnig sérstaka grein fyrir sinni afstöðu.