Meðferð og eftirlit sjávarafurða

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 18:25:25 (6576)


[18:25]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta eru auðvitað alveg stórmerk tíðindi að ríkisstjórnin hafi komist að þeirri niðurstöðu eftir athugun á því hvernig eftirlitsiðnaðurinn svokallaði hefur blómstrað í hennar tíð að ekkert dugi minna en löggjöf um eftirlitsstarfsemi hins opinbera ( SvG: Og eftirlit með eftirlitinu.) og síðan verður væntanlega sett á fót eftirlit með eftirlitinu og einhverjir til að hafa eftirlit með því að lögin um eftirlitsstarfsemi hins opinbera séu framkvæmd á réttan hátt. Þetta eru gagnmerkar upplýsingar og ég þakka fyrir. Það verður fróðlegt að sjá framan í þetta frv. og hvaða ramma það setur þessari blómstrandi atvinnugrein sem dafnað hefur, nánast sú eina á landinu, því miður, í tíð hæstv. ríkisstjórnar því að eins og kunnugt er hefur meira og minna uppdráttarsýki og óáran herjað á allt atvinnulífið nema þennan eina iðnað sem blómstrar í tíð hæstv. ríkisstjórnar, eftirlitsiðnaðinn.