Meðferð og eftirlit sjávarafurða

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 17:44:18 (6571)



[17:44]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil með fáeinum orðum gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef við þetta mál. Eins og hv. þingmenn muna, þá var þetta mál borið fram á síðasta þingi og náði þá ekki fram að ganga. Það hefur verið gerð nokkur breyting á 1. gr. frv. og það verður auðvitað að segjast að sú breyting er til verulegra bóta. Það var satt að segja ótrúlegt að sjá það í frv. í fyrra eins og það lá fyrir að þar var gert ráð fyrir því að það væri undantekningartilvik að ráðherra gerði kröfu um að það væri aðgreindur fiskur frá öðrum svæðum en Íslandsmiðum. En nú er þessu snúið við og nú er ákvæðið í þá átt að ráðherra geti kveðið á um það í reglugerð í hvaða tilvikum sé ekki krafist aðgreiningar. Að mínu viti er þetta ákaflega mikilvægt mál og mér finnst nú að stríðið um gæðin á íslenskum fiskafurðum verði auðvitað aldrei unnið til enda og menn þurfi auðvitað að passa hvert einasta skref sem stigið er. Það er margt sem hægt er

að gera betur en við gerum í dag og fáránlegt að við tökum skref í einhverjar áttir eins og þá að blanda saman fiski af öðrum hafsvæðum án aðgreiningar.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að halda því vel til haga og auglýsa vel þann fisk sem við erum að selja sem íslenska vöru og íslenskan fisk. Því miður eru að gerast hlutir einmitt á þessum missirum sem geta valdið okkur erfiðleikum í framtíðinni. Það er verið að flytja inn fisk til vinnslu sem aðrir aðilar veiða en íslenskir og það er verið að blanda þessum vörum saman þegar þetta er flutt út. Að vísu mun það vera þannig að á farmskjölum er krafist þessarar aðgreiningar en það mun ekki vera þannig að það sé t.d. merkt á umbúðum og það er ekki merkt á umbúðum sé varan t.d. tvífryst. Ég held að þetta séu hlutir sem þurfi að ræða vel um og gera sér vel grein fyrir hvaða áhrif geti haft í framtíðinni á okkar markaði.
    Það er auðvitað ýmislegt sem betur mætti fara í þessum efnum og ég hef oft bendi á það þar sem ég hef tekið þátt í svona umræðum, bæði á þingi og annars staðar, að það sé ekki vansalaust að við skulum ekki gera meiri kröfur um merkingar á vörum en við gerum. Og það hefði verið mikið óhappaskref ef við ætluðum ekki að aðgreina allar þær vörur eins vel og við getum sem tæknilega er mögulegt að aðgreina eins og raunverulega var verið að bjóða upp á með frv. eins og það var lagt fyrir í fyrra.
    Þá er auðvitað að þakka fyrir það að menn skuli hafa snúið af villu síns vegar í þessu og 1. gr. frv. skuli vera orðin eins og hún er. En ég get ekki stillt mig um það í þessu sambandi að tala um það að auðvitað er miklu fleira sem við þurfum að gera til þess að hefja merkið sem hæst upp fyrir því að íslenskur fiskur sé fyrsta flokks vara og leggja metnað okkar í það að hann sé ævinlega sú besta vara sem hann getur verið. Og til þess að það merki sé haft í efstu stöðu þá verða menn auðvitað að aðgreina og merkja vöruna rétt, ekki bara hvaðan hún kemur, ef hún kemur af öðrum hafsvæðum en Íslandsmiðum, heldur líka hversu góð varan er og þar vantar verulega á og þar hafa stóru sölusamtökin okkar verið með stefnu sem ég get ekki skrifað upp á og læt koma fram hvar sem ég get. Það er nefnilega þannig að í aðalútflutningi okkar, í blokk og flökum, er enginn greinarmunur gerður á því hvort varan er orðin 10--12 daga gömul eftir að hafa verið veidd af einhverjum skipum sem hafa verið í löngum veiðiferðum eða hvort það er tveggja eða þriggja daga gamall úrvalsfiskur sem er í viðkomandi pakkningu. Þetta getur ekki gengið og þarf að breytast en það hefur verið einhver ótrúleg tregða frá hendi þeirra sem ráða ferðinni í þessum málum. Þeir hafa svarað því ævinlega til þegar þessi gagnrýni er uppi höfð að þetta sé allt saman úrvals vara og kaupendurnir séu ánægðir með hana og hvað getum við beðið um meira. Ég held því fram að við höfum vera að tapa t.d. í samkeppninni við frystiskipin og fullvinnsluskipin sem eru að ná til sín meira og meira af þessum útflutningi eða þessari vinnslu vegna þess að við höfum ekki getað notfært okkur möguleikana sem hafa þó verið fyrir hendi í fiskvinnslunni. Ef við hefðum flokkað þessa vöru nægilega vel niður