Lyfjalög

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 15:07:44 (6591)


[15:07]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum þeirra hv. þm. sem hér hafa talað hefur heilbr.- og trn. fjallað ítarlega um frv. til lyfjalaga.
    Við 1. umr. um málið bentum við fulltrúar stjórnarandstöðu á fjölmörg tæknileg atriði sem betur mættu fara í frv. fyrir nú utan það að við drógum stórlega í efa að samþykkt þessa frv. hefði í för með sér lækkandi lyfjaverð sem er þó yfirlýst eitt helsta markmið frv. Þessu markmiði á samkvæmt frv. að ná með auknu frelsi til þess að setja á stofn lyfjaverslun, aukinni samkeppni, frelsi til að verðleggja lausasölulyf og auglýsa. Þó á þetta frelsi að vera takmarkað því ríkið ætlar að fá heimild til að reka apótek á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum í samkeppni við einkaaðila.
    Við lýstum þeirri skoðun okkar að samþykkt þessa frv. gæti haft í för með sér einhverja lækkun á lyfjaverði í Reykjavík og öðrum þéttbýlustu svæðum landsins en í dreifbýlinu gæti lyfjaverð hins vegar hækkað og margt sem bendir til þess að svo verði.
    Við bentum einnig á að 20. gr. frv. feli í sér ákveðna hættu á hringamyndun þar sem stórmarkaðsfyrirtækin sjá sér hugsanlega hag í að reka samhliða matvöru- og lyfjaverslun sem auðvitað er fráleitt.
    Sú hugmynd að selja lyf í stórmörkuðum með matvöru hefur verið á kreiki. Það fyrirkomulag þekkist þó ekki í þeim löndum sem við viljum miða okkur við, nágrannalöndum okkar í Evrópu. En þótt við tökum flesta hluti upp eftir nágrannaþjóðunum þá gildir það ekki varðandi fyrirhugaða afgreiðslu á þessu frv. Möguleikinn til þess að selja lyf í stórmörkuðum er enn fyrir hendi.
    Athugasemdir okkar í minni hluta nefndarinnar voru miklu fleiri við 1. umr. um málið og ég mun fara betur yfir þær síðar í umræðunni. Í stórum dráttum má segja að nánast allir þeir sem komu á fund nefndarinnar staðfestu allar okkar athugasemdir og bættu reyndar nokkrum mjög veigamiklum athugasemdum við, t.d. hvað það varðar að ekki er gert ráð fyrir skráningu á samhliða innfluttum lyfjum.
    Mig minnir að fyrir utan fulltrúa ráðuneytis, sem auðvitað kom fyrir nefndina til að fylgja eftir sjónarmiðum hæstv. ráðherra, hafi aðeins einn aðili sem kom fyrir nefndina talið að samþykkt frv. hefði í för með sér lækkandi lyfjaverð fyrir landsmenn. Allir aðrir drógu það í efa að þetta markmið frumvarpsins næðist, svo ekki sé nú meira sagt. Þessi niðurstaða kemur einnig skýrt fram í þeim skriflegu umsögnum sem nefndinni bárust.
    Hér hefur verið dreift brtt. meiri hluta hv. heilbr.- og trn. Þar hefur vissulega verið tekið tillit til ýmissa ábendinga sem við í minni hluta nefndarinnar komum með og búið er að lagfæra ýmsar greinar frv. en ekki hefur verið tekið tillit til annarra veigamikilla breytinga sem við lögðum til. Því treystum við okkur ekki til að skrifa undir nál. hv. meiri hluta eða þær brtt. sem meiri hluti flytur. Þó eru þar, eins og ég sagði áðan, nokkrir ljósir punktar.
    Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 1. gr. frv. þar sem kveðið er á um markmið og yfirstjórn. Í frv. segir að markmið laga þessara sé meðal annars að draga úr óhóflegri notkun lyfja og minnka lyfjakostnað.
    Við 1. umr. var bent sérstaklega á þessa órökstuddu fullyrðingu um óhóflega notkun lyfja hér á landi. Meiri hlutinn tók tillit til þessarar ábendingar okkar og leggur til breytt orðalag jafnframt því að bæta inn ákvæði þess efnis að auka beri fræðslu um lyfjanotkun.
    Við í minni hluta nefndarinnar tökum undir þessa breytingu í nefndaráliti okkar og teljum að í þessu efni, þ.e. varðandi fræðsluþáttinn, hafi heilbrigðisyfirvöld og heilbrigðisstéttirnar ekki staðið sig nógu vel.
