Verkfall meinatækna

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 16:41:34 (6519)

[16:41]
     Svavar Gestsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir að hafa tekið þetta mál hér upp í umræðum utan dagskrár og beint nokkrum fyrirspurnum til hæstv. heilbr.- og trmrh. Ég verð hins vegar að játa það að ég er ekki miklu nær um stöðu málsins eftir ræðu hæstv. heilbrrh. Í fyrsta lagi hef ég ekki heyrt það enn af hans vörum í þessari umræðu alla vega af hverju stafar deilan og á hverju strandar nákvæmlega. Það þýðir auðvitað ekki að tala um það eingöngu að meinatæknar hafi sett fram tilteknar kröfur og það sé ekki hægt að verða við þeim að fullu og menn verði að mætast á miðri leið eða eitthvað af þessu tagi. Deilan er búin að standa langtímum saman þannig að það hlýtur að liggja fyrir alveg nákvæmlega hvar þessi deila strandar. Þá spurningu hlýt ég að ítreka við hæstv. heilbr.- og trmrh.
    Þessi deila er óvenjuleg og í rauninni hættuleg vegna þess að það hvílir á starfi meinatækna og fagþekkingu þeirra hvar á að draga markalínu um neyðarþjónustu sjúkrahúsanna. Ef meinatæknar eru ekki í störfum þá er mjög erfitt, flókið, ef ekki vonlaust í nokkrum tilvikum, að draga markalínu fyrir það hvað telst vera neyðarþjónusta. Og heilbrigðisþjónustan er í stórkostlegum háska ef það er ekki 100% öruggt hvar hin faglega lína um neyðarþjónustu er dregin. Þess vegna tel ég að frá faglegu heilbrigðissjónarmiði sé staða þessarar kjaradeilu að mörgu leyti miklu alvarlegri en annarra kjaradeilna sem við höfum orðið vitni að að undanförnu.
    Að lokum þetta, virðulegi forseti, þar sem tími minn er búinn. Ég tel að það þurfi af þessu tilefni að fara að taka aðeins í lurginn á samninganefnd ríkisins. [Lófatak á þingpöllum.] Það er satt að segja, hæstv. forseti, alveg ólíðandi að láta þessa samninganefnd ríkisins aftur og aftur stranda málum eins og hún er að gera inni á spítölunum hvað eftir annað. Það á að afhenda heilbrrn. sjálfstæði í þessu máli. Samninganefnd ríkisins er að verða lífshættuleg fyrir þjóðina.