Meðferð og eftirlit sjávarafurða

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 18:13:11 (6573)


[18:13]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég er einn af þeim nefndarmönnum sjútvn. sem skrifa undir nál. á þskj. 979 með fyrirvara og ég vil láta fáein orð falla til skýringar á þeim fyrirvara mínum. Þetta er nú reyndar nokkuð óvenjulegt frv. að því leyti til að þarna eru á ferðinni breytingar á tveimur alls óskyldum efnisatriðum laganna. Annars vegar því sem fjallað er um í 1. gr., að rýmka má segja að nokkru leyti þau ákvæði sem afgreidd voru í lögum 1992 um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. En þá var sett í lögin fortakslaust ákvæði um að það skuli halda öllum sjávarafurðum sem sérstaklega væru fluttar inn til vinnslu eða umpökkunar hér á landi aðgreindum frá innlendum afurðum. Þetta ákvæði var nú sett að vandlega athuguðu máli og með þeim rökum að það væri mikilvægt fyrir okkur að geta svo óyggjandi væri sýnt fram á og sannað að við værum ekki á einn eða neinn hátt að hafa rangt við í þessum efnum, hvorki sem varðaði það að færa inn undir íslenskar vörur vörur sem teldust samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum erlendar að uppruna og komast þannig til að mynda fram hjá tollmúrum eða öðru slíku. Ekki værum við heldur að villa á okkur heimildir hvað varðaði uppruna vörunnar í efnislegum skilningi og gæðahlið málsins hvað það snertir að lélegri erlend vara eða lélegri vara af erlendum uppruna kæmi inn undir íslensk vörumerki í gegnum það að henni væri blandað saman við innlent hráefni í vinnslu.
    Nú er mér ekki kunnugt um að núverandi fyrirkomulag hafi í sjálfu sér valdið vandkvæðum fyrir utan það eitt sem nefnt er að þetta sé erfitt þegar í hlut eigi bræðslufiskur og þá fyrst og fremst væntanlega loðna. En að því eru eins og menn vita einhver brögð á flestum vertíðum að erlend skip landi hér einhverjum slöttum.
    Ég var nú þeirrar skoðunar og lét það sjónarmið mitt koma fram strax þegar málið var borið fram að það væri þá eðlilegra að bregðast einfaldlega við með því binda undanþáguna við slík tilvik. Það hefði verið lafhægt að hafa þetta ákvæði þannig að ráðherra væri heimilt að kveða á um það í reglugerð þegar í hlut ætti varningur svo sem loðna eða annar bræðslufiskur sem erfitt væri af tæknilegum ástæðum í vinnslurásinni að halda aðskildum að heimila slíkt á grundvelli ákvæða í reglugerð. Ég held að það sé afar varhugavert að við gefum nokkurn höggstað á okkur varðandi það að ekki sé með skýrum og skilmerkilegum hætti um slíka efnislega aðgreiningu að ræða þar sem ekkert hindrar hana af tæknilegum ástæðum. Nú var að vísu til það hugtak að unnt sé að hafa slíka aðgreiningu fyrst og fremst fjárhagslega eða bókhaldslega en það er ekki það sem í raun og veru er aðalatriði málsins hér, þá er fyrst og fremst aðskilnaðurinn hafður með það í huga að það sé á einhvers konar verðmætisgrundvelli um bókahaldslegan aðskilnað að ræða sem dugi gagnvart tollmeðferð vörunnar og öðru því um líku. Mér er miklu ofar í huga að hinn efnislegi aðskilnaður sé fyrir hendi þannig að við getum staðið á því að vara sem fer héðan á markað sem íslensk sé íslensk að uppruna í efnislegum skilningi. Ég er hef þess vegna fyrirvara á að menn skuli gera þetta með þessum hætti. Það náðist ekki samkomulag um að þessu yrði breytt. Út af fyrir sig ætla ég ekki að fara að leggja stein í götu þess að málið nái fram að ganga en hefði talið heppilegra að þetta væri á þann veg sem ég hef nú gert grein fyrir og það skýrir aðallega fyrirvara minn.
    Um hitt atriði frv., þ.e. heimild til gjaldtöku Fiskistofu vegna viðurkenningar á skoðunarstofum, mætti náttúrlega margt segja. Það er fróðlegt að fara yfir það og rifja það upp hvaða umræða varð hér þegar Fiskistofa var sett á laggirnar fyrir ekki svo löngu síðan og heitstrengingar ýmissa manna um það að þarna væri síður en svo ætlunin að setja nokkurt bákn á laggirnar heldur yrði ef eitthvað væri frekar um fækkun og minni útgjöld að ræða. Nú er það náttúrlega komið á daginn svo ekki þarf blöðum um að fletta að það versta hefur gerst í þessum efnum sem menn óttuðust. Þetta hefur vaxið mjög að umfangi og enn er nú alveg ósýnt að þetta fyrirkomulag hafi skilað okkur nokkrum árangri hvað gæðahliðina snertir og það að við séum betur á vegi stödd í þeim efnum, þvert á móti. Því miður heyrast nú ýmsar raddir í gagnstæða átt og er nærtækt að minnast ummæla sem komu fram í tengslum við umfjöllun um stöðu okkar á saltfiskmörkuðum nú nýlega þar sem þeir menn sem gerst mega þau mál þekkja og eru með vöruna í höndunum dagsdaglega, fleiri en einn og fleiri en tveir, lýstu áhyggjum sínum yfir að gæðum íslensku framleiðslunnar væri að hraka, væri að hraka einmitt þessa mánuðina. Og vildu m.a. meina að það væri vegna þess að ýmsir menn væru nú farnir að sýsla í þessu og teldu sig hafa á þessu mikið vit, sem hefðu ekki þá reynslu og ekki þann bakgrunn sem fyrri starfsmenn Ríkismats sjávarafurða hefðu haft. Um það skal ég ekki fjölyrða hér enda í sjálfu sér annað mál. Hér er það fyrst og fremst kostnaðarhliðin í þessu sambandi sem eðlilegt er að sé til umfjöllunar og spurningin um það hvort Alþingi vill heimila það eins og hér er lagt til að Fiskistofa fái þessa gjaldtökuheimild sem auðvitað verður velt beint yfir á sjávarútveginn. Hver haldið þið svo sem að borgi, hæstv. forseti, aðrir en viðskiptavinirnir í sjávarútveginum þetta gjald sem þarna er verið að leggja til? En það er auðvitað alveg augljóst að þetta er að fara á þennan veginn og einkavæðingin fína sem þarna var á ferðinni sýnir sínar bestu hliðar í þessari mynd. Sennilega er þess skammt að bíða að menn fari að sakna Ríkismats sjávarafurða ekki minna en Bifreiðaeftirlits ríkins sem allir gráta nú yfir að hafa misst verandi píndir til viðskipta við hina fínu einkastofnun Bifreiðaskoðun Íslands hf. En þetta er auðvitað alvörumál þar sem í hlut eiga þessi gæðamál og hvernig þeim er fyrir komið hjá okkur. Eitt er nú það að þetta verði dýrara fyrirkomulag og óþjálla fyrir fyrirtækin. Þessu fylgir meira