    Þá bentum við einnig á við umfjöllun um frumvarpið að óeðlilegt væri að í upptalningu á þeim sem áætlað er að verði hæstv. heilbrrh. til ráðuneytis og aðstoðar við framkvæmd laganna, ef svo ólíklega færi að frv. yrði að lögum, skuli lyfjamálastjóra og lyfjagreiðslunefnd vanta. Nú er lagt til að lyfjagreiðslunefnd heiti lyfjaverðsnefnd. Lyfjamálastjóra var ætlað það hlutverk að annast framkvæmd lyfjamála innan ráðuneytis fyrir hönd ráðherra. Þennan lyfjamálastjóra átti ekki að kalla til í samráðshópinn samkvæmt texta frumvarpsins eins og hann liggur fyrir.
    Í brtt. meiri hlutans er lyfjamálastjóra og lyfjaverðsnefnd bætt inn í samráðshóp hæstv. ráðherra. og er það vel.
    Þá eru einnig gerðar tillögur um breytingar á 2. gr. frv. þar sem kveðið er á um Lyfjaeftirlit ríkisins eða forstöðumann þess. Þar hafði gleymst að setja inn ákvæði þess efnis að sá lyfjafræðingur sem veitir Lyfjaeftirlitinu forstöðu megi ekki eiga neinna persónulegra hagsmuna að gæta í framleiðslu, innflutningi eða dreifingu lyfja. Á þetta bentum við strax við 1. umr. hér á hv. Alþingi.
    Þá leggur meiri hluti nefndarinnar einnig til breytingu á 3. mgr. 2. gr. frv., en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Leggja skal árlegt eftirlitsgjald á fyrirtæki þau og stofnanir sem Lyfjaeftirlit ríkisins hefur eftirlit með og skal gjaldið standa undir kostnaði við rekstur eftirlitsins.``
    Ekki kemur fram í frumvarpinu með hvaða hætti þetta gjald verður lagt á og engin takmörk eru á gjaldtökunni. Eðlilegt hefði verið að kveða á um gjaldstofn og hámark eftirlitsgjaldsins. Ég tel að sú brtt. sem hér liggur frammi bæti síður en svo texta frv. En meiri hlutinn leggur til að ákvæði greinarinnar orðist á þessa leið:
    ,,Setja skal í reglugerð nánari ákvæði um eftirlitsgjöld og innheimtu þeirra að fengnum tillögum Lyfjaeftirlits ríkisins.
    Verja skal tekjum þessum til greiðslu kostnaðar við eftirlitið og skal miðað við að gjaldið standi undir kostnaði við rekstur eftirlitsins.``
    Ég vek athygli á því að þessar tvær málsgreinar eiga að koma í stað 3. mgr. í frv. og ef 2. gr. frv. yrði samþykkt svo breytt hljómar hún svona, með leyfi forseta:
    Lyfjaeftirlit ríkisins er sjálfstæð stofnun undir yfirstjórn heilbr.- og trmrn. Lyfjafræðingur veitir því forstöðu og má hann ekki eiga persónulegra hagsmuna að gæta í framleiðslu, innflutningi eða dreifingu lyfja.
    Setja skal í reglugerð nánari ákvæði um eftirlitsgjöld og innheimtu þeirra að fengnum tillögum Lyfjaeftirlits ríkisins o.s.frv.
    Stingur þetta ekkert í eyru? Er ekki eðlilegra að fyrst komi ákvæði sem heimilar þessa gjaldtöku, síðan komi ákvæði þess efnis að setja skuli í reglugerð nánari ákvæði um eftirlitsgjaldið? Ef brtt. meiri hlutans fer í gegn óbreytt kemur þetta eins og skrattinn úr sauðaleggnum að setja skuli nánari ákvæði um eftirlitsgjöld og innheimtu þeirra án þess að gjaldtakan sé raunverulega heimiluð.
    En þótt þetta verði nú lagað þá breytir þessi tillaga nánast engu. frá því sem áður var. Ráðherra hafði í frv. heimild til nánari útfærslu á þessu eftirlitsgjaldi í reglugerð eins og öðrum atriðum sem þarfnast nánari útfærslu. Við vildum hins vegar að gjaldstofninn væri ákveðinn og einnig hámark þessa gjalds því hér er um skattlagningu að ræða.
    Það er raunar með ólíkindum hversu erfiðlega gengur að fá ráðuneytin til þess að setja í frumvarpstexta reglur um innheimtu skatta og gjalda af því tagi sem þetta eftirlitsgjald er. Slíkum ákvæðum er auðvitað sleppt til þess að hafa svigrúm til þess að breyta þessari gjaldtöku til hækkunar eða lækkunar án samþykkis Alþingis.
    Í þessu tilviki á gjaldið að standa undir kostnaði við eftirlit Lyfjaeftirlits ríkisins og skal upphæð gjaldsins og innheimta nánast ákveðin af Lyfjaeftirlitinu sjálfu, eða betur get ég ekki séð, því eftirlitið sjálft á að gera tillögur þessa efnis til ráðherra.
