Lífeyrissjóður sjómanna

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 17:29:29 (6567)


[17:29]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Voðalega er stutt í geðvonskuna í hæstv. fjmrh. í dag. Er eitthvað um að vera í Sjálfstfl. sem við höfum ekki frétt af? Ég hef ekki trú á því að hann hafi sérstaklega með sjávarútvegsmál að gera þar sem allt er í keng út af hjá íhaldinu þessa dagana. ( Gripið fram í: Það skyldi þá ekki vera.) Það skyldi þá ekki vera að hann ætli að fara að borga eitthvað, blessaður.
    Veruleikinn er sá að sá sem hér stendur hefur alltaf, eins og oft áður að sjálfsögðu, lýst aðdraganda þessa máls og m.a. aðild minni að þeim aðdraganda. Ég flutti hins vegar ekki frv. um 60 ára lífeyrisaldur sjómanna samkvæmt lífeyrissjóðslögunum eins og hæstv. fjmrh. veit, en ráðherranum er væntanlega kunnugt um það að lífeyrissjóðirnir heyra undir fjmrn. En ég var á þessum tíma ekki fjmrh. heldur heilbr.- og trmrh. þannig að sú löggjöf sem ég beitti mér fyrir mun standa. Eftir því sem ég best veit er ekki meiningin að breyta almannatryggingalögunum.
    Hinu vil ég svo sérstaklega mótmæla aftur, sem hæstv. ráðherra kom á nýjan leik upp með, að málin liggi þannig að þegar nál. hafa verið afgreidd, þá sé búið að banna þingmönnum sem eru ekki í viðkomandi nefnd að tala. Ég lýsi því þá yfir, hæstv. forseti, í eitt skipti fyrir öll fyrir undirritaðan að svo lengi sem ég sit á Alþingi tek ég ekki mark á þessari lagatúlkun hæstv. fjmrh. og læt hvorki hann né aðra loka fyrir þær athugasemdir sem ég kann að gera. Ef hann hins vegar vill afgreiða sína flokksmenn með þessum dónalega hætti, með leyfi forseta, þá er það hans vandamál en ekki mitt.