Breyting á reglugerð um Atvinnuleysistryggingasjóð

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 13:48:05 (6587)


[13:48]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Við hv. 9. þm. Reykv. tókum þetta mál er varðaði vörubílstjóra og smábátaútgerðarmenn, trillukarla sem svo eru kallaðir, upp í fyrirspurnarformi í febrúarmánuði sl. og þá hét hæstv. félmrh. því að athuga þessi efni, hvort lagaheimild væri til staðar að því er varðaði þessar starfsstéttir. Nú hefur ráðherra upplýst það að hún metur að svo sé. Það er því ekki ástæða ef reglugerðin tekur eðlilega á þessu máli að fara að setja önnur lög um þessi efni, eða taka sérstaklega á því með lagasetningu hér frá Alþingi og engin ástæða að tefja málið út af fyrir sig með slíkri málsmeðferð. En hitt þarf auðvitað að gerast eins og hér hefur verið sagt að hæstv. ráðherra gefi út reglugerðina og væri eðlilegt að hún væri kynnt nú þegar og síðan gefin út á næstu dögum.
    Hæstv. ráðherra hefur auðvitað reglugerðarvaldið. Ég skil það vel að ráðherrann kynni þetta fjmrn. en ég tel að ráðherrann geti gefið reglugerðina út þar sem lagastoð er fyrir hendi og það eigi ekki að draga það og ekki að bíða frekar eftir einhverjum svörum frá fjmrn. um þetta efni. Það er engin spurning að ráðherrann hefur fullan þingvilja fyrir því að staðið verði við lagaákvæðið og ég tel að það sé skylda ráðherrans. Ég tek undir það að auðvitað eiga bændur einnig að njóta þess réttar sem þessi lög kveða á um.