Lífeyrissjóður sjómanna

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 17:26:37 (6565)


[17:26]

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli mínu hér áðan þá geri ég nú kannski ekki mikið með álit stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna að ég telji það hæstaréttardóm í þessu máli. Ég geri það ekki og hef fyrir því ákveðin rök sem ég tiltók hér áðan.
    Ég kvaddi mér hins vegar hljóðs til þess að bæði þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka vel í það að málið verði skoðað nánar í nefnd, ég vil það gjarnan og tel það mikilvægt, og í öðru lagi svo til að gera athugasemd við að það sé sérkennilegt að athugasemdir af þessu tagi komi upp við 3. umr. málsins. Ég vísa því satt að segja alveg á bug. Athugasemdir mínar í þessu máli koma pólitískum ágreiningi um málið ekkert við og að reyna að hengja hlutina þannig saman að um leið og nefndarmaður eða nefndarmenn einhvers flokks hafi skrifað undir nál. þá sé 3. umr. alveg lokuð fyrir skoðanaskiptum kann ég ekki að meta. Ég kann ekki þau þingsköp sem eru þannig að um leið og búið er að ganga frá nefndarálitum fyrirvaralaust af hálfu flokkanna, þá geti einstakir þingmenn ekki lagt orð í belg. Þar með er verið að segja að 3. umr. á Alþingi sé þýðingarlaus. Ég efast um að það sé skoðun hæstv. fjmrh. og er reyndar sannfærður um að svo er ekki og ég mótmæli því vegna þess að ég vil að þingmenn hafi við hvaða aðstæður sem er, svo lengi sem mál er til meðferðar, frelsi til að tala.