    Reyndar kemur það ekki heldur fram í þessum breytingartillögum hver á að taka við tillögum Lyfjaeftirlitsins og setja reglugerðina um eftirlitsgjöldin, aðeins að Lyfjaeftirlit ríkisins skuli gera tillögu um þau og innheimtu þeirra. Það vantar hins vegar alveg að þess sé getið hver á að taka við þessum tillögum og setja reglugerð. Við verðum þó að ætla að það sé hæstv. ráðherra heilbrigðismála sem sjái um það verk.
    Svona lagatexti er náttúrlega ótækur og hlýtur að þurfa að draga þessa tillögu til baka til 3. umr. Forseti virðulegur getur varla látið greiða atkvæði um tillöguna eins og hún er.
    Þá má nota tækifærið milli 2. og 3. umr. til að setja inn heimild fyrir gjaldtöku og kveða skýrar á um gjald og gjaldstofn. Það orkar einnig tvímælis að starfsfólk Lyfjaeftirlits ríkisins geri sjálft tillögu um upphæð gjaldsins og innheimtu. Það býður þeirri hættu heim að starfsemin þenjist út og að auknum kostnaði vegna þess verði velt yfir á þá sem eiga að greiða eftirlitsgjaldið því það eru engin ákvæði um það hágmark sem maður gæti ímyndað sér að þyrfti að vera þannig að hægt sé að fylgja eftir með hvaða hætti verður staðið að þessari gjaldtöku eða skattlagningu.
    Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um lyfjanefnd ríkisins, skipan hennar og hlutverk. Ráðherra fer þar alfarið með skipunarvald. Ekki er gert ráð fyrir tilnefningu samtaka, félaga eða þeirra sérfróðu aðila sem að lyfjamálum koma. Ekki náðist fram breyting á þessu í starfi nefndarinnar. Áfram er gert ráð fyrir að hæstv. ráðherra skipi fyrst sinn formann og þeir velji síðan saman aðra nefndarmenn.
    Í VI. kafla frumvarpsins er fjallað um auglýsingu og kynningu lyfja. Eins og fram hefur komið eru ákvæði sem heimila að auglýsa lyf, þá sérstaklega svokölluð lausasölulyf, lyf sem seld eru án lyfseðils, eitt af því sem við verðum að lögtaka vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Þetta ákvæði getur nú vart talist eftirsóknarvert ef horft er til heilbrigðissjónarmiða, og því full ástæða til þess að nota þær takmarkanir á auglýsingar, sem heimilar eru samkvæmt EES-samningnum.
    Eins og fram kemur í minni hluta áliti okkar hafa Danir valið þá leið að banna að auglýsa lyf í sjónvarpi og þeir hafa komist upp með það. Við hefðum viljað sjá einhverjar slíkar takmarkanir í þessu frumvarpi til lyfjalaga eða breytingartillögum meiri hlutans en svo er ekki. Þó er full ástæða til þess að hafa allan vara á varðandi heimildir til að auglýsa lyf því talið er að slíkar auglýsingar auki tvímælalaust lyfjaneyslu og það getur varla verið markmið þessa frv.
    Þetta ákvæði er því ekki í anda þeirrar markmiðslýsingar sem er í 1. grein frumvarpsins, að draga úr eða sporna gegn óhóflegri lyfjaneyslu. Þvert á móti er þetta ákvæði lyfjaneysluhvetjandi. Heilbrigðismarkmið þessa frumvarps, þau fáu sem eru til staðar, fara þarna fyrir lítið. Að auglýsa lyf, auka sölu lyfja, auka samkeppni milli lyfsala, færa aukið vald til ráðherra, auka gjaldtöku af þeim sem selja lyf og minnka

þátttöku ríkisins í lyfjakostnaði almennings eru hin raunverulegu meginmarkmið frumvarpsins.
    Eitt er það sem liggur ekki alveg ljóst fyrir og varðar auglýsingu og verðlagningu á lausasölulyfjum en það er hvernig þau lyf eru skilgreind, sem fást í smáum skömmtum í lausasölu en aðeins afgreidd gegn lyfseðli ef um stærri skammta er að ræða, svokölluð undanþágulausasölulyf. Sem dæmi get ég nefnt ofnæmislyfið teldanex sem fæst í lausasölu í 20 töflu sömmtum en ef skammturinn er stærri þarf lyfseðil. Þannig er þessu farið með margar aðrar tegundir lyfja. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Verður heimilt að auglýsa þessi undanþágulausasölulyf sem seld eru í smáskömmtum sem jafnframt gildir þá sem auglýsing fyrir sama lyf þegar það er selt sem lyfseðilsskylt lyf og þá ekki heimilt að auglýsa það? Það sama á í raun við um verðlagningu þessara lyfja. Séu þau seld í smáum skömmtum í lausasölu er verðlagningin frjáls. Ef þau hins vegar eru afgreidd í stærri skammti gegn lyfseðli þá gilda ákveðnar reglur varðandi verðlagningu. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra samræma verðlagningu slíkra lyfja?
