Breyting á reglugerð um Atvinnuleysistryggingasjóð

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 13:37:46 (6579)

[13:37]
     Svavar Gestsson:
    Virðulegi forseti. Það hefur spurst með óformlegum hætti að það standi til að ljúka þinginu næstu daga, jafnvel í næstu viku hef ég heyrt. Nú tek ég fram að ég hef ekki mjög áreiðanlegar heimildir fyrir þessu þannig að þetta berst með vindinum í raun og veru ( Gripið fram í: Og vorblænum.) og vorblænum. En tilefni þess að ég bið um orðið, hæstv. forseti, er það að fyrir nokkrum vikum áttum við hér orðastað ég og hæstv. félmrh. um nauðsyn þess að breyta reglugerð atvinnuleysistrygginga þannig að við greiðslu atvinnuleysisbóta og ákvörðun atvinnuleysisbótaréttar kæmu til álita vörubifreiðastjórar og trillusjómenn eða þeir sem hafa gegnt þeim störfum. En þannig hefur verið haldið á þessu að undanförnu að þess hefur verið krafist að trillusjómennirnir seldu trillurnar og vörubílstjórarnir seldu bílana til þess að þeir gætu í skamma hríð fengið atvinnuleysisbætur. Þetta er auðvitað algjörlega óeðlilegt fyrirkomulag og hefur verið mótmælt bæði af mér og fleiri hv. þm. úr fleiri stjórnmálaflokkum en það bólar ekkert á tíðindum í þessu máli. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. sem er hér á fundinum hvort hún hafi hugsað sér að leggja fyrir þingmál um þetta sérstaka atriði eða hvort hún hyggst leysa málið með breytingu á reglugerð um Atvinnuleysistryggingasjóð sem ég tel vera unnt að gera og skora reyndar á hæstv. ráðherra að gera.