Vegalög

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 16:56:47 (6560)


[16:56]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Flestar þær athugasemdir sem fram hafa komið í máli hv. 4. þm. Austurl. komu fram í hans máli við 2. umr. og var þá svarað. Mál þetta er hér til 3. umr. og er afgreitt samhljóða úr nefnd. Svo ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka þau svör sem þá voru gefin eða fyrr í þessari umræðu. Varðandi það sem hann beindi sérstaklega til mín úr 8. gr. undir fyrirsögninni safnvegir, og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Vegir að öllum býlum sem búseta er á og ekki eru tengd með stofnvegi eða tengivegi. Vegur samkvæmt þessum lið skal þó aldrei teljast ná nær býli en 50 m ef hann endar þar eða vera inni í þéttri byggð ef vegakerfi þar er styttra en sem svarar 50 m fyrir hvert býli eða íbúð.``
    Það er skemmst frá að segja að þetta er óbreytt frá þeirri reglu sem er í gildandi vegalögum og þar er sú regla sem hér er enn fremur haldið að það sem nú er kallað í þessu lagafrv. safnvegir skuli enda 50 m frá hverju býli þ.e. síðustu 50 m kostar bóndi sjálfur ef um býli er að ræða og að meðaltali gildir sú regla þar sem um þéttbýli er að ræða, minni háttar þorp eða aðra þá þyrpingu af íbúðarhúsum sem gefur til kynna að farið sé eftir þeirri meðaltalsreglu sem er hér í lok þessarar málsgreinar.
    Ég tel að það sé alveg tilefnislaust að ætla að hv. 4. þm. skilji ekki þetta mætavel eins og það liggur fyrir og ljóst er að það er óbreytt frá því sem er í gildandi lögum.