Lyfjalög

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 14:03:13 (6590)


[14:03]
     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka mikið og að mörgu leyti gott starf í nefndinni eins og hæstv. frsm. gerði einnig. Ég vil einnig harma að ekki skyldi nást samkomulag á lokasprettinum því að á tímabili fannst mér að við værum að ná saman í þessu viðkvæma og efnismikla máli.
    Við í minni hlutanum höfum viljað fara varlega í þessum málum og kollvarpa ekki ríkjandi kerfi eins og hendi sé veifað af ástæðu sem hægt er að ná utan um á einfaldari hátt en hér er boðað. Það er hægt að gera meiri kröfur til lyfsala og fjölga apótekum þar sem þess er þörf --- ég endurtek þar sem fjölgunar er þörf á apótekum --- án þess að kollvarpa öllu kerfinu. Hér er verið að efna til kapphlaups, hér er verið að blása til leiks, hér er verið að blása til leiks um kapphlaup til að opna nýjar lyfjaverslanir.
    Ég vil, fyrir hönd minni hlutans í nefndinni, lesa það nál. sem er á þskj. 1039 um frv. til lyfjalaga. Það er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frumvarp til lyfjalaga er í eðli sínu tvíþætt, annars vegar breytingar á lyfjamálum við tilkomu EES-samningsins og hins vegar umfangsmiklar breytingar varðandi lyfsölumál óháð fyrrnefndum samningi. Undirritaðir nefndarmenn telja ekki rétt að blanda þessu saman. Ekki eigi að taka ákvörðun um meiri háttar breytingar aðrar en þær er varða EES-samninginn þar sem þær breytingar einar sér eru viðamiklar. Nauðsynlegt er að fylgjast með hvaða áhrif þær munu hafa á lyfjaneyslu í landinu áður en aðrar róttækar breytingar eru ákveðnar.
    Þær breytingar á lögum og reglugerðum, sem eru óumflýjanlegar vegna EES-samningsins, eru einkum eftirfarandi níu atriði:
    Skráning og markaðsleyfi lyfja, þar með talin ónæmislyf, sem eru bóluefni, eitur eða sermi og efni sem valda ofnæmi, geislavirk lyf, náttúrulækningalyf og hómópatalyf.
    Merking lyfja og fylgiseðla með lyfjum.
    Prófanir á lyfjum.
    Klínískar prófanir á lyfjum.
    Litarefni í lyfjum.
    Heildsala lyfja.
    Auglýsingar og kynningar á lyfjum.
    Góðir framleiðsluhættir lyfja (GMP-reglur).
    Samhliða innflutningur lyfja.
    Þessar breytingar eru mismunandi áhrifamiklar. Gera má ráð fyrir að svokallaður samhliða innflutningur lyfja, þ.e. þegar hægt verður að kaupa lyf frá öðrum aðilum en frumframleiðendum, muni valda nokkurri lækkun á lyfjaverði en um leið fylgir honum sú áhætta á að fölsuð lyf komist inn á markaðinn. Þessi innflutningur kallar þar af leiðandi á aukið eftirlit. Varðandi skráningu samhliða innfluttra lyfja í sérlyfjaskrá gilda ekki sömu reglur og um önnur lyf og orkar það tvímælis.
    Auglýsingar á lausasölulyfjum verða leyfðar og er það nýmæli á Íslandi sem engan veginn getur þótt eftirsóknarvert. Markmið auglýsinga er að auka sölu sem leiðir til aukinnar neyslu sem samrýmist vart heilbrigðissjónarmiðum. Sumar aðgerðir Evrópusambandsins eru þess eðlis að hægt er að útfæra þær miðað við innlendar aðstæður og teljum við rétt að Íslendingar notfæri sér það. Til að mynda hafa Danir valið þá leið að banna lyfjaauglýsingar í sjónvarpi og telur minni hlutinn rétt að feta í fótspor þeirra.
    Önnur atriði frumvarpsins, óháð EES, eru margþætt. Því fer fjarri að heilbrigðismarkmið séu höfð að leiðarljósi í því frumvarpi til lyfjalaga sem hér er til afgreiðslu. Það hefur þó tekið breytingum til hins betra frá því að það var fyrst lagt fram á 116. löggjafarþingi. Enn er það þó frelsi til að selja lyf sem er aðalinntak frumvarpsins og að mati þeirra sem bera ábyrgð á frumvarpinu á þetta frelsi að lækka lyfjaverð.
    Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar í þskj. 961 er í miklu ósamræmi við þær upplýsingar sem nefndin hefur aflað sér og gengur í berhögg við meginþorra umsagnaraðila um frumvarpið en þeir skipta tugum. Rétt er að leggja áherslu á að enginn umsagnaraðili fullyrðir að breytingarnar muni lækka verð á lyfjum. Meiri hluti þeirra sem nefndin hefur fengið til sín telur að lyfjaverð komi til með að hækka verulega á landsbyggðinni og öryggi lyfjadreifingar sé stefnt í tvísýnu. Varla getur það talist háleitt heilbrigðismarkmið að verðlagning lyfja sé mismunandi eftir því hvar fólk er búsett í landinu. Ekkert bendir til þess að lyfjaverð lækki á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjárfesting mun að öllum líkindum stóraukast samfara fjölda nýrra lyfjaverslana.
    Gert er ráð fyrir að verð á lausasölulyfjum sé gefið frjálst en verð á lyfseðilsskyldum lyfjum hafi visst hámark. Því má reikna með að lyfjaverð gæti þróast á þann veg að verð lausasölulyfja verði misjafnt eftir því hvar búið er á landinu, hæst þar sem veltan er minnst.
    Stærri matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu geta orðið sér úti um heimild til að reka apótek þar sem verslunarleyfishafi, sem uppfyllir skilyrði um húsnæði, þarf aðeins að ráða til sín lyfjafræðing til þess að geta rekið lyfjaverslun. Í kjölfarið gæti þróast póstverslun með lyf fyrir þá sjúklinga sem neyta þurfa lyfja reglulega. Lyf fyrir þessa sjúklinga eru um 70% af heildarveltu apótekanna í lyfsölu. Lyfjaverslanir í dreifðum byggðum sætu þá eftir, jafnvel með 30% af núverandi veltu lyfja. Þær verslanir sinntu þá aðeins sjúklingum sem þyrftu bráðaðkallandi lyf. Ljóst er að fáar lyfjaverslanir úti á landsbyggðinni þyldu samkeppni sem þessa. Minnkandi sókn lyfjafræðinga út á land mundi óhjákvæmilega fylgja í kjölfarið.
    Verði þetta frv. að lögum munu öryggis- og heilbrigðissjónarmið ekki ráða ferðinni í lyfjamálum heldur blind markaðssjónarmið.
    Í breytingartillögum meiri hluta heilbr.- og trn. er lagt til að almenningur njóti fræðslu um lyf og lyfjanotkun. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið að þarna skorti mikið á að lyfsalar og heilbrigðisyfirvöld hafi sinnt þeim skyldum sínum að fræða sjúklinga um notkun lyfja, áhrif lyfja og aukaverkanir. Í umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga kemur í ljós að eldra fólk er illa upplýst um sín lyf og tekur þau gjarnan í röngum skömmtum.
    Samkvæmt þessu frv. er heimilt að reka sjúkrahússapótek og er sú þjónusta til bóta fyrir sjúklinga. Því tekur minni hlutinn undir það að sjúkrahússapótek geti selt sjúklingum lyf við útskrift og göngudeildarsjúklingar geti fengið sambærilega þjónustu. Þó telur minni hlutinn að útfærslan í frv. varðandi sjúkrahússapótek þurfi að vera mun skýrari.
    Minni hlutinn telur öll rök hníga að því að rétt sé að meta áhrif EES-samningsins eftir eitt og hálft ár, en fyrst þá ætti að vera komin nægileg reynsla af honum. Minni hlutinn gerir að tillögu sinni að nefnd verði þegar skipuð sem hafi það verkefni að meta áhrif þeirra breytinga sem samningnum fylgja. Í framhaldi af því fari fram endurskoðun á lögum um lyfjadreifingu.
    Minni hluti heilbr.- og trn. mælir með því að sá hluti frv. sem lýtur að ákvæðum EES-samningsins verði afgreiddur en öðrum þáttum frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Undir þetta álit skrifar Ingibjörg Pálmadóttir, Margrét Frímannsdóttir, Finnur Ingólfsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
    Með nál. er fjöldi umsagna sem borist hafa til heilbr.- og trn. og styðja það álit okkar að hér sé verið að fara allt of hratt í sakirnar. Við hefðum getað haft miklu fleiri umsagnir en eru hafðar með því segja má að það sé samdóma álit þeirra tuga manna sem komu til nefndarinnar að verið væri að breyta lyfjalögum á þann veg að það muni ekki koma almenningi til góða og mun ég rökstyðja það á eftir.
    Eins og fram kom í nál. hefur frv. til lyfjalaga sem nú er til 2. umr. verið í meðferð heilbr.- og trn. um nokkurt skeið og hefur tekið miklum breytingum frá því það var lagt fram fyrst á 116. löggjafarþingi. Breytingarnar eru allar til bóta að mati minni hlutans en engan veginn nægjanlegar. Þær eru engan veginn nægjanlegar. Þess vegna teljum við að ef málið hefði fengið að vera áfram í vinnslu hefðu menn getað náð sáttum í þessu máli og náð nokkuð góðu máli, hv. formaður heilbr.- og trn., en asinn er mikill og mikið liggur á. ( Gripið fram í: Ekki í þessu máli.)
    Við teljum að þetta frv. sé ekki fullnægjandi frá heilbrigðissjónarmiði séð því megininntak frv. er frelsi til að selja. Markaðslögmálið verður heilbrigðissjónarmiðum yfirsterkara þrátt fyrir þær brtt. sem meiri hluti heilbr.- og trn. gerir við frv. Brtt. eru 21 talsins og hafa út af fyrir sig ágætis merkingu en því miður reka þær sig hver á annars horn og verða ekki marktækar. Meira að segja má benda á margar gloppur í brtt. frá meiri hluta heilbr.- trn. og ég tel alveg óhjákvæmilegt að taka þetta mál upp á milli 2. og 3. umr. Og þrátt fyrir allar 21 brtt. breyta þær því ekki að lyfjaverð verður mismunandi eftir því hvar búið er á landinu og þjónustan mun verða lakari út á landi en hún er í dag.
    Þrátt fyrir öll viðvörunarorð þeirra sem gerst þekkja og þeirra sem mestu reynsluna hafa á sviði heilbrigðis- og lyfsölumála er þetta mál keyrt áfram um leið og Íslendingar eru að aðlaga sig mjög víðtækum breytingum vegna EES-samningsins á lyfjamarkaðnum. Því eins og kemur fram í nál. er frv. tvíþætt, annars vegar breytingar vegna EES-samningsins og hins vegar víðtækar breytingar á lyfsölumálum.
    En eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hlutans fékkst með miklum eftirgangsmunum fram breyting á frv. þannig að gildistaka seinni hluta frv. varðandi lyfjamálin dregst til 1. júní 1995. Þá taka gildi VII. kafli frv., sem er um stofnun lyfjabúða og heildsöluleyfi, og XIV. kafli frv. um verðlagningu lyfja. En fresturinn er allt of skammur að mati minni hlutans varðandi svo víðtækar breytingar. Það verður ekki komin nægjanleg reynsla á svo skömmum tíma varðandi EES-ákvæðin og það eru ekki gerðar tillögur um að nefnd fylgist með áhrifum EES-samningsins á þessum tíma, sem minni hlutinn telur nauðsynlegt. Það má því segja að það sé sama hvernig reynslan verði af breytingunum varðandi EES, það á að gera víðtækar breytingar á lyfjadreifingarmálum 1. júní 1995 ef þetta frv. verður að lögum.
    Á sama tíma er nýr heilbrrh. að setjast að völdum ef ríkisstjórnin tórir svo lengi. Sá ráðherra sem þá tekur við er að taka við öllum þessum breytingum og sviptingum sem fylgja í kjölfar gildistöku þessa frv.
    Þess vegna hefur minni hluti heilbr.- og trn. gert það að tillögu sinni í nefndinni að gildistakan yrði í fyrsta lagi 1. jan. 1996 og að nefnd starfi þangað til sem fylgist með áhrifum samningsins. Sú nefnd yrði til ráðuneytis um áframhaldandi skref varðandi breytingar. En meiri hlutinn vill taka mörg skref í einu, skref sem geta verið örlagarík fyrir lyfjadreifingu í landinu og ég mun fara nokkrum orðum um á eftir.
