Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 15:45:24 (6512)


[15:45]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég get upplýst það strax að hæstv. forsrh. fór til útlanda í morgun. Nú er mér ekki kunnugt hvort hann var á leið til Brussel en vera má að hann sé farinn til Brussel. ( Utanrrh.: Hann fór til Ítalíu.) Og ekki með viðkomu í Brussel? Þá er Brusselferð hæstv. forsrh. enn þá á huldu eða hvenær hann fer. Ég var að vona að hann hefði undið sér í að fara til Brussel.
    Hæstv. utanrrh. flutti hér ræðu áðan sem mig langar til að gera athugasemdir við. Hún var að hluta til svar við ræðu sem ég flutti fyrir nokkrum dögum um þetta efni. Þá var hæstv. utanrrh. því miður ekki viðlátinn heldur var starfandi utanrrh., Sighvatur Björgvinsson iðnrh. og viðskrh., málshefjandi og ábyrgðarmaður þessa máls. Hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni áðan að í nóvember í fyrra hefðum við fengið upplýsingar um þessar tilskipanir sem við erum hér að fjalla um. Þetta er að nokkru leyti rétt hjá hæstv. utanrrh. en við vorum ekki búin að fá textana og þaðan af síður íslenskan texta ef ég man rétt. Það er fyrst í morgun sem bornar eru á borð okkar þessi litla bók hérna, bók nr. 6 af tilskipunum og hún er hvorki meira né minna en 594 bls. Þessi bók kom ekki fyrr en í morgun og í henni er --- mér hefur ekki unnist tími til að lesa hana. Hæstv. utanrrh., hæstv. umhvrh. --- af hverju segi ég alltaf utanrrh. um hæstv. umhvrh.? ( Gripið fram í: Sú kemur tíð.) Ég er að vísu búinn að greina frá því að ég tel að þetta sé fyrirboði þess að hann taki fljótlega við þessu eftirsótta utanríkiráðherrastarfi og mikilvæga. En hæstv. umhvrh. vakti athygli mína á því að meðal þess sem talað er um hér í bók 6, úrgang í gulu skránni, sem hefur forgang þegar endurskoðunarhópur OECD endurmetur hana. Þar er m.a. fljótandi svínaskítur, saur. Nú held ég að fljótandi svínaskítur sé ekki verulegt vandamál á Íslandi enn þá. Að sjálfsögðu er mengun í landbúnaði eða mengun sem getur stafað frá landbúnaði vandamál en það er ekki stórkostlegt vandamál hér. Við þurfum auðvitað að hafa á okkur allan vara og ganga siðsamlega um. En að yfirtaka reglur þéttbýlla landbúnaðarlanda suður í álfu þar sem ríkir allt annað loftslag og allt aðrar aðstæður kann að vera okkur að minnsta kosti til óþurftar og kostnaðar og í sumum tilfellum óþarfar. Það fylgja nefnilega þessum tilskipunum mörgum þeirra, veruleg óþægindi og kostnaður. Sumar geta verið töluvert alvarlegar.
    Hér í umræðunni sagði hv. 6. þm. Vestf. frá tilskipun varðandi mjólkurkýr. Ég hafði nú ekki komið auga á þessa tilskipun og mér hefur ekki unnist tími til að skoða það mál en það getur vel haft veruleg áhrif í íslenskum landbúnaði að undirgangast svona tilskipun. Ef við t.d. viljum flytja út ost sem við stundum höfum getað gert með góðum árangri þá þá er ekki formlega rétt staðið að ostagerðinni ef kýrnar væru mjólkaðar að sumri til í fjósi og nú reiði ég mig á annarra orð. Svona morar í atriðum sem maður er stöðugt að finna sem eru mikið umhugsunarefni. Það getur vel verið að það sé töluvert vit í því suður í Evrópu að setja reglur eins og þessa með mjólkina, þ.e. að gripina megi ekki mjólka inni í fjósi að sumrinu. En það er ekkert vit í því miðað við íslenskar aðstæður. Við búum við ákaflega stranga mjólkurreglugerð sem hefur verið notuð öðrum þræði til framleiðslutakmörkunar í mjólkurframleiðslu. Það er að segja af því að við framleiddum óþarflega mikla mjólk fyrir innanlandsmarkað þá var hert á mjólkurreglugerðinni þannig að menn yrðu að farga kúm sem ekki stóðust hinar allra stífustu heilbrigðiskröfur og það er alltaf verið að herða á þessari reglugerð. En varðandi smithættu í fjósum þá hygg ég að það sé hættulegra við íslenskar aðstæður að vera að mjólka í útiskýlum eða gerðum heldur en í forsvaranlegum fjósum.
