Verkfall meinatækna

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 16:44:38 (6521)


[16:44]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Undanfarna daga hefur hæstv. heilbrrh. kynnt metnaðarfullar hugmyndir um uppbyggingu mannvirkja á landspítalalóðinni og reyndar uppbyggingu fleiri sjúkrastofnana. Þessar hugmyndir hafa vakið bjartsýni um að meira væri af handbæru fé en áður hefur verið látið að liggja. Gott ef satt er. Uppbygging er mikilvæg en lífið og starfið, sem sagt rekstur stofnananna, er þó það sem öllu máli skiptir.
    Á skömmum tíma höfum við upplifað mjög alvarlegar kjaradeilur heilbrigðsstétta, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og nú meinatækna. Hér hefur verið rakið hversu léleg kjör meinatæknar búa við. Hér verður að ná sáttum. Upplausnarástand sem ríkir vegna þessarar alvarlegu kjaradeilu stefnir meðferð bráðveikra sjúklinga í hættu. Samstarfi milli heilbrigðisstétta er stefnt í voða en það er hvergi mikilvægara en á sjúkrahúsum að mannleg samskipti séu í lagi.
    Það er löngu tímabært að ná lausn í þessum málum. Sjúkrahús án meinatækna eru ekki alvörusjúkrahús. Það er alvarleg blekking að ímynda sér það. Gæði þjónustunnar eru í lágmarki. Læknar verða að vinna samkvæmt eðlisávísun þar sem rannsóknastarf er lamað. Það er mikið álag og ábyrgð sem á þeim hvílir. Rúm standa auð þar sem annars lægju sjúklingar sem bíða hjartaaðgerða, beinaðgerða og fjöldi rúma

á barnadeild standa auð þrátt fyrir sára þörf þessara barna fyrir læknismeðferð. Eftir því sem deilan harðnar þess færri undanþágur varðandi rannsóknir. Þess vegna er því beint til hæstv. heilbrrh. að einbeita sér að því að ná sáttum og stöðugleika í kjaramálum heilbrigðisstétta. Að þessu og engu öðru á hæstv. heilbrrh. að einbeita sér um þessar mundir. Tillögur um framtíðarhúsnæði sjúkrastofnana hér eða þar verða lítils virði þegar allt starf er lamað.