    En ég vil fyrst fara orðum um breytingar sem verða á lyfsölumálum með tilkomu EES-samningsins, sem taka á gildi 1. júní nk. Eins og kemur fram í nál. hafa þessar breytingar á lyfjamálum vegna samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði mjög mismunandi áhrif. Áhrifamestur er hlutinn sem snýr að samhliða innflutningi lyfja. Það þýðir að það er hægt að flytja inn lyf án þess að versla við frumframleiðandann og menn reikna með því að geta fengið jafngóð lyf á lægra verði. En um leið eigum við líka á hættu að fá lyf sem eru fölsuð og þess vegna þurfum við að efla eftirlit með lyfjum í leiðinni. En þar sem samhliða innflutningur hefur verið leyfður hefur lyfjaverð lækkað nokkuð. Það eru því vissar vonir bundnar við samhliða innflutning.
    Aðrar kvaðir sem á okkur koma varðandi hið Evrópska efnahagssvæði eru að það má auglýsa lausasölulyf og hef ég haft um það mörg orð áður og ætla að spara þau að þessu sinni. Það kemur fram í nál. að við teljum ekki æskilegt að auglýsa lyf því í eðli sínu eru lyf eitur og við viljum ekki auka sölu á lyfjum. En með auglýsingum almennt er verið að reyna að auka sölu lyfja. En það kemur líka fram í nál. að það er hægt að taka tillit til þess sem ríkir í reglum einstaka þjóðríkja. Danir hafa t.d. nýtt sér það að auglýsa ekki lyf í sjónvarpi. Það er samkomulag á milli apótekara í Danmörku að gera það ekki og ég tel það mjög mikilvægt. En ef við erum að fara í bullandi samkeppni þá fara menn út í auglýsingar og það næst ekkert samkomulag um að auglýsa ekki. Það er þess vegna svo mikilvægt á meðan við erum að breyta svona miklu í grundvallaratriðum séum við ekki á sama tíma að fara í bullandi samkeppni.
    Það eru líka ýmis minni háttar atriði sem breytast með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er t.d. nýmæli að nú má rjúfa innsigli á lyfjapakkingum en það hefur ekki mátt undanfarin ár á Íslandi. Það er viss hætta þessu samfara. Það er viss hætta á að það verði ruglingur varðandi lyfjagjafir. Það verður ekki lengur séð utan á pakkningunum hvenær lyfið rennur út þegar það er búið að skipta því í marga skammta og setja það kannski í aðrar umbúðir. Að þessu þarf því sérstaklega að huga. Auðvitað er það viss sparnaður að úr pakkningu sem er með 20 töflum sé hægt að afgreiða 10 þurfi ekki að nota meira en það er viss áhætta fólgin í þessu í leiðinni. Þótt þetta sé kannski ekki stórvægilegt atriði þá finnst mér rétt að benda á það hér.

    Það eru þrjú meginatriði sem breytast við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er að lyfjamarkaðurinn í Evrópu starfi innbyrðis á samræmdari hátt auk þess sem neytendur og læknar fái betri upplýsingar til að stuðla að skynsamlegri notkun lyfja en hingað til, samkeppni aukist og upplýsingar um markaðinn verði aðgengilegri á sameiginlega markaðnum á sviði verðlagningar og þátttöku almannatrygginga í lyfjakostnaði. Aðgangur nýrra lyfjategunda verði greiðari inn á hinn stækkaða sameiginlega markað og þaðan inn á heimamarkaðinn með betra skipulagi markaðsleiða í Evrópu, m.a. fyrir atbeina Lyfjastofnunar Evrópu. Þetta eru höfuðbreytingarnar varðandi hið Evrópska efnahagssvæði. Eins og menn heyra þá eru þetta töluverðar breytingar og er þó ekki allt talið.
    Þá langar mig til að snúa að frv. sjálfu óháð hinu Evrópska efnahagssvæði og breytingum sem það hefur í för með sér ef að lögum verður. Meginmarkmið frv. er að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum, tryggja gæði og öryggi lyfja og lyfjaþjónustu og draga úr óhóflegri notkun lyfja og minnka lyfjakostnað. Þetta eru allt saman mjög fögur fyrirheit og góð markmið út af fyrir sig og auðvelt að taka undir þau. En hvernig nást markmiðin með frv.? Ég tek í fyrsta lagi að tryggja landsmönnum nægjanlegt framboð að nauðsynlegum lyfjum. Þessu markmiði höfum við náð á Íslandi en það stefnir allt í að það verði minni þjónusta úti á landi. Það stefnir allt í það um leið og það verður erfiðara að vera með nægjanlegt framboð á nauðsynlegum lyfjum úti um landið.
    Tryggja gæði og öryggi lyfja. Eins og ég sagði áðan þá þarf að auka eftirlitið varðandi samhliða innflutning. Og við tryggjum ekki öryggið nema bæta eftirlitið. Með fleiri lyfjaverslunum þá þurfum við líka meira eftirlit vegna þess að maður getur ímyndað sér að í harðri samkeppni þar sem lyfjaverslanirnar eru orðnar mjög margar og mikil pressa þá minnkar öryggið. Það segir sig sjálft.
    Að draga úr óhóflegri notkun lyfja. Eins og ég sagði áðan að með því að auglýsa lyf og með því að auka enn aðgengi að lyfjum, t.d. með því að það verði þrjár til fjórar lyfjaverslanir í einum stórmarkaði, þá erum við samhliða að auka neyslu lyfja.
    Að minnka lyfjakostnað. Hvernig er hægt að rökstyðja það að þetta frv. lækki lyfjakostnað? Enginn af þeim sem komu á fund nefndarinnar sem, eins og ég sagði áðan, skiptu tugum treysti sér til að segja að ef þetta frv. yrði að lögum þá lækkaði lyfjaverð á Íslandi. Og mér þætti gaman að heyra hæstv. heilbrrh. rökstyðja það á eftir hvernig þetta ætti að lækka vöruverð til neytenda. Vegna þess að menn fara út í bullandi fjárfestingar, fjárfestingar kosta mikla peninga og þá hækkar vöruverð.