    Þessum gerðum má, eins og ég tók fram um daginn, skipta í nokkra hluta eða flokka. Ýmislegt af þessu eru sjálfsagðir hlutir. Eins og það að karlar og konur megi ekki nota sama klósettið í einu, þ.e. kynin fari sitt og hvað á klósettið, a.m.k ef þau fari saman þá sé það með beggja vilja. En þetta eru sjálfsagðir hlutir og margt fleira í þessum gerðum eru sjálfsagðir hlutir sem við þurfum ekkert að taka nærri okkur að fara eftir. Síðan er í þessu allra handa smásmygli sem kannski skaðar okkur ekki en er okkur til óþæginda eða leiðinda. En rauði þráðurinn í þessu tilskipanaverki er náttúrlega að koma upp tæknilegum viðskiptahindrunum. Að vernda framleiðslu Evrópusambandsins gagnvart samkeppni utan í frá. Þetta apparat gengur út á það að vernda sjálft sig, þ.e. Evrópu gagnvart viðskiptum utan að frá. Það er búið að nefna hér mörg dæmi í þessari umræðu og ég ætla ekkert að fara að endurtaka það sem ég sagði um daginn eða það sem aðrir sögðu um daginn um þess háttar hluti. En það morar allt í þessu. Síðan er margt af þessu svoleiðis upp sett að menn geta herjað á aðila utan bandalags en ekki innan.
    Það kemur upp í hugann, þó það sé kannski ofurlítið óskylt mál og þó ekki, vinna sem framkvæmd var í morgun í hv. iðnn. Þar vorum við að fjalla um frv. um undirboðstolla, þ.e. frv. sem fjmrh.

hæstv. flutti fyrir nokkru síðan þar sem verið er að smíða vopn handa hæstv. fjmrh. til að verjast undirboðum utan í frá. Við fórum að velta þessu fyrir okkur með skipasmíðarnar og það kemur í ljós að þetta vopn, sem þarna var smíðað og ef fjmrh. vildi beita því, bítur t.d. á Pólverja. En það bítur ekki á Norðmenn vegna þess að þeir eru aðilar með okkur að Evrópsku efnahagssvæði og þeir geta hagað sér bara eins og þeim sýnist og hafa hagað sér eins og þeim sýnist í þessu efni. Við getum sem sagt náð okkur niðri á Pólverjum ef okkur sýnist svo eða fjmrh. sýnist svo. En við getum ekki notað þetta vopn á Norðmennina. Við yrðum þá að leita annarra vopna, þeir eru stikkfrí. Svona mætti lengi telja.
    Varðandi lækningartækin sem hæstv. utanrrh. gerði hér að umtalsefni þá segir beinlínis í þeim tilskipunum sem við höfum verið að skoða, skýrum stöfum, að ekki sé heimilt að setja á markað lækningartæki sem ekki uppfylla þessa staðla. Ekki heimilt að setja þau á markað. Ég lít svo á að það sé ekki heimilt að setja þau á markað á Evrópsku efnahagssvæði ef þau ekki uppfylla þessa staðla. Og þar með er verið að útiloka okkur frá því að kaupa ný tæki frá Japan eða Bandaríkjunum. Auðvitað þarf að endurnýja tæki á spítölum en það er verið að binda okkur við að kaupa tæki sem framleidd eru í Þýskalandi eða annars staðar á Evrópsku efnahagssvæði.
    Hæstv. utanrrh. gerði það að máli í ræðu sinni að við hefðum tvo möguleika við þessar tilskipanir: Að samþykkja þær eða synja þeim. Mér finnst freistandi að láta á það reyna að synja nú einhverju af þessu. Mér finnst það dálítið freistandi. Það er kannski seint í rassinn gripið af því að við höfum ekki gert fyrirvara og hæstv. utanrrh. hefur þá ekki verið vakandi yfir því að gera fyrirvara sem við átti. En ég spyr: Hvað gerist ef við synjuðum nú að taka þennan pakka? Ef við synjuðum að taka í okkar regluverk eða taka upp regluverkið sem Brussel hefur framleitt á tímabilinu 1. ágúst 1991 til 31. des. 1993, þessar 500 tilskipanir, ef við létum eftir okkur að prófa? Ég er ekki viss um að við slyppum neitt billega út úr því.
