Vegalög

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 15:46:07 (6549)


[15:46]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Svo sem ég kynnti við atkvæðagreiðslu um þetta mál eftir 2. umr. þá flytur samgn. á þskj. 997 svohljóðandi brtt. við frv. til vegalaga:
    ,,Á eftir 1. málsl. 61. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 56. gr. öðlast gildi 1. jan. 1995.``
    Þetta er vegna athugasemda sem fram komu af hálfu hv. 1. þm. Norðurl. v. að 56. gr., sem lýtur að banni við lausagöngu búfjár á vegsvæðum þar sem girt er beggja megin vegar, hangir nokkuð saman við þá endurskoðun sem boðað hefur verið að efnt verði til í sumar og fyrir næsta þing á girðingarkafla vegalaga.
    Nefndinni þykir eftir atvikum rétt að fallast á þessi sjónarmið og leggur til að þessi grein, þ.e. ákvæði 56. gr., öðlist gildi 1. jan. 1995, í trausti þess að þá hafi tekist að afgreiða þær breytingar sem lýst hefur verið yfir að séu fyrirhugaðar varðandi girðingarmál.