    Lyfjaverð mun hækka á landsbyggðinni. Ég held að það sé nokkuð ljóst. Lyfjaverð mun hækka á landsbyggðinni vegna þess að verð á lausasölulyfjum verður gefið frjálst en hámarksverð verður sett á lyfsöluskyld lyf. Það segir að þeir sem eru með litla veltu verða að hækka lausasölulyf. Þar með verða lausasölulyf dýrari þar sem veltan er minni og það er úti á landi. Það er alveg ljóst að lyfseðilsskyld lyf verða í hámarki líka úti á landsbyggðinni. Af því að hv. frsm. brosir mjög mikið þá langar mig til að spyrja hann: Finnst honum eðlilegt að það sé mismunandi lyfjaverð um landið? Það sé mismunandi eftir því hvar þú býrð hvað þú borgar mikið fyrir lyfin? Ég minnist þess að ekki alls fyrir löngu þegar verið var að tala um olíuverð á landinu og að fella ætti niður jöfnunargjöld á olíu þá sagði sami hv. brosandi þm. að það kæmi ekki til greina vegna þess að olíuverð á landinu yrði alls staðar að vera jafnt en þegar kemur að lyfjunum þá gildir eitthvað allt annað. Af hverju skyldi lyfjaverð lækka á Stór-Reykjavíkursvæðinu með auknum tilkostnaði og fjölda nýrra lyfjaverslana? Hvers vegna skyldi það lækka? ( Gripið fram í: Það á að samræma þetta um allt land. Það á að vera hámarksverð.) Nú er hv. formaður heilbr.- og trn. að boða nýjar breytingar svo ég býst við að við verðum kölluð á fund í kvöldverðarhléinu. Ég heyri að hann er að boða hér breytingar.
    Í nál. minni hlutans kemur fram að það sé mjög líklegt að stórir verslunarmarkaðir í Reykjavík setji á stofn póstverslun með lyf. Hvað þýðir það ef t.d. stórverslun eins og Bónus tæki upp á því að setja upp póstverslun með lyf eða einhver önnur stórverslun? Það gæti þýtt það t.d. að sjúklingar sem eru á föstum lyfum, sem er um 70% af heildarveltu lyfja, þ.e. sjúklingar með asma, sjúklingar með gigt, sjúklingar með hjartasjúkdóma, svo eitthvað sé nefnt, þetta er 70% af lyfjaversluninni, yrðu að sjálfsögðu fastir áskrifendur að lyfjunum sínum af því að það er mismunandi lyfjaverð á landinu. Og hvað mundi þetta þýða fyrir landsbyggðarverslunina í lyfjum? Hún sæti eftir með 30% af lyfjaveltunni eins og hún er í dag. Það eru sem sagt bráðalyfin sem eftir eru. Þau yrðu á hæsta prís svo lengi sem lyfjaverslunin mundi lifa þetta af. Hún mundi ekki lifa þetta af nema mjög skamman tíma.
    Við erum því að brjóta niður það munstur sem er í dag. Við erum nokkuð ánægð með lyfjaþjónustuna úti um landið þó það megi enn bæta hana. Við erum nokkuð ánægð með hana og við erum hrædd um að við séum að brjóta þetta niður.
    Þá kann einhver að spyrja: Er þetta ekki í góðu lagi? Sjúklingarnir fá lyfin sín á enn þá lægra verði gegnum póstverslunina og er þetta bara ekki allt í góðu lagi? Svo munu heilsugæslustöðvarnar sjá um afganginn. Er það stefnan að það séu eingöngu heilsugæslustöðvar úti á landi sem sjá um apótekin? Ég tel að lyfjafræðingar almennt muni hópast burtu úr dreifbýlinu hingað í ,,bisnessinn``. Það er eðlilegt. Og heilsugæslustöðvarnar munu ekki geta mannað stöðu lyfjafræðinga með litla veltu. Er það stefnan?
    Það er einnig verið að slaka á kröfunum um fagmennsku. Það á sér hér stað visst tilraunastarf. Ég vil aðeins í framhjáhlaupi benda á eitt varðandi það. Við höfum stundum kvartað undan því að okkur finnst að apótekarar veiti ekki nægilega góða þjónustu í apótekunum, að fólk fái ekki nógu góða fræðslu um lyf

og því sé ekki sagt nákvæmlega hvernig það eigi að taka inn sín lyf og um aukaverkanir o.s.frv. Varla verður það í gegnum póstverslunina. Við þekkjum það úr matvöruverslunum að þar sem vöruverð lækkar er þjónustan miklu minni. Það er t.d. ekki heimsendingarþjónusta í stórmörkuðum þar sem þjónustan er lítil en það er eitt af því sem er nýlunda og mjög til bóta að apótekin eru farin að senda lyf heim til sjúklinga og þarf að vera í miklu meiri mæli en er í dag.
    Svo er annað sem kæmi ef lyfjafræðingar flosna af landsbyggðinni. Það hefur verið þannig að lyfsölum úti á landi hefur verið gert að kaupa dýrar eignir og reyndar á Stór-Reykjavíkursvæðinu líka. Segjum t.d. í 6.000 manna byggðarlagi væru allt í einu komin tvö til þrjú apótek þar sem var eitt fyrir. Lyfsali nýbúinn að kaupa hús og þarf að kaupa líka íbúðarhúsnæði sem fylgir lyfjaversluninni, kannski fyrir 40 millj. kr. En komi tvær til þrjár nýjar lyfjaverslanir þá er þetta húsnæði algjörlega verðlaust. Hann gæti kannski selt það á 5 millj. kr. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ríkið skaðabótaskylt í slíkum tilvikum?
    Það er eitt atriði í 36. gr. frv. sem ég tel að megi teljast til bættrar þjónustu fyrir sjúklinga. Það er varðandi sjúkrahússapótekin og ég tel að sjúkrahússapótekin eigi rétt á sér en ég býst ekki við því að það sé rekstrargrundvöllur fyrir þeim nema á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Hingað til hefur þessi þjónusta verið veitt en aðeins varðandi lyf sem eru sérmerkt, S-merkt lyf, sem eru ekki fáanleg annars staðar en í sjúkrahússapótekunum. En í frv. er gert ráð fyrir því að sjúklingar sem útskrifast af sjúkrahúsum geti keypt lyf um leið og þeir fara heim og göngudeildarsjúklingar geti einnig keypt lyf í sjúkrahússapótekum og þá verða lyfseðlarnir sérmerktir sjúkrahúsunum. Ég tel þetta mjög mikilvægt. Ég efast ekki um að í þessum sjúkrahússapótekum fái sjúklingar mjög góða fræðslu um sín lyf. Í dag þegar sjúklingar eru farnir að útskrifast miklu fyrr af sjúkrahúsum en áður en eru raunverulega mjög veikir þegar þeir eru að útskrifast. Þá er mikilvægt að þeir þurfi ekki að hlaupa eftir lyfjunum sínum út um bæ heldur geti fengið lyfin sín um leið og þeir fara heim. Þó svo að það sé vísir í rétta átt að apótekin eru farin að senda lyf heim þá er það ekki almennt enn þá og þá tel ég þetta vera mjög mikilvægt atriði.