    Hæstv. utanrrh. var að líkja þessu við aðra fjölþjóðlega samninga eða þjóðréttarsamninga sem við Íslendingar höfum verið að gera og ég hef tekið þátt í að samþykkja samninga sem hafa verið fullgerðir, það er alveg rétt munað hjá hæstv. utanrrh. En þessi samningur er ekki líkur neinum öðrum sem við höfum verið að fjalla um á undanförnum árum. Það ber öllum saman um að þessi samningur er miklu, miklu víðtækari en nokkur einstakur samningur sem við höfum gert á undanförnum árum.
    Hæstv. utanrrh. vill meina að þær tæknilegu viðskiptahindranir sem settar eru á bíla eigi einungis við um bílasmíði. Hann talar um að Íslendingar geti ekki tekið neinn þátt í henni. Það vill nú svo til að það er fyrirtæki á Íslandi sem breytir bílum, m.a. amerískum bílum, sem endurbætir bíla þannig að þeir verða öflugri fjallajeppar. Það vill nú svo til að forgöngumaður um þá bílasmíði heitir Benedikt Eyjólfsson og er sonur hv. 4. þm. Reykv. Það er ekkert vitlausari atvinnugrein en hver önnur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í utanrmn. þá eru einungis þrjár týpur af Ford sem standast Evrópustaðalinn, einungis þrjár týpur. Allt er þetta náttúrlega gert til þess að reyna að gera það óaðlaðandi fyrir okkur að kaupa bíla annars staðar en af Evrópubandalaginu.
    Hæstv. utanrrh. var að draga í efa það sem ég hafði sagt um það sem ég kallaði lögreglu suður í Brussel og kom með fullyrðingar sem stönguðust á við það sem ég sagði í ræðu minni um daginn. Það vill svo til að ég hef hér í höndum fyrirlestur eða greinargerð sem Björn Friðfinnsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, og einn af yfirmönnum Samkeppnisstofnunarinnar ESA lét mér í té og þetta er eftir hann, þetta erindi. Ég ætla að leyfa mér að lesa úr þessu örlítinn kafla, með leyfi forseta, og nú tek ég til við að lesa texta Björns Friðfinnssonar:
    ,,Starfsmenn ESA eru nú um 90 talsins og verða væntanlega rúmlega 100 þegar starfsemin er komin í fullan gang. Af þeim starfsmönnum sem þegar hafa verið ráðnir eru 11 Íslendingar en starfsmenn EFTA og ESA hér í Brussel eru samtals 20 talsins. Hefur því íslenska nýlendan í Brussel stækkað hlutfallslega mikið að undanförnu. Kostnaður við rekstur stofnunarinnar á ársgrundvelli verður væntanlega samkvæmt fjárhagsáætlun 1994 rúmlega 21 millj. svissneskra franka eða 1.033 millj. íslenskra kr.``
    Þetta eru þær upplýsingar sem ég lagði til grundvallar í ræðu minni um daginn. Með fullri virðingu fyrir því sem hæstv. utanrrh. kann að halda fram þá trúi ég nú yfirmanni ESA, Birni Friðfinnssyni, betur í þessu efni. Ég sagði aldrei að Íslendingar greiddu þessar 1.033 millj. einir, sem það kostar að hafa þetta lögreglulið. Og þetta lögreglulið er bara til þess að passa það að við EFTA-þjóðirnar förum eftir tilskipununum, fullgildum þær og förum eftir. Þetta er ekki neitt sem við getum notað á hinn aðilann þ.e. Evrópusambandið til að gæta réttar okkar við þá. Þessu er beitt á okkur sjálf. Björn Friðfinnsson segir í þessu sama erindi:
    ,,Á þessu ári greiða Íslendingar til rekstrar EFTA, ESA og dómstóls EFTA samtals 542 þús. svissneska franka eða um 26,6 millj. íslenskra króna.``