vottorðafargan og meiri pappírsvinna sem fullyrt er fyrir fyrirtækin almennt svo ekki sé nú talað um þau sem urðu fyrir þeim hremmingum að lenda undir margföldu kerfi eins og á t.d. við um fiskeldisfyrirtækin og er náttúrlega raunasaga miklu meira en til næsta bæjar hvernig þau mál fóru. Í raun og veru eru það margföld vottorð sem þar þarf til eftir að þetta breyttist. En það er nú eitt þó hitt bætist ekki við sem væri auðvitað miklu lakara ef við náum þá ekki a.m.k. að halda utan um gæðamálin þannig að þeim fari ekki að hraka. Það hlýtur maður auðvitað að minna hér á að það er náttúrlega tilgangurinn með þessu öllu saman að við náum að halda okkar stöðu í þeim efnum og tryggja að héðan fari ekki önnur framleiðsla en sú sem hágæðaframleiðsla má teljast.
    Það er svo aðeins eitt, hæstv. forseti, sem mig langar til að spyrja um hér. Ég verð að vísu að játa að ég hef efasemdir um að hér sé nokkur sem geti greitt úr og svarað þar sem ríkisstjórnin öll eins og hún leggur sig er fjarverandi og enginn einasti ráðherra nálægur við umræðuna. Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra í tengslum við þessa afgreiðslu á heimild til Fiskistofunnar til gjaldtöku: Hvað líður þeirri endurskoðun sem hæstv. forsrh. ku hafa ákveðið að beita sér fyrir á hinum svonefnda eftirlitsiðnaði? En eftirlitsiðnaður er nýtt hugtak sem búið hefur verið til í tíð einkavæðingarstjórnar Davíðs Oddssonar. Það er eftirlitsiðnaðurinn sem hefur vaxið mjög að umfangi og mikilleik í tíð þessa ríkisstjórnarsamstarfs. Og svo langt var gengið að á sl. hausti mun það hafa verið, ef ég man rétt, þá varð það niðurstaðan í ríkisstjórn að það væri nauðsynlegt að fara í sérstaka úttekt á eftirlitsiðnaðinum og væntanlega þar með skoðunarstofum, Fiskistofu og öllu því gúmmulaði ( MB: Og öllum stofum.) og öllum stofum og eftirlitum sem ríkisstjórnin hefur verið dugleg við að búa til. Ég hefði gjarnan viljað fá upplýst hvar þessi störf eru á vegi stödd. Það er hugsanlegt að fjmrh. geti hér eitthvað greitt úr málum og svarað fyrir um eftirlitsiðnaðinn, hvernig hann blómstrar og hvar úttekt hæstv. ríkisstjórnar á því máli er á vegi stödd. Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að þegar við í bæði sjútvn. og reyndar einnig í efh.- og viðskn. af öðrum ástæðum höfum spurt út í þessi mál hefur okkur gjarnan verið vísað á úttektarnefnd hæstv. ríkisstjórnar á eftirlitsiðnaðinum. Ég vildi gjarnan fá að heyra hvar sú vinna er á vegi stödd og hvort þess er að vænta að við fáum fyrir þinglausnir einhverjar upplýsingar um það starf sem þarna hefur verið unnið á vettvangi hæstv. ríkisstjórnar. --- Nú gerast þau tíðindi að hæstv. fjmrh. biður um andsvar og ég vænti þess þá að það eigi að koma fram upplýsingar um málefni eftirlitsiðnaðarins og ætla þess vegna að ljúka máli mínu og gefa hæstv. ráðherra kost á að svara þessu tafarlaust.