Niðurgreiðslur á ull

139. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 15:35:16 (6546)


[15:35]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þær spurningar sem hv. þm. bar fram eru tvær. Sú fyrri hljóðar svo: ,,Hve miklum fjármunum hefur verið varið til niðurgreiðslna á ull hvert ár frá því að búvörusamningurinn var gerður 11. mars 1991?``
    Svarið er að á árinu 1992 voru niðurgreiðslurnar 276.565 þús. kr. og á árinu 1993 voru niðurgreiðslurnar 239.385 þús. kr. og á þessu ári er áætlað að niðurgreiðslur muni nema 230.240 þús. kr.
    Síðari spurningin hljóðar svo: ,,Hafa aðrir en bændur fengið einhvern hluta þeirra fjármuna sem farið hafa til niðurgreiðslna á ull og ef svo er hverjir og hve mikið?``
    Allar niðurgreiðslurnar hafa runnið til ullarverksmiðja sem síðan hafa gert upp við bændur. Nokkrir handíðahópar í sveitum hafa fengið niðurgreiðslur beint á þá ull sem þeir hafa notað við vinnu sína en

þar er um hverfandi magn og upphæðir að ræða.
    Ég tók eftir því að hv. þm. bar fram fjölmargar spurningar sem ekki eru lagðar fyrir á þingskjali og raunar snerist málflutningur hans aðallega um þann hluta fyrirspurnarinnar en ekki það sem um var spurt, sem er athyglisvert. Um það er annars að segja almennt að í gangi hefur verið endurskoðun á ullarniðurgreiðslunum við bændasamtökin. Sú breyting hefur á orðið að á þessu ári verður svokölluð sumarull ekki niðurgreidd. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að hún gefur ekkert af sér. Það er verið að tala um að greiða ull sem er lítils eða einskis virði. Með þessari tilhögun er verið að reyna að stuðla að því að fara betur með þetta hráefni.
    Jafnframt var tekin ákvörðun um það á sl. hausti að gera ráðstafanir til þess að skinnaiðnaður gæti haldið áfram að þróast í landinu. Þá voru uppi mjög sterkar áþreifingar og hugmyndir um það í kjölfar þess að skinnaverksmiðjan á Akureyri varð gjaldþrota að gærurnar yrðu seldar óunnar úr landi. Það tókst að koma í veg fyrir það og má segja að það sé í aðalatriðum sú breyting sem orðið hefur. Ég hygg að menn séu almennt mjög ánægðir með þá ráðstöfun vegna þess að rekstur skinnaverksmiðjanna hefur gengið vel, verð hefur hækkað og þessi atvinnurekstur skilar góðum hagnaði. Þegar hann stóð með mestum blóma námu gjaldeyristekjur skinnaiðnaðarins um einum milljarði kr. á ári. Það er auðvitað minna núna en fyrirtækin eru að byggja sig upp á nýjan leik.