Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 15:38:16 (6508)


[15:38]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vissulega er það rétt hjá hv. 7. þm. Reykn. að þessi samningur er óvenjulegur í samanburði við aðra milliríkjasamninga vegna þess hversu mikill hann er að vöxtum. Og vegna þess að hér er verið að yfirtaka í raun og veru hluta af löggjöf Evrópusambandsins á samkeppnissviðinu til þess að tryggja okkur samræmdar samkeppnisreglur og samræmda staðla varðandi útflutningsafurðir á þessum markaði. Það gerist með þeim hætti að samningum var lokið. Því næst hafa verið gefnar út reglugerðir til viðbótar sem við sömdum í upphafi um að við myndum taka yfir til að tryggja markmið samningsins um einsleitni markaðarins.
    Ég fellst fúslega á það að samningurinn er að þessu leyti óvenjulegur vegna umfang hans og stærðar. En eftir stendur að Alþingi Íslendinga er að því leyti í sömu sporum, það hefur samþykkt EES-samninginn sem þjóðréttarsamning og það er að því leyti í sömu sporum og við samþykkt eða synjun annarra milliríkjasamninga. Í því felst ekki afsal á löggjafarvaldi vegna þess að Alþingi hefur þetta vald að hafna.
    Að því er varðar spurningu hv. þm. um fyrirhugaða för hæstv. forsrh. til Brussel þá er það því miður svo að ég get ekki svarað spurningu hv. þm. frekar. För hæstv. forsrh. hefur verið boðuð, hvort hún hefur verið frekar undirbúin á þessari stundu er mér ekki fullkunnugt um og það hafa engin samtöl farið fram um það hvort við færum þangað saman.