Verkfall meinatækna

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 16:30:08 (6517)

[16:30]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í rúmar tvær vikur hafa meinatæknar á öllum helstu sjúkrahúsum landsins verið í verkfalli. Með hverjum deginum sem líður verður ástandið á sjúkrahúsunum alvarlegra og þar er hvergi nærri hægt að sinna nauðsynlegri þjónustu og hún reyndar aðeins veitt í undantekningartilvikum. Jónas Magnússon, yfirlæknir á Landspítalanum, komst svo að orði í Morgunblaðinu fyrir helgina að þjónusta spítalanna hefði færst marga áratugi aftur í tímann, enda allar sjúkdómsgreiningar og lækningar mjög háðar þeim rannsóknum sem meinatæknar annast. Í Tímanum í dag er haft eftir Ásmundi Brekkan, formanni læknaráðs Landspítalans, að æ erfiðara verði að sinna nauðsynlegum rannsóknum við bráðveika sjúklinga og það styttist í að bæði meinatæknar og aðrir sem málið varðar verði illvígari náist ekki samningar í deilunni á allra næstu dögum. Hér er því um mjög alvarlegt mál að ræða og sú spurning brennur á vörum hvað yfirvöld heilbrigðismála hafi gert til lausnar deilunni. Þótt samningarnir séu í höndum fjmrh. og fjmrn. er málið farið að snerta mun fleiri og þar reynir á hæstv. heilbrrh. að hann beiti sér og bindi enda á þessa deilu.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur hvorki gengið né rekið í samningaviðræðum, enda er samninganefnd ríkisins enn einu sinni að endurtaka þá samningatækni sína að veifa endalausum línu- og súluritum framan í viðsemjendur sína með alls konar samanburði við aðra sem koma málinu lítið við auk þess að halda því fram að um óheyrilegar kröfur sé að ræða. Staðreyndin er sú að á meðan samið hefur verið við flestar heilbrigðisstéttir, þar á meðal hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, reyndar í kjölfar harðra aðgerða þeirra stétta, hafa meinatæknar setið eftir. Það hlýtur að vera eðlilegt að taka mið af þeim samningum sem gerðir hafa verið eigi heilbrigðisstéttirnar að sitja nokkurn veginn við sama borð.
    Byrjunlaun meinatæknis eftir þriggja og hálfs árs háskólanám eru 68.543 kr. samkvæmt launatöflu félagsins og eru stöðugildi meinatækna hjá Ríkisspítölunum 114 talsins. Helga Björg Stefánsdóttir meinatæknir lýsir kjörum sínum í grein í Morgunblaðinu í dag, en hún hefur 13 ára starfsreynslu að baki. Hún hefur um 77 þús. kr. í mánaðarlaun en þar við bætist vaktaálag á bilinu 10--30 þús. kr. á mánuði eftir því hve vaktirnar eru margar. Af þessum launum eru að sjálfsögðu greiddir skattar og síðan þarf hún að greiða fyrir gæslu tveggja barna. Þegar upp er staðið á þessi meinatæknir eftir 10 þús. kr. af sínum launum.
    Eins og kunnugt er var niðurgreiðslu sjúkrahúsanna vegna barnagæslu hætt í sparnaðarskyni, en það hafði að sjálfsögðu í för með sér verulega kjararýrnun þeirra sem nutu. Barnaheimili spítalanna hafa að sjálfsögðu verið rekin til að auðvelda sjúkrahúsunum að fá fólk til starfa en nú hefur þar orðið breyting

á.
    Í framhaldi af þessum upplýsingum sem koma fram í grein Helgu segir hún í sinni grein:
    ,,Af þessu má sjá að það borgar sig engan veginn fyrir mig að vinna við núverandi aðstæður. Það virðist vera markviss stefna stjórnvalda að sem flestar konur á barneignaraldri skuli vera heimavinnandi hvort sem þeim þykir það ljúft eða leitt og að ekki beri að nýta þá sérmenntun sem þær hafa aflað sér. Við þetta verður ekki unað. Launastefna ríkisins og víðar í þjóðfélaginu er hrunin.``
    Þetta er auðvitað hárrétt hjá greinarhöfundi og ég ítreka þá skoðun Kvennalistans sem margoft hefur komið fram í umræðum hér á hinu háa Alþingi að launakerfi ríkisins sé óréttlátt og reyndar löngu handónýtt. Það er löngu orðið tímabært að endurskoða launastefnuna, ekki síst með tilliti til þeirrar launamismununar sem konur eru beittar. Við erum hér enn einu sinni að verða vitni að djúpri óánægju vel menntaðrar og vel mikilvægrar kvennastéttar með kjör sín og það er óþolandi að hópar sem hafa líf og heilsu sjúklinga í hendi sinni skuli hvað eftir annað vera neyddir til verkfalla og uppsagna meðan hundruð karla í ríkiskerfinu skammta sér sjálfir laun og búa við yfirborganir og sérréttindi af ýmsu tagi. Misréttinu verður að linna og það er ekki hægt að horfa upp á það lengur að sjúkrahúsin geti ekki veitt þá bestu þjónustu sem þeim ber að inna af hendi.
    Ég skora á hæstv. heilbrrh. að beita sér til lausnar deilunni nú þegar og ég spyr hann: Á hverju strandar? Það hefur verið samið við aðrar heilbrigðisstéttir og það hlýtur að vera unnt að bæta kjör meinatækna til samræmis við aðrar stéttir. Þótt víða sé hart í ári, þá gengur ekki að liggja á lífsnauðsynlegum stéttum af ótta við að aðrir fylgi í kjölfarið. Meinatæknar hafa dregist aftur úr meðan samið hefur verið við þá sem vinna við þeirra hlið.
    Að lokum, hæstv. forseti. Hæstv. heilbrrh. getur ekki horft upp á það lengur að sjúklingar þurfi að bíða þess að fá meina sinna bót eða að þjáningar verði linaðar vegna vinnudeilna. Því er það skylda hans að liðka fyrir samningum og ég spyr hæstv. heilbrrh.: Hvað hyggst hann gera til lausnar deilunni?