Vegalög

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 16:42:47 (6555)


[16:42]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég kem ekki til að svara í sömu mynt, í bundnu máli, innleggi hæstv. samgrh. Ég tel mig lítt færan á þeim velli og hef lítt látið að mér kveða þar sem það er skylda talin í störfum Alþingis og geri það af hógværð gagnvart íslensku máli og sérstaklega bundnu máli sem ég tel að sumir, ekki hæstv. samgrh., en sumir aðrir mættu temja sér.
    En andsvarið varðar það sem hæstv. ráðherra vék að fyrst í máli sínu varðandi rétt til að loka vegum. Mér finnst að ályktun hæstv. ráðherra hefði átt að vera sú að það væri ástæða til þess að festa þetta með skýrum hætti inn í frv., en orðfæri 52. gr. sem helst mætti halda að lyti að þessu er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Einnig getur Vegagerðin bannað alla umferð ökutækja um vegi sem hættulegir eru vegna skemmda eða af öðrum slíkum orsökum þar til viðgerð er lokið.``
    En að ætla að flokka snjóflóð undir orðalag af þessu tagi þar sem ekki er vikið að því í skýringum með greininni og ég held ekki í framsögu heldur, það finnst mér nokkuð langsótt. Ég vænti þess að hv. 2. þm. Norðurl. e. komi hér til þess að segja sitt álit fyrir hönd nefndarinnar á athugasemdum mínum og þarf að eiga smávegis orðastað við hann. En ég tel í rauninni að hæstv. ráðherra hafi með nokkuð skýrum hætti tekið undir þá gagnrýni sem ég hafði hér uppi í sambandi við þessa flokkun og val á heitum fyrir einstaka flokka og skil þetta sem hvatningu af hans hálfu til hv. samgn. til að taka málið til frekari skoðunar.