Verkfall meinatækna

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 16:49:05 (6523)


[16:49]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir það að taka þetta mál hér upp til umræðu.
    Af ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. gat ég ekki annað ráðið en það að hæstv. ráðherra geri sér ekki fullkomlega grein fyrir því um hvað þessi deila í raun og veru snýst, hvað þá að hann geri sér grein fyrir því hversu háalvarleg hún er. Það kann vel að vera rétt hjá hæstv. ráðherra að það sé erfitt fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að blanda sér inn í vinnudeilu sem þessa, ég get í sjálfu sér tekið undir það, og að þær aðgerðir sem stjórnvöld grípa til geti hugsanlega skapað fordæmi. En hæstv. heilbrrh. verður að gera sér grein fyrir því að hann ber faglega ábyrgð á rekstri þeirra sjúkrastofnana sem undir heilbrrn. heyra, sem eru reyndar allar sjúkrastofnanir, og hann ber faglega ábyrgð á því sem er að gerast inni á þessum stofnunum. Þegar menn lesa það í blöðunum í dag, og þar vil ég, með leyfi forseta, vitna til viðtals við Ásmund Brekkan, formann læknaráðs Landspítalans, þar sem hann segir: ,,Á hverjum degi verða læknar að slá verulega af því sem þeir telja æskilegt og jafnvel nauðsynlegt í meðferð sjúklinga.`` Hvað er, hæstv. heilbrrh., að gerast inni á sjúkrastofnununum þegar formaður læknaráðs stærsta sjúkrahússins lýsir slíku yfir?
    Það hlýtur að kalla á aðgerðir af hálfu hæstv. heilbr.- og trmrh. en ekki að sitja hjá og segja: Málið er hjá samninganefndinni og hæstv. fjmrh. sem ber ábyrgð á henni í þessum samningum.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra að því: Hvað er það sem hann átti við hér í umræðunni áðan er hann lýsti því yfir að deilan væri miklu nær því að leysast heldur en menn gerðu sér almennt grein fyrir? Er eitthvað að gerast í deilunni þessa stundina sem gefur tilefni til að ætla að hún sé að leysast? Það vita eftir því sem ég veit best samninganefndarmenn ekki um. Það veit þingið ekki um og því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað er það sem þar er að gerast?