Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 15:43:21 (6511)


[15:43]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég held að það sé engin ástæða til að fara að etja fólki saman sem á aðild að utanrmn. en ég ítreka það að ekki verður maður fróðari en þær upplýsingar sem gefnar eru og þær voru allskilmerkilegar. Við fulltrúar í utanrmn. lögðum nokkuð nákvæmar spurningar fyrir þá sem komu á fund nefndarinnar. Ég geri ráð fyrir því að það sé fyrst og fremst vegna þess að það var ein tegund sérstaklega nafngreind að þess vegna hafi mönnum orðið tíðrætt um þá bílategund. En ég trúi ekki öðru en að staðreyndir þessa máls muni stýra því. Ég geri þá ráð fyrir því að þetta muni fást á hreint fyrir okkur sem erum í utanrmn. og við getum þá komið til þessarar umræðu. Ég er ekki að vefengja orð eins frekar en

annars heldur er ég að gefa upplýsingar um það hvað okkur er sagt. Og eins og ég ítreka, maður verður ekki vitrari en þær upplýsingar sem fyrir liggja geta gert mann.
    Varðandi það að almennt, svo ég haldi nú áfram aðeins í andsvari, að efnisatriði séu öll í góðu lagi þá má vera að ég hafi ekki heyrt þegar hæstv. ráðherra svaraði því en ég held að hann geti ekki haldið því fram að hér hafi menn komið og sagt að almennt væru þessar 400 gjörðir í góðu lagi. Og ég bið hann þá velvirðinar ef ég hef ekki heyrt að hann hafi dregið það til baka en hann sagði það í ræðu sinni að mestmegnis væru menn sammála því. Ég vil bara leiðrétta það og vona að hæstv. ráðherra hafi meðtekið það og viðurkennt.