    Auðvitað tökum við á okkur verulegar skyldur með því að vera aðilar að Evrópsku efnahagssvæði, það er enginn vafi á því. En innganga í Evrópusameininguna, sem ég spái að verði á næsta kosningaprógrammi hæstv. utanrrh., leggur náttúrlega á okkur miklu meiri skyldur og miklu meira fullveldisafsal en nokkurn tímann aðild að EES. Mig langar til, frú forseti, að vitna til skyldna sem þær EFTA-þjóðir vinir okkar eru að taka á sig með inngöngu í Evrópubandalagið. Ég hef hér í höndum frá Evrópuþinginu rapport um umhverfismál þar sem verið er að fara yfir það hverju EFTA-ríkin sem eru að sækja um aðild verði að breyta hjá sér. Þ.e. hvaða reglur séu of strangar í umhverfismálum hjá viðkomandi

EFTA-ríkjum. Og þau verða að gera svo vel og slaka til og það er eitt af því sem þau verða að borga fyrir að gerast aðilar að þessu samstarfi eða sameiningu. Austurríkismenn verða að leyfa meiri og þyngri vöruflutninga í gegnum Austurríki. Þeir verða að breyta reglum eða aflétta reglum um verslun með hættuleg efni og merkingu hættulegra efna. Þeir verða að slaka á kröfum sínum um ósoneyðandi efni, hættuleg úrgangsefni og blý í bensíni. Við skulum sjá hvað Svíar þurfa að gera. Þeir þurfa að slaka á reglum sem Svíar hafa um útblástur úr bifreiðum, þeir verða að slaka á reglum um verslun með hættuleg efni, slaka á reglum um ósoneyðandi efni og um skordýraeitur. Þ.e. þeir verða að leyfa meiri eiturnotkun en þeir gera í dag. Þetta er svipað hjá Norðmönnum, þeir hafa svipaða staðla og Svíar. Ég veit að það veldur umhverfissinnum á Norðurlöndum og þeim sem láta sig umhverfismál varða verulegum áhyggjum hvað Norðurlöndin eða umsóknarlöndin Noregur, Svíþjóð og Finnland verða að slaka geysimikið á sínum kröfum og þá kannski sérstaklega varðandi ósoneyðandi efni þar sem þau hafa verið í nokkurri forustu. Þetta sama á við bæði um Svía, Norðmenn og Finna.
    Nú vitum við ekki nákvæmlega hvaða tilskipanir eru í farvatninu frá Brussel-fabrikkunni. Við eigum að vísu að fá um það upplýsingar á meðan þær eru á mótunarstigi eða í pípunum eins og þeir kalla það. En okkar aðstaða til að hafa áhrif á þær er nú ekki mikil og reyndar eins og ég hef oft tekið fram og allir vita eru áhrif þingmanna afskaplega lítil í þessu apparati þarna suður frá.
    Ég hef hér í höndum upptalningu og heiti á nokkrum þessara gerða, þ.e. það sem komið var út úr fabrikkunni 9. mars 1994, frá áramótum. Þetta eru sjálfsagt eitthvað í kringum hundrað tilskipanir, ég hef reyndar ekki lagt það á mig að telja þær. Ég hef heyrt sagt að í þessu séu tilskipanir bæði hvað varðar leyfilegan hámarksvinnutíma og eins vinnu ungmenna. Ég veit ekki hvað rétt er í þessu og veit ekki hvernig tilskipanirnar hljóma. Ég hef hér fyrir framan mig nafn á ,,Proposal for Council Directive Concerning the Protection of Young People at Work``. Síðan fylgir til mikillar upplýsingar, þótt ég nái ekki samhenginu alveg: COM 91 543 final (OJ NO C 48,04.04 92) as amendend become 93 35 (OJ NO C 77,18.3 93). Ég veit sem sagt ekki nákvæmlega hvað stendur í þessari reglugerð, en ég hygg ef hér hefur verið rétt hermt að það sé framandi fyrir Íslendinga og ekki í samræmi við það vinnulag sem við Íslendingar höfum tíðkað eða þann vinnutíma sem á Íslandi hefur viðgengist og ég tel að megi alveg viðgangast áfram.
    Hæstv. utanrrh. var að gorta dálítið af því hvernig hann hefði staðið að þessum samniningi, þ.e. inngöngu okkar á Evrópskt efnahagssvæði og hann tók sér það í munn að það hefði tekist að halda í landinu framkvæmdarvaldi og dómsvaldi sem hefði verið lögð mikil áhersla á. Ég er honum ekki sammála um þetta og get reyndar sannað að það var ekki gert, ekki fullkomlega. Hluta af bæði framkvæmdarvaldi og dómsvaldi var afsalað en hann nefndi ekki löggjafarvald og það var smekklegt hjá honum vegna þess hvernig verkum er háttað á Alþingi í dag.