þannig að t.d. allt sem fer í blokk og flök í frystihúsunum sé merkt þannig að menn viti nákvæmlega hvers konar vara það er, þá hefðum við haft möguleika til þess að keppa við þessa vöru sem fullvinnsluskipin eru að selja þar sem þau fengu t.d. fyrir 2--3 árum síðan 10% hærra verð bara fyrir það að það væri hægt að stimpla þetta sem sjófrysta vöru. Auðvitað er sjófryst vara ekkert betri en landfryst vara. Spurningin er bara í hvers konar ástandi hráefnið er þegar menn vinna það. Í frystihúsunum okkar er auðvitað verið að vinna úrvalshráefni líka, en menn geta ekki valið á milli. Menn hafa enga tryggingu fyrir því hvað er í pakkanum. Það getur verið allt saman þokkalega ætur matur, en það er ekki nein trygging fyrir því hversu gamall hann er. Hjá Ríkismati sjávarafurða komust þeir að þeirri niðurstöðu að fiskur sem væri búið að geyma lengur en fjóra daga að meðaltali væri farinn að tapa gæðum þó að hann væri geymdur í ís við sem bestar aðstæður. Það er æðistór hluti af þeim fiski sem fluttur er út sem fyrsta flokks vara sem búið er að geyma lengur en okkar bestu vísindamenn á þessu sviði vilja meina að gott sé.
    Um síðari greinina, þ.e. 2. efnisgr. þessa frv., vil ég fara líka fáeinum orðum því að nú er komin töluverð reynsla á þessa nýju skipan sem komið var á með stofnun Fiskistofu og þessum svokölluðu skoðunarstofum sem tóku við eftirliti með frystihúsum og fiskvinnslustöðvum og skipum reyndar líka. Við erum búnir að sjá með hvaða hætti þetta hefur allt saman komið út og það er því miður þannig að allar verstu spár þeirra sem voru á móti þessu hafa ræst. Þetta kerfi er fokdýrt. Aðilarnir sem borga þetta eru auðvitað fiskvinnslustöðvarnar vítt og breitt um landið og þær eru að borga miklu, miklu hærri fjárhæðir fyrir þetta eftirlit en áður var og eftirlitið er allt saman auðvitað að verða tvöfalt með tíð og tíma. Það eru a.m.k. sjö fyrirtæki starfandi við að gera það sem mátti segja að þrír aðilar hefðu annast að mestu leyti áður eða öllu leyti, en nú eru þeir orðnir a.m.k. sjö og gætu þess vegna orðið fleiri og eftirlitsmennirnir keyra hver á eftir öðrum allt í kringum landið til þess að skoða frystihús, saltfiskverkunarstöðvar, báta eða hvað það nú heitir allt saman. Hæstv. forsrh. setti nefnd í málið til að skoða eftirlitsiðnaðinn sem hann er sjálfur búinn að standa fyrir að koma upp. Ég er ekki hissa á því þó að hv. þm. Egill Jónsson iði í sætinu til að taka undir það sem ég er að segja því að hann hefur gert sér það ljóst að hann hefur staðið hér að óhappaverki að því leyti til að auðvitað er þetta dýrt. Það kann vel að vera að þetta virki. Það á eftir að koma í ljós hvort þetta eru vönduð vinnubrögð, það á eftir að meta það líka, sem þarna eru stunduð en það þarf a.m.k. ekki að fara lengra í þróuninni til að sjá það að þessi vinnubrögð kosta miklu meiri fjárhæðir en það kerfi sem við höfðum áður. Það var kannski ekki heilagt og það mátti auðvitað breyta því með einhverjum hætti en hér hafa menn tekið upp kerfi sem er auðvitað atvinnuskapandi ef menn leita eftir slíkum lausnum á málunum, þá yrði þetta mjög atvinnuskapandi kerfi, það er engin spurning. Það hefur fjölgað mjög verulega þeim aðilum sem taka þátt í þessu eftirliti og þeim heldur áfram að fjölga. A.m.k. síðast þegar ég vissi var enn að fjölga mönnum sem starfa við þetta. Og síðan á Fiskistofa sjálfsagt eftir að biðja um það að fá að fjölga starfsfólki enn meir til þess að hafa eftirlit með öllum þessum skoðunarstofum og eftirlitsaðilum sem komnir eru í þessa atvinnugrein. Ég er ekkert hissa á því þó að Fiskistofa þurfi að fá kannski eins og 200 þús. kr. fyrir að viðurkenna hverja skoðunarstofu því að það er bara hluti af þeirra eftirliti að viðurkenna þær í upphafinu og svo þarf auðvitað að hafa eftirlit með þeim í framhaldinu á hverju ári og sinna því með fullnægjandi hætti því að erlendir aðilar láta sér ekki nægja stimpil frá skoðunarstofunum. Þeir þurfa að hafa ríkisábyrgð á þeim stimpli sem þeir taka mark á. Það hefur komið skýrt fram að það er fyrst og fremst viðurkenning Fiskistofu sem er þá hinn raunverulegi ábyrgðaraðili á þessu eftirliti sem erlendir aðilar taka gilda þó að þeir út af fyrir sig hafi látið það koma fram að þeir hefðu ekkert á móti þessu eftirlitskerfi sem hér er búið að koma upp.
