Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu SR-mjöls

139. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 15:08:11 (6533)


[15:08]
     Ólafur Ragnar Grímsson:
     Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili úrskurðaði þáverandi forseti að hún teldi ekki eðlilegt að birtar yrðu upplýsingar sem snertu mál sem þá var til meðferðar við dómstóla. Þá fór fram atkvæðagreiðsla í þingsalnum um það hvort birta ætti upplýsingarnar. Það var samþykkt í atkvæðagreiðslu í þingsalnum að upplýsingarnar ættu að birta.
    Ég fer fram á það við virðulegan forseta að þessi úrskurður forsætisnefndarinnar verði borinn undir atkvæði í þingsalnum, t.d. á fundi á morgun. Mér finnst það ekki vera hægt að fámenn forsætisnefnd, þegar meira að segja tveir nefndarmenn í forsætisnefnd eru ekki á fundinum, geti ein og sér tekið ákvörðun af þessu tagi og fer hér með formlega fram á það og vísa til fordæmis á síðasta kjörtímabili að það fari fram atkvæðagreiðsla á morgun í þinginu um það hvort birta eigi þessa skýrslu eða ekki svo að það liggi alveg formlega fyrir hvaða alþingismenn vilji halda skýrslunni leyndri og hverjir vilja birta hana.
    Varðandi seinni hlutann í bréfi forsætisnefndar, þá vil ég einnig vara við því að það verði farið að setja reglur um það hvenær þingmenn geta beðið um skýrslu Ríkisendurskoðunar og hvenær þær verða birtar. Það hefur verið talinn sjálfsagður réttur þingmanna síðan Ríkisendurskoðun var flutt til Alþingis að geta óskað eftir slíkum skýrslum. Það hafa einstaka þingmenn getað gert, það hafa þingflokkar geta gert og það hafa þingnefndir getað gert. Að ætla sér nú að fara að setja skorður við þessum sjálfsagða rétti alþingismanna er einnig mjög hættuleg braut. Ég vil beina því til virðulegs forseta að athuga vel sinn gang áður en settar verða reglur sem hindra það að alþingismenn og þingið í heild sinni geti með eðlilegum hætti óskað eftir athugun Ríkisendurskoðunar.
    En ég endurtek formlega ósk okkar, virðulegi forseti, að hér fari fram á morgun atkvæðagreiðsla um það hvort þingið vill sætta sig við þessa ákvörðun um leynd yfir þessari skýrslu.