Breyting á reglugerð um Atvinnuleysistryggingasjóð

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 13:41:25 (6582)


[13:41]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil láta það sjónarmið koma hér fram að það er algjörlega nauðsynlegt að þessi reglugerð líti dagsins ljós, verði gefin út og kynnt þingmönnum áður en Alþingi lýkur störfum í vor. Það er ekki hægt að búa við það að heilt ár líði þannig að þessir hópar verði af þessum réttindum sem Alþingi ætlaðist til að þeir hefðu og allir voru sammála um að meiningin var að þeir hefðu þegar lögum um þetta efni var breytt á sl. ári. Nú er heill vetur að baki, þó það sé e.t.v. ekki sumarlegt úti enn þá, og heilar stéttir hafa verið án þessara réttinda þennan vetur. Þessi seinagangur er auðvitað með öllu óþolandi. Hér

er upplýst af hæstv. félmrh. að það sé hæstv. fjmrh. sem liggi á málinu, dragi lappirnar, neiti mönnum um þessi réttindi af þeim einum ástæðum að auðvitað kostar það peninga að greiða atvinnulausum bílstjórum og atvinnulausum sjómönnum bætur rétt eins og öðrum þegnum í landinu. Það er engin ný speki fyrir okkur hér að það kosti einhverja fjármuni en til þess var ætlast og til þess standa lög að þeir fjármunir séu reiddir fram. Það eru engin rök í málinu að fjmrn. þurfi margar vikur eða marga mánuði til að finna það út að það kosti peninga að borga atvinnuleysisbætur til atvinnulausra manna. Ég segi það aftur að það er nauðsynlegt að þessi reglugerð verði kynnt fyrir þinglok þannig að menn geti skoðað hvort í henni felst fullnægjandi lausn. Ef ekki þá þurfa þingmenn að eiga þess kost og Alþingi að bæta úr því með lagasetningu áður en þingið lýkur störfum.