Verkfall meinatækna

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 16:46:50 (6522)

[16:46]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það endurspeglast víða í launakerfi hins opinbera að bókvitið verður ekki alltaf í askana látið. Þetta á ekki síst við um heilbrigðisstéttir. Þó hefur verið reynt að gæta samræmis í kjarasamningum og samið m.a. með tilliti til lengdar menntunar og starfsreynslu. Það hafa verið færð rök fyrir því að kjaradeila meinatækna sé hluti af heild og muni því samningar meinatækna hafa keðjuverkun á kjarakröfur annarra opinberra starfsmanna. Slík umræða er afar neikvæð fyrir lausn deilunnar. Ég tel ekki að deilan sé hluti af heild. Menntun meinatækna hefur á undanförnum árum lengst og er nú enn fremur á háskólastigi. Störf meinatækna hafa enn fremur orðið flóknari með bættri tækni á sviði læknisfræðinnar.
    Kröfur meinatækna benda til þess að óskað sé eftir leiðréttingu af þessum ástæðum og ég tel eðlilegt að meta hvort ekki sé rétt að leiðrétta kjör meinatækna til samræmis við kjör þeirra stétta sem hafa að baki sambærilegt nám, starfsreynslu og starfsumhverfi.
    Öllum er kunnugt um þá löngu biðlista sem eru eftir plássi á sjúkrahúsum í dag. Má því síst við því verkfalli sem yfir stendur. En verkfallið lengir ekki einungis biðlista sjúkrahúsanna heldur hefur það áhrif á allt starf innan sjúkrahúsanna, bæði þjónustu við legusjúklinga og þá sjúklinga sem fá utanspítalaþjónustu. Ég tel nauðsynlegt að leysa þetta verkfall sem fyrst og meta hvaða leiðréttingu þarf að gera á kjaramálum meinatækna miðað við þróun undafnarinna ára án þess að slík leiðrétting leiði til keðjuverkunar.
    Stjórnvöld og meinatæknar bera sameiginlega ábyrgð á að lausn finnist sem fyrst og það hlýtur að vera krafa okkar þingmanna að þessir aðilar semji strax. Það má ekki bregðast þeim sjúklingum sem þetta verkfall bitnar svo illilega á.