    Ég held að næsta skref í þessu máli hljóti að vera það að leita eftir einhverri meiri hagkvæmni í þetta kerfi en komin er og þar er kannski hægt að skrifa upp á það að það verði gerð tilraun til þess að sameina eitthvað af þessum ósköpum, einhverja af þessum sjö skoðunarstofum þannig að þeim fækki nú eitthvað og það verði meiri hagræðing í greininni sem menn eru farnir að tala um, þessari nýju grein, þ.e. eftirlitsiðnaðinum. Vonandi er einhver hér inni sem getur upplýst hv. þm. um hvað líður störfum þeirrar nefndar sem hæstv. forsrh. skipaði til þess að skoða þennan eftirlitsiðnað. Ég hef ekki heyrt það enn að sú nefnd hafi skilað neinu áliti eða gefið áfangaskýrslu um sín verk en það er auðvitað mjög nauðsynlegt að það komi sem fyrst í ljós áður en menn halda lengra áfram á þessari braut.
    Ég held að ég hafi ekki lengri ræðu um þetta mál núna. Ég fagna því að menn skuli hafa snúið frá villu síns vegar gagnvart 1. gr. frv. en ég hvet menn til þess að gefa hvergi eftir í því að hafa mikinn metnað á bak við vinnslu og sölu á íslenskum fiski og að það verði virkilega staðið við það að gera ævinlega greinarmun á íslenskum fiski og fiski sem er fluttur til landsins til vinnslu, þar verði hvergi hvikað. Ég geri mér grein fyrir því að í sumum greinum af þeim fiskiðnaði sem við höfum stundað undanfarið hafa menn flutt töluvert af fiski til landsins til að vinna og það er allt gott um það að segja. En ég tel bara að það sé svo mikils virði fyrir okkur að halda aðgreindum þeim fiski sem við veiðum á Íslandsmiðum og seljum að við getum ekki tekið þá áhættu að láta aðra aðila sem vinna með annars konar hætti, eru með öðruvísi fyrirkomulag á eftirliti með framleiðslu sinna afurða og annað slíkt, að láta vörur frá þeim koma til Íslands og það sé síðan ekki aðgreint nægilega skýrt hvaðan sú vara kemur, það finnst mér óásættanlegt. Það er auðvitað ekkert við því að segja þó að það sé t.d. ekki hægt að aðgreina t.d. loðnuafurðir sem erlend skip hafa landað hér til vinnslu. Ég tel að það sé bara eðlilegur hlutur og verður að vera eins og það er. Það er alveg ástæðulaust fyrir okkur að búa okkur til vandamál. Við höfum auk þess gert samninga við önnur ríki þar sem við skrifum upp á skuldbindingar í því efni að upprunavottorð séu með réttum hætti á þeim vörum sem við framleiðum hér í landinu. Það er að vísu í þeim reglum gert ráð fyrir möguleikum til þess að hluti af þeim vörum geti verið innfluttur en ég tel að við eigum sjálfir að hafa það sem grunn- og aðalreglu að íslenskur fiskur sé íslenskur og að það verði ævinlega gerð sú krafa að það komi skýrt og greinilega fram í útflutningnum.