Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu SR-mjöls

139. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 15:03:40 (6531)

[15:03]
     Ólafur Ragnar Grímsson:
    Virðulegi forseti. Í síðustu viku skrifaði þingflokkur Alþb. forseta Alþingis bréf og óskaði eftir því að skýrsla Ríkisendurskoðunar um söluna á hlutabréfum í SR-mjöli yrði tafarlaust birt. Staðreyndin er sú að þessi skýrsla er til en ríkisendurskoðandi hafði tekið ákvörðun um það að leyna Alþingi upplýsingum og niðurstöðum sem fram koma í skýrslunni. Ástæðan var gefin að einstaklingur hefði höfðað einkamál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.
    Ég vil í þessu sambandi minna það að á síðasta kjörtímabili úrskurðaði meiri hluti Alþingis að veita skyldi upplýsingar í tilteknu máli þótt sá einstaklingur sem þá átti hlut að máli hefði einnig höfðað mál.
    Í dag fengum við bréf frá hæstv. forseta Alþingis, Salome Þorkelsdóttur, þar sem hún lýsir því yfir fyrir hönd forsætisnefndar að forsætisnefnd muni ekki hafa afskipti af því hvenær ríkisendurskoðandi skilar fjárln. greinargerð um sölu á hlutabréfum í SR-mjöli sem nefndin óskaði eftir.
    Ég vil lýsa yfir miklum vonbrigðum með það að forsætisnefnd Alþingis skuli taka þátt í því að upplýsingum sé haldið leyndum fyrir þinginu. Ríkisendurskoðun tilheyrði á sínum tíma framkvæmdarvaldinu. Hún gerir það ekki lengur. Hún heyrir undir Alþingi og löggjafarvaldið. Í bréfinu eru engin rök færð

fyrir því hvers vegna forsætisnefnd hefur ákveðið að láta það líðast að upplýsingum sé haldið leyndum fyrir Alþingi. Ég vek athygli á því hve alvarlegt skref það er þegar forsætisnefnd er að skapa fordæmi um það að einn embættismaður, ríkisendurskoðandi, geti ákveðið að halda leyndum skýrslum sem liggja fyrir tilbúnar í málum sem óskað hefur verið eftir, virðulegi forseti, að verði rædd í þingsalnum hvað eftir annað.
    Ég vil þess vegna mótmæla þessari niðurstöðu forsætisnefndarinnar eindregið. Því miður var fulltrúi Alþb. ekki viðstaddur á þessum fundi vegna veru sinnar erlendis. Það er satt að segja furðulegt ef forsætisnefnd hefur virkilega öll staðið að þessari ályktun og það kemur fyllilega til álita að láta greiða um það atkvæði í þingsalnum hvort skýrslan verður birt eða ekki. Ég óska þess vegna eftir því við virðulegan forseta að við fáum rökstuðning fyrir því hvers vegna forsætisnefnd hafnar því að birta skýrsluna.