    Við höfum talið að þetta gæti skarast varðandi ný samkeppnislög vegna þess að sjúkrahússapótekin, þ.e. ríkisrekin apótek, verða í beinni samkeppni við einstaklinga en samkvæmt umsögn frá Samkeppnisstofnun varðandi 36. gr. um apótek í frv. til lyfjalaga segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í upphafi greinarinnar kemur fram að sjúkrahússapótekum verði heimilt að afgreiða lyf til sjúklinga sem útskrifast af sjúkrahúsi og göngudeildarsjúklinga. Með þessu mun starfssvið sjúkrahússapóteka og almennra einkarekinna apóteka skarast. Sjúkrahússapótekin eru rekin sem hluti af sjúkrahúsunum, sem fá sínar tekjur að mestu sem framlög úr ríkissjóði, en almenn apótek eru einkarekin fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Samkeppnisaðstæður almennra einkarekinna apóteka og sjúkrahússapóteka verða því ólíkar.
    Athygli er vakin á 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga en þar segir: Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er samkeppnisráði heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi.
    Með hliðsjón af þessu ákvæði í samkeppnislögum er æskilegt að orða síðustu setningu 1. mgr. 34. gr. frv. til lyfjalaga þannig: Rekstur sjúkrahússapóteka skal vera fjárhagslega aðskilinn frá öðrum rekstri sjúkrahússins. Einnig má benda á þann möguleika að fela einkareknum apótekum að afgreiða lyf til sjúklinga sem útskrifast af sjúkrahúsum og göngudeildarsjúklinga. ``
    Það er því hægt að komast hjá því að þetta skarist við samkeppnislög og við mælum með því að þessi hluti frv. verði samþykktur núna. Vegna þess að við teljum að þetta sé kannski það eina í þessu frv. sem bætir þjónustuna við sjúklinginn.
    Mig langar máli mínu til stuðnings að rekja nokkuð umsagnir þeirra aðila sem hafa sent okkur umsagnir sínar um þetta frv. Ég tek aðeins nokkurn hluta þeirra sem ég tel mikilvægt að menn heyri því það er svo undarlegt að þrátt fyrir að tugir manna sem hafa mikla reynslu af þessum málum hafi komið til hv. heilbr.- og trn., þá er eins og menn hafi talað fyrir daufum eyrum. Ég held því að það sé nauðsynlegt að rifja upp nokkur atriði sem eru mjög mikilvæg í þessu sambandi. Með leyfi forseta langar mig að lesa hér hluta af umsögn Alþýðusambands Íslands sem er eitt af fylgiskjölum með nál. minni hlutans.
    ,,Miðstjórn ASÍ hefur yfirfarið umrætt frv. og borið það saman við frv. um sama efni frá vorinu 1993 m.a. í ljósi umsagnar miðstjórnar ASÍ þá.
    Meginefni frv. felst í auknu frelsi í lyfjadreifingu, m.a. með afnámi forsetaleyfa til lyfsölu og auknu frelsi í verðlagningu lyfja, og kemur í beinu framhaldi af því að hlutfallsgreiðsla sjúklinga var tekin upp í ágúst 1992. Markmiðið með þessum breytingum er að skapa forsendur fyrir aukinni samkeppni á þessum markaði sem ,,að öðru óbreyttu`` ætti að leiða til lægri álagningar á lyfjum. Eins og fram kemur í greinargerð með frv. eru þessar breytingar unnar í samræmi við niðurstöður nefndar á vegum heilbrrn. frá því vorið 1992. Ástæða er til þess að gera alvarlegar athugasemdir við þau rök að lyfjaverð lækki með samþykkt þessa frv.
    Í fyrsta lagi er gengið út frá því að lyf sé eins og hver önnur neysluvara sem neytendur ákveði alfarið sjálfir hvort þeir kaupi eða láti vera að kaupa. Þetta er auðvitað alrangt, sjúklingurinn hefur í fæstum tilfellum einhver áhrif á ákvörðunina um það hvort hann þurfi lyf eða ekki, sjúkdómsgreining læknis

og lyfjaráðgjöf hans í framhaldi af því ræður þessu. Því er afar hæpið að ,,markaðstengja`` þetta ferli.
    Í öðru lagi hefur ekkert tillit verið tekið til samkeppnisstöðunnar í heildsöludreifingu lyfja, bæði innflutningi og framleiðslu þar sem eitt fyrirtæki er nánast allsráðandi með 2 / 3 -- 3 / 4 hluta markaðarins. Þessi staða veldur því að afar ólíklegt er að aukið frelsi í smásöludreifingu lyfja leiði til verðlækkunar á lyfjum.
    Í þriðja lagi er ekki tekið tillit til áhrifa af hámarksverði lyfja. Miðstjórn ASÍ telur nauðsynlegt að hafa hámarksverð á lyfjum til þess að útiloka að einstaka lyfjabúðir, sem njóta einokunaraðstöðu, geti nýtt sér aðstöðuna með óeðlilega hárri álagningu. Það er jafnframt nauðsynlegt að hafa það í huga að reynslan af slíku kerfi er eindregið sú að langflestir dreifingaraðilar nota hámarksálagninguna.
    Í fjórða lagi er ekkert tillit tekið til félagslegra og byggðapólitískra sjónarmiða sem lúta að því að allir neytendur eigi þokkalega auðvelt með að kaupa lyf á sama verði alls staðar á landinu.
    Í fimmta lagi eru verulegar líkur á því að heildarkostnaður við dreifingu lyfja komi til með að hækka nokkuð frá því sem nú er vegna aukinna fjárfestinga í útsölustöðum á stærstu þéttbýlisstöðunum.``
    Þetta er úr umsögn Alþýðusambands Íslands. Hún er miklu lengri og Alþýðusambandið gerir miklu fleiri athugasemdir og ég ætla að lesa nokkrar þeirra til viðbótar:
    ,,Í sjötta lagi má einnig velta því fyrir sér hvers vegna helstu nágrannalönd okkar hafa hafnað því að taka upp slíkt frelsi í lyfjadreifingu sem hér er lagt til.`` --- Þetta er spurning til hæstv. heilbrrh. Hvernig stendur á því að nágrannalönd okkar hafa hafnað því að taka upp slíkt frelsi í lyfjadreifingu? Hefur hæstv. heilbrrh. svör við því? Þetta er brennandi spurning. Danmörk hefur t.d. í mörg ár verið að endurskoða sína lyfjadreifingu og sín lyfjamál en þeir eru alfarið hættir við að ganga þá leið sem við erum að leggja inn á núna. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að þessu og ég vona að hann skrifi niður þessa fyrirspurn og svari henni á eftir.
    Og svo ég haldi áfram með Alþýðusambandið og athugasemdirnar:
    ,,Þessi atriði valda því að það er afar ólíklegt að lyfjaverð lækki þegar á heildina er litið og því vandasamt að sjá þjóðhagslegan sparnað eða sparnað ríkissjóðs af slíku kerfi.``
    Þetta er auðvitað aðalatriðið vegna þess að hæstv. heilbrrh. heldur að hann sé að spara með þessu en það er mikill misskilningur og öll rök sem hníga að því að það er enginn sparnaður. Þvert á móti.
    Þá læt ég skilið að svo stöddu við umsögn Alþýðusambands Íslands en langar til að koma með nokkrar athugasemdir frá aðilum utan af landi og taka þá sem hafa verulegar áhyggjur af lyfjadreifingunni úti á landsbyggðinni sem verður öðruvísi en hún er í dag. Ég tek umsögn heilbrigðismálaráðs Austurlands fyrir. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta, stutt en ákveðið:
    ,,Heilbrigðismálaráð Austurlands fjallaði um frv. til nýrra lyfjalaga á fundi sínum 3. mars sl.
    Ráðið fagnar þeim breytingum sem hafa orðið til batnaðar frá fyrri frumvarpsdrögum en sér ekki fyrir sér að frv. verði lyfjadreifningu á Austurlandi eða annars staðar í dreifbýli til sérstaks framdráttar. Á fundinum komu fram efasemdir um að það takmark laganna að draga úr lyfjanotkun og minnka lyfjakostnað næði fram að ganga heldur gæti samkeppni leitt til meiri lyfjanotkunar og möguleikar væru til hringamyndunar og fákeppni líkt og hefur gerst í smásöluverslun á sumum sviðum. Í frv. vantar möguleika til jöfnunar lyfjaverðs vegna aðstöðumunar dreifbýlis og þéttbýlis. Þá var á það bent að lengja þyrfti þann tíma sem landlæknir gæti krafist upplýsinga um frá lyfjabúðum (24. gr.).
    Almennt var rómur fundarmanna sá að flýta beri sér hægt um gleðinnar EES-dyr og láta dóm reynslunnar hjálpa til við að marka stefnu í lyfjadreifingarmálum.``
    Þetta var umsögn heilbrigðismálaráðs Austurlands.
    Það eru margar umsagnir sem væri rétt að líta til. Ég ætla ekki að lesa þær allar en langar til að lesa frá apótekara á Húsavík nokkrar staðreyndir og samviskuspurningar um lyfjamál. Þetta er stutt bréf en margar brennandi spurningar í þessu stutta bréfi, með leyfi forseta:
    ,,Getur þú sætt þig við mismunandi lyfjaverð á landinu, og þá líklega hæst á afskekktum stöðum á landsbyggðinni?
    Veist þú að Danir hættu nýlega við líkar breytingar og nú eru boðaðar m.a. vegna þess að þeir óttuðust hærra verð á ,,afskekktum`` stöðum í Danmörku?`` --- Hér er kannski komið svarið við spurningunni frá Alþýðusambandi Íslands.
    ,,Veist þú að hver sem er (hafi hann verslunarleyfi) getur stofnað apótek fái hann til liðs við sig einhvern lyfjafræðing (samkvæmt framlögðu frv.)?
    Getur þú sætt þig við mikla fjölgun apóteka á þéttbýlisstöðum og þar af leiðandi gjaldþrot?
    Veist þú að í birgðum apóteka eru mest misnotuðu efnin í dag, þ.e. amfetamín og vefaukandi sterar?
    Getur þú sætt þig við að hvatt sé til aukinnar lyfjaneyslu með auglýsingum í fjölmiðlum?
    Veistu að ofnotkun ýmissa lausasölulyfja getur valdið alvarlegum sjúkdómum?`` --- Svo ég skjóti hér inn í þá hefur aldrei mátt minnast á það úr þessum virðulega ræðustól að lausasölulyf geta líka verið eitur sé þeirra neytt í miklu magni. Ég vil minna á það að þar sem er auðvelt að ná í lausasölulyf nýta menn sér það ótæpilega sem á annað borð eru sjúkir í lyf. Það er t.d. mikil hætta gagnvart unglingum sem eru í ýmsu fikti að eftir því sem þetta er nær þeim og eftir því sem þetta er meira auglýst og eftir því sem þetta er meira fyrir augunum á þeim, þeim mun meiri hætta. Þessi svokölluðu lausasölulyf sem ekki þarf

lyfseðil við eru ekkert duft sem er ekki hættulegt, þetta er ekkert kartöflumjöl. Þetta er eitur.
    Svo ég haldi áfram að lesa upp úr bréfi Vigfúsar apótekara á Húsavík og endurtek þetta:
    ,,Veistu að ofnotkun ýmissa lausasölulyfja getur valdið alvarlegum sjúkdómum?
    Veistu að heilbrigðisyfirvöld telja sig hafa sparað tæpa 2,5 milljarða frá 1989--1992 (ekki er enn búið að reikna út 1993) í góðri samvinnu við apótekin?
    Veistu að í sömu skýrslu kemur fram að Íslendingar nota minnst lyf Norðurlandabúa að Færeyingum einum undanskildum?`` --- Þetta er mjög mikið atriði, hæstv. heilbrrh.
    Veistu að samkvæmt fyrirliggjandi frv. getur apótekari á landsbyggðinni flutt sig á ,,betri stað`` án þess að fá annan lyfjafræðing í staðinn?`` --- Þetta er annað mjög mikilvægt atriði.
    ,,Það mætti draga allar þessar staðreyndir saman í eina samviskuspurningu:
    Finnst þér að lyfjadreifingin eigi að vera hluti af heilbrigðiskerfinu eða vera háð markaðslögmálum almennrar verslunar? Er það þess virði að eyðileggja núverandi dreifikerfi sem af öllum er talið mjög öruggt án þess að nokkur viti hvað við tekur?``
    Þetta var frá apótekara úr dreifbýlinu. Hér er umsögn frá Stéttarfélagi íslenskra lyfjafræðinga sem ég ætla að lesa hluta af, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er stjórnmálamanna þessa lands að semja lög og móta hina pólitísku stefnu. Með athugasemdum okkar er félagið hvorki að leggja blessun sína yfir hina mótuðu stefnu í lyfjamálum eða fordæma hana, en við áskiljum okkur rétt til athugasemda og bendum á að lögmál frelsis og samkeppni eiga ekki við á öllum stigum lyfjadreifingarinnar, og síst gilda þau á því stigi er snýr að afhendingu lyfja til neytenda.`` --- Þetta er aðalatriðið, hæstv. heilbrrh. Hér er ekki verið að tala um almennar tuskur í tuskubúð. Í frv. er verið að tala um lyf og það er verið að vara við því að það sé litið á lyf eins og hverjar aðrar tuskur sem seldar eru og það gildi ekki sömu lögmál um lyf og tuskur.
    Ég ætla ekki að lesa meira úr áliti Stéttarfélags ísl. lyfjafræðinga. Þetta er nægjanlegt en það koma mjög mörg merkileg atriði fram hjá þeim. Það komu ýmis atriði fram á heilbrigðismálaþingi sem væri hollt fyrir hæstv. heilbrrh. að lesa vandlega.
    Hér er umsögn frá Lyfjatæknafélagi Íslands en Lyfjatæknafélag Íslands kom einnig á fund heilbr.- og trn. Ég vil taka það sérstaklega fram vegna þess að þetta er ekki mjög gömul starfsgrein, lyfjatæknar á Íslandi, að hún hefur breytt ýmsu einmitt varðandi þjónustuna í apótekum. Þetta er sérmenntað heilbrigðisstarfsfólk sem er mikilvægt að efla. Það eru um 200 manns sem hafa þessa menntun í landinu og það er mjög mikilvægt að apótekin verði ekki svo lítil og ræfilsleg að þau hafi ekki efni á að hafa slíka þjónustu innan borðs. Ég ætla að lesa hluta af umsögn Lyfjatæknafélags Íslands. Þeir segja, með leyfi forseta:
    ,,Með auknu frjálsræði í lyfjasölu óttumst við að fagleg þjónusta verði skert. Samkvæmt 20. gr. frv. er stofnun lyfjabúða háð því skilyrði að húsnæði, búnaður og starfslið fullnægi kröfum Lyfjaeftirlits ríkisins og skal samþykki þess liggja fyrir áður en starfsemi lyfjabúðar er hafin.
    Hverjar eru kröfur Lyfjaeftirlits ríkisins, t.d. til starfsliðs?
    Stjórn Lyfjatæknafélags Íslands gerir þær kröfur að Lyfjaeftirlit ríkisins tryggi að í þeim lyfjabúðum sem stofnaðar verða samkvæmt nýjum lögum starfi eingöngu fagmenntað starfslið, þ.e. lyfjafræðingar og lyfjatæknar.
    Stjórn Lyfjatæknafélags Íslands leggur til að við 24. gr. bætist: Lyfjabúðum er skylt að ráða lyfjatækna til starfa. Fáist ekki lyfjatæknir til starfa er heimilt að ráða annað ábyrgt starfsfólk að fengnu samþykki Lyfjaeftirlits ríkisins, sbr. 28. gr.
    Samkvæmt 25. gr. frv. er lyfjabúðum skylt að vista lyfjatækninema og þar með taka þátt í menntun þeirra. Til hvers er verið að sérmennta lyfjatækna ef starfsvettvangur þeirra er síðan ekki tryggður?``
    Ég ætla ekki að lesa meira úr umsögn Lyfjatæknafélagsins.
    Við erum hér með umsögn Læknafélagsins og þetta er allt á einn veg. Menn óttast að hér sé verið að stíga skref sem eru ekki til heilla fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu.
    Í umsögn Læknafélags Íslands eru gerðar tillögur um viðamiklar breytingar á frv. sem ekki er gert ráð fyrir í brtt. frá meiri hluta heilbr.- og trn. Með leyfi forseta les ég hluta úr umsögn Læknafélags Íslands. Síðan ætla ég að lesa örlítið úr umsögn Lyfjafræði lyfsala frá 17. febr. 1994. Í umsögn læknafélagsins er aðalatriðið þetta:
    ,,Frv. virðist bera þess merki að þeir sem það hafa samið þekki ekki nægilega vel til aðstæðna í dreifbýli og hafi fyrst og fremst haft í huga markaðslögmál sem í þessu tilviki eiga þó aðeins við í þéttbýli. Þá er einnig áberandi að mjög er dreginn taumur lyfjafræðinga í frv. þessu.``
    Síðan koma athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Það eru einar fjórtán athugasemdir sem gerðar eru við frv. og eins og ég segi ekki tekið tillit til þeirra í brtt.
    Í umsögn Lyfjafræði lyfsala kemur m.a. fram, með leyfi forseta:
  ,,1. Í I. kafla laganna er fjallað um yfirstjórn lyfjamála. Þar er gert ráð fyrir að Lyfjaeftirlit ríkisins svo og Lyfjanefnd ríkisins verði sjálfstæðar stofnanir sem heyri beint undir ráðherra. Hlutverk þessara stofnana tengist mjög mikið og innbyrðis vægi þeirra á eftir að breytast með þeim breytingum sem boðaðar eru í frv. og með breytingum á skráningu lyfja með tilkomu EES. Það er tillaga okkar að öll lyfjamál heilbr.- og trmrn. verði undir einni stjórn (t.d. undir stjórn lyfjamálastjóra). Slíkt fyrirkomulag yrði bæði ódýrara og einfaldara (færri yfirmenn). Með slíku fyrirkomulagi mun ráðuneytið geta sinnt betur hlutverki sínu sem eftirlits- og upplýsingastofnun um lyfjamál.
    2. VII. kafli frv. fjallar um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi. Í 20. gr. er að finna ákvæði um að hver sá sem hefur starfsleyfi lyfjafræðings, verslunarleyfi og hefur starfað sem lyfjafræðingur í þrjú ár geti fengið starfsleyfi lyfjafræðings. Það er álit okkar að ef þetta ákvæði verði í lyfjalögunum muni það leiða til þess að apótekum fjölgi mikið í þéttbýliskjörnum. Þessi apótek verða að öllum líkindum flest svo lítil að þau bera ekki nema einn lyfjafræðimenntaðan starfsmann og það verður væntanlega einum starfsmanni ofviða að ætla að sinna lyfjafræðilegri þjónustu eitthvað að marki.``
    Þetta tel ég vera mjög mikilvægt atriði, hæstv. forseti.