    Það væri freistandi að fara út í þá umræðu sem hæstv. utanrrh. bauð upp á varðandi viðskipti okkar og viðskiptasambönd annars staðar í heiminum. Raunar hefði mig fýst mjög að fá umræðu um þá skýrslu sem hæstv. utanrrh. lagði fram einhvern tíma á útmánuðum um viðskiptamál Íslendinga og ekki hefur verið rædd í þinginu en það verður sennilega ekki tími til þess í vor. En ég vil aðeins segja þetta varðandi NAFTA: Ég held að við eigum að reyna að koma á tvíhliða fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Ég held að það sé einfaldara og alveg eins hagstætt og að standa í samningastússi um aðild að NAFTA. Okkar meginviðskiptasvæði á NAFTA-svæðinu er Bandaríkin. Ég tel hins vegar að það þurfi ekki að kaupa það með hersetu eða með, eins og hæstv. utanrrh. orðaði það minnir mig, með samvinnu í varnarmálum. Ég tel að þetta sé sjálfstætt mál og við eigum ekki að taka það upp á þeim grundvelli að við séum að leigja okkur undir herstöð. Við eigum ekki að tengja þessa hagsmuni saman. Við eigum að láta viðskiptahagsmuni ráða, láta á það reyna hvort Bandaríkjamenn vilja gera við okkur fríverslunarsamning og meta það hvort við gætum ekki haft af honum umtalsverða hagsmuni.
    Það væri líka freistandi að ræða í framhaldi af því sem hæstv. utanrrh. sagði hina frækilegu för hans til Austurlanda fjær sem staðið hefur alllengi. Við fengum lauslegar fréttir frá för hans og þjóðin fylgdist í ofvæni með hvað þessi góði sonur hennar var að gera þar eystra. Meira að segja fengum við nákvæmar fréttir af meltingu hæstv. utanrrh. En það sem mér fannst óvæntast og kannski mestu tíðindi úr förinni voru fréttir um það að hann hefði stofnað sendiráð í, ég man ekki hvernig hann segir það, Pi Ching, sem við þessir heimaalningar hér á þinginu höfum venjulega kallað bara Peking en mér skilst að hæstv. utanrrh. kalli þetta Pi Ching. Þetta sendiráð kom okkur mjög á óvart vegna þess að hæstv. utanrrh. var búinn að upplýsa það í utanrmn., ég held daginn áður en hann fór, að það stæði ekki til að setja þarna upp sendiráð í bili heldur var hann að kanna möguleika á því að koma sendifulltrúa inn í sendiráð einhverrar Norðurlandaþjóðar og þá helst Svía í þessari nefndu borg. Um það urðu dálitlar umræður í utanrmn.
    Ég spurði hæstv. forsrh. tíðinda af þessum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í kjölfar þeirra frétta sem komu af ferð hæstv. utanrrh. Niðurstaðan varð sú að mér fannst að hæstv. forsrh. vissi nákvæmlega jafnlítið um þetta og ég en hann hélt því þó fram að þessi sendimaður ætti að hafa sendiherrastatus í Peking sem mér fannst mjög ótrúlegt og það var ekkert í samræmi við það sem hæstv. utanrrh. hafði upplýst í utanrmn. En hér kallar hæstv. utanrrh. þetta sendiráð innan sendiráðsins, þ.e. íslenskt sendiráð í maganum á sænska sendiráðinu í Pi Ching. Ég sé ekki hvernig það getur farið vel á þessu og hvernig þetta íslenska sendiráð á að þrífast þarna. Það má vera að þetta sé tæknilega leysanlegt og kannski er þetta hagkvæmt. Þarna er e.t.v. fundin framtíðarstefnan fyrir íslensku utanríkisþjónustuna að reyna bara að vera í einhverri

húsmennsku hjá annarra þjóða sendiráðum. Ég er ekki að mæla með þeirri leið, frú forseti.
    Ég fer að láta máli mínu lokið. Mér finnst að hendur okkar hér á Alþingi séu bundnar. Við getum ekki annað en látið það yfir okkur ganga að taka þessar tilskipanir upp. Við gætum verið fullsæmd af því og lifað hér góðu lífi þó að við gerðum það ekki, en afleiðing af þeim gerningi sem illu heilli var gerður í fyrra er sú að ég hygg að við komumst ekki hjá því að hlýða þeim í hinni raunverulegu höfuðborg okkar, Brussel, og því sem þaðan kemur.