    Eða verður það svo að þeir sem búa í nálægð við apótek og geta keypt sína litlu skammta af ofnæmislyfinu teldanex sem til dæmis er gefið börnum með ofnæmi fyrir gróðri fái í framtíðinni þetta lyf á mun lægra verði en þeir sem vegna fjarlægðar frá lyfjaverslun verða að kaupa stóra skammta gegn lyfseðli? Verður þetta jafnréttið sem landsmenn koma til með að búa við ef frumvarpið verður samþykkt?
    Sú grein sem valdið hefur hvað mestum ágreiningi er líklega 20. gr. frumvarpsins.
    Meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar leggur til breytingar á þessari grein sem vafalaust hafa átt að koma til móts við þær athugasemdir sem gerðar hafa verið. Ég leyfi mér þó að draga í efa að þessar tillögur séu til verulegra bóta. Ég sé til dæmis ekki hvort ætlunin er samkvæmt greininni að lyfsöluleyfi verði staðbundið leyfi. Það er að aðeins verði veitt leyfi til að reka lyfjabúð á tilteknu svæði og tilteknum stað, því þurfi nýja umsókn ef leyfishafinn ætlar að færa sig um set innan sama svæðis.
    Í brtt. meiri hlutans segir: Umsóknir um ný lyfsöluleyfi skal ráðherra senda viðkomandi sveitarstjórn til umsagnar. Við mat umsagnar skal meðal annars stuðst við íbúafjölda að baki lyfjabúðinni og fjarlægð frá næstu lyfjabúð.
    Setjum nú svo að lyfjafræðingur ákveði að setja upp lyfjabúð á Selfossi. Umsókn hans skal send viðkomandi sveitarstjórn sem í því tilviki er bæjarstjórn Selfoss. Þótt staðreyndin sé sú að lyfjabúð á Selfossi þjóni einnig nærliggjandi sveitarfélögum eins og til dæmis Sandvíkurhreppi þá segir ekkert um það að þær sveitarstjórnir skuli veita umsögn.
    Bæjarstjórn Selfoss mælir með umsókn lyfjafræðingsins og ráðherra veitir honum leyfið. Ef þessi lyfjafræðingur tæki síðan ákvörðun um að staðsetja lyfjabúðina í Sandvíkurheppi en ætlaði að þjóna Selfyssingum, sem vel er framkvæmanlegt fjarlægðarinnar vegna, þarf hann þá að sækja aftur um leyfi og þá fá umsögn þessa sveitarfélags sem hefur örfáa íbúa og teldust vera sá fjöldi sem stæði á bak við lyfjabúðina þó að hún þjónaði í reynd einnig öllum Selfyssingum?
    Það er erfitt að fá botn í það hver er raunveruleg hugsun á bak við þetta frumvarp. Frumvarpsgreinarnar eru þannig að hægt er að teygja þær og toga vegna þess hve óskýrar þær eru.
    Eins og 20. gr. er sett fram í tillögum nefndarinnar er eins og áður miðað við að umsækjandi þurfi að uppfylla þrjú skilyrði er varða umsækjandann sjálfan og ráðherra veiti lyfsöluleyfi þeim sem uppfyllir þessi skilyrði. Síðan er tekið fram að ráðherra skuli senda umsóknir um ný lyfsöluleyfi til viðkomandi sveitarstjórnar til umsagnar.
    Samkvæmt þessu virðist umsækjandi, eins og áður sagði, sækja um lyfsöluleyfi til þess að reka lyfjabúð í ákveðnu sveitarfélagi án tillits til þjónustusvæðis sem lyfjabúðin getur náð yfir og þar getur verið um fleiri en eitt sveitarfélag að ræða. Leyfið mun því eftir því sem ég best fæ séð væntanlega hljóða upp á heimild til að reka lyfjabúðina innan marka þessa ákveðna sveitarfélags og ekki annars staðar á þjónustusvæði lyfjabúðarinnar.
    Núgildandi lyfsöluleyfi kveða á um leyfi til að reka lyfjabúð á ákveðnum stað. Leyfishafar halda leyfum sínum ef þetta frumvarp verður að lögum. Því vaknar með sama hætti sú spurning hvort núverandi apótekarar geti tekið sig upp og flutt rekstur sinn um set án þess að þeir þurfi að sæta ákvæðum 20. gr. um nýtt leyfi frá ráðherra að undangenginni umsögn þess sveitarfélags sem leyfishafinn ætlar að hefja rekstur á nýju apóteki í.
    Af texta brtt. meiri hluta nefndarinnar verður ekki annað séð en að lyfsöluleyfi verði áfram staðbundin leyfi og núverandi leyfishafar verði að sækja um nýtt leyfