Meðferð og eftirlit sjávarafurða

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 18:26:35 (6577)


[18:26]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir að það er mjög merkilegt að fá það upplýst hér að það skuli eiga að koma frv. um eftirlitsiðnaðinn því að ég var ein af þeim sem hér gagnrýndu það mjög, allt það eftirlit sem hér var verið að setja á í fyrra og kemur nokkuð inn á þetta frv. Og það er hægt að nefna það

hér og vitna í athugasemd með 2. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Því var skoðunarstofum falið eftirlit með því að framleiðendur framfylgi opinberum kröfum og kröfum erlendra kaupenda varðandi hreinlæti, gæði og búnað. Opinbert eftirit var flutt til gæðastjórnunarsviðs Fiskistofu. Hlutverk þess er m.a. útgáfa vinnsluleyfa, viðurkenning á skoðunarstofum og eftirlit með starfsemi ásamt útgáfu heilbrigðis- og upprunavottorða.``
    Það var sem sagt verið að koma á fót Fiskistofu og síðan átti að koma á fót skoðunarstofum sem Fiskistofan átti síðan að hafa eftirlit með og skoðunarstofurnar að sjálfsögðu að hafa eftirlit með framleiðandunum. Og nú kemur ný eftirlitsstofnun sem á að hafa síðan eftirlit með öllu þessu eftirliti og ég geri ráð fyrir að t.d. Fjarskiptaeftirlit ríkisins hljóti þá að falla undir það ríkiseftirlit.
    Það er kannski líka vert að geta þess að það voru mjög margir aðilar sem ruku til á sl. ári og stofnuðu skoðunarstofur. Það ruku upp nokkrar skoðunarstofur, kannski fjórar til fimm í því sveitarfélagi sem áður hafði nægt eitt einasta Ríkismat sjávarafurða. Framleiðendur eins og það heitir, t.d. fiskiskip af ýmsum stærðum og gerðum urðu síðan að leita til þessara skoðunarstofa til að fá þennan stimpil sem þurfti að hafa. Það kom síðan í ljós að allar þessar skoðunarstofur í ákveðnu sveitarfélagi höfðu ekki rekstrargrundvöll og þar af leiðandi voru ein eða tvær þeirra fljótlega lagðar niður. Þær voru þá nýlega búnar að gera samninga við hin ýmsu fyrirtæki um það að líta eftir framleiðslunni hjá þeim.
    Nú hafa þessi sömu fyrirtæki sem leiddu til þessara skoðunarstofa fengið tilkynningu um það að skoðunarstofan sé lögð niður og það sé búið að stofna nýja skoðunarstofu. Nú sjáum við hér að Fiskistofa fær leyfi til þess að taka allt að 200 þús. kr. fyrir það að gefa skoðunarstofu sitt vottorð um að hún megi starfa. Það er þess vegna ekki nóg að fyrirtækin þurfi að leita til einnar skoðunarstofu sem síðan haldi áfram að líta eftir hjá þeim, heldur mega þau alveg eins búast við að sú skoðunarstofa leggist af eftir nokkra mánuði og ný sé komin á laggirnar sem þurfi bæði að fá vottorð frá Fiskistofu og síðan að innheimta önnur viðbótargjöld frá þeim fyrirtækjum sem hún á að þjóna. Það er því alveg greinilegt, og mér finnst nauðsynlegt að vekja athygli á því enn og aftur hér þó að hér sé verið að gera breytingu á lögum sem samþykkt voru í fyrra, að hér er verið að koma á fót óskaplegu eftirlitskerfi sem í raun og veru þjónar engum tilgangi. Ríkismat sjávarfurða er eftir sem áður jafnvel nauðsynlegt því að það eru gerðar þær kröfur að það sé opinbert eftirlit, að opinbert vottorð fylgi framleiðslu sem þarf að selja á erlendum mörkuðum. Það er því miður útlit fyrir það að við höfum ekki bætt þetta eftirlit með öllum þessum ráðstöfunum frá því sem það var þegar Ríkismat sjávarafurða sinnti þessu. Og nýlegar fréttir um það að við værum hugsanlega að missa saltfiskmarkaðina benda einmitt til þess að ekki hefur það sem hér var gert á síðasta ári leitt til þess að það hafi orðið sú breyting að þetta gæðaeftirlit sé betra.
    Þessu taldi ég nauðsynlegt að vekja athygli á. Þetta stofnanafargan, sem hér er verið að setja á fót og sem hæstv. fjmrh. og starfandi forsrh. hefur nú upplýst að muni þurfa enn þá annað og efra eftirlit með öllu þessu eftirlitskerfi, mun hvorki færa okkur betri vöru né koma vöru okkar betur á framfæri á erlendum mörkuðum. Það er síður en svo að það hafi leitt til neins góðs frá því að þessi lög voru samþykkt.