    ,,Lyfjafræðileg þjónusta (pharmaceutical care) hefur verið skilgreind þannig að lyfjafræðingurinn noti menntun sína, þekkingu og reynslu til að tryggja sem bestan hag sjúklingsins, þannig að sjúklingurinn fái rétta, örugga og hagkvæma lyfjameðferð. Að lyfjafræðingurinn fylgist með framvindu lyfjameðferðar og árangri. Það hefur mörgum sinnum verið sýnt fram á að innlagnir á sjúkrahús stafa oft af rangri lyfjanotkun, svo sem of- eða vanskömmtun lyfja, aukaverkana eða skorti á nauðsynlegri meðferð. Það ætti að vera liður í sparnaði í heilbrigðiskerfinu að reyna að bæta meðferðarfylgni og leiðbeina um rétta notkun lyfja.``
    Hér ætla ég að láta staðar numið en það er Þórdís Kristmundsdóttir prófessor, formaður stjórnarnefndar Lyfjafræði lyfsala við Háskóla Íslands, sem skrifar þessa umsögn.
    Virðulegi forseti. Það eru margar spurningar sem vakna við 2. umr. frv. og mig langar að spyrja hæstv. heilbrrh. nokkurra spurninga umfram það sem ég hef þegar gert.
    Finnst hæstv. heilbrrh. eðlilegt að lyfjaverð verði mismunandi eftir því hvar búið er á landinu?
    Hvernig telur hæstv. heilbrrh. að frv. bæti þjónustu við sjúklinga?
    Hvar í frv. er að finna einhvern vott um það sem getur vakið vonir til slíks?
    Er það ekki þannig yfirleitt að ef þjónustan verður miklu meiri þá hækkar lyfjaverðið og eftir því sem þjónustan verður verri þá lækkar lyfjaverðið? Ef lyfjaverslanir verða t.d. alfarið í stórverslunum, segjum í matvöruverslunum, þá tel ég yfirleitt að þjónustan í stórverslunum sé þannig að það sé erfitt að vera með mikla heilbrigðisþjónustu þar inni. Ég get ekki ímyndað mér í hraða nútímans að það sé auðvelt að hafa mikla fræðslu í hávaða t.d. í Bónus, þó ég ætli ekki alltaf að vera að auglýsa þá ágætu verslun.
    Mig langar að fá skýringar hjá hæstv. heilbrrh. um það enn og aftur hvernig hann telur að lyfjaverð muni lækka almennt, ef EES er ekki tekið inn í. Það kann að vera með samhliða innflutningi en ef EES er ekki tekið inn í hvernig mun lyfjaverð geta lækkað?
    Mig langar að spyrja aftur: Hvernig stendur á því að nágrannalöndin eru ekki að fara í þennan farveg sem hæstv. heilbrrh. er að boða núna?
    Mig langar líka að endurtaka þá spurningu hvort hæstv. heilbrrh. telur að ríkið muni þurfa að borga skaðabætur til þeirra lyfsala sem hafa keypt sér dýrar eignir úti um landið sem verða síðan verðlitlar með aukinni samkeppni.
    Mig langar líka að spyrja að því varðandi 21. gr. frv., sem mér finnst svolítið sérkennileg miðað við annað. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvert lyfsöluleyfi takmarkast við rekstur einnar lyfjabúðar og ber lyfsöluleyfishafi sjálfur faglega ábyrgð á rekstri lyfjabúðarinnar. Lyfsöluleyfishafa er heimilt að sækja um leyfi til að reka útibú frá lyfjabúð sinni í sveitarfélögum þar sem lyfjabúðir eru ekki reknar. Í fjarveru leyfishafa skal fela lyfjafræðingi daglega stjórn lyfjabúðarinnar í samráði við Lyfjaeftirlit ríkisins.
    Starfandi læknar, tannlæknar og dýralæknar mega ekki vera eigendur, hluthafar eða starfsmenn lyfjabúða.``
    Nú finnst mér ekkert óeðlilegt að þeir megi ekki vera eigendur eða hluthafar en mér finnst óeðlilegt að þeir geti ekki verið starfsmenn lyfjabúða, hæstv. heilbrrh. Hvernig stendur á því? Það er verið að auka vægi heilsugæslustöðvanna varðandi apótek og þar verða trúlega ekki lyfjafræðingar nema að litlum hluta til heldur læknar sem afgreiða lyfin en í 21. gr. er tekinn af allur vafi um að læknar mega ekki afgreiða í lyfjaverslun. Mig langar að fá skýringar á því.
    Virðulegi forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Þetta er orðið ágætt í bili. Það getur vel verið að í skjóli vissrar viðskiptaverndar hafi apótekarar á stærri stöðum orðið værukærir. Það kann vel að vera að þeir hafi e.t.v. ekki fylgst nægilega vel með kröfum tímans um aukna þjónustu. En ég tel að umræðan um lyfjamál, sem hefur staðið yfir í nokkur ár, hafi skilað verulegum árangri. Lyfsölum og ríkisvaldinu hefur tekist að ná verulega niður kostnaði vegna lyfjakaupa á sl. fjórum árum. Ég vil líka hrósa læknum þar með vegna þess að þessir þrír aðilar hafa tekið höndum saman og náð virkilegri lækkun á lyfjaverði og því ber að fagna og það ber að halda áfram á þeirri braut. En ég tel að í dag séu lyfjafræðingar almennt metnaðarfullir og ungir lyfjafræðingar sérstaklega metnaðarfullir og vilji gera vel. Ég tek eftir því að það er verið að bæta þjónustuna alls staðar, bæði á minni og stærri stöðum, við sjúklinga.
    Ég tel óvarlegt að kollvarpa því lyfsölukerfi á þennan hátt sem er ætlast til í þessu frv. Við erum, eins og ég sagði áðan, að ræða um viðkvæma vöru, við erum að tala um heilbrigðismál en ekki bara bein ,,bisnesssjónarmið``. Við erum að tala um heilbrigðismál og það er óvarlegt að slíta þetta alveg úr samhengi. Það er ekki hægt að bjóða Íslendingum upp á misdýra og misgóða þjónustu hvað varðar lyfjamál.

Því gerum við sem erum í minni hluta heilbr.- og trn. að tillögu okkar hluti frv. varðandi ákvæðin um EES-samninginn verði afgreiddur en öðrum þáttum frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar og menn skoði þessi mál betur og finni betri lausn á þeim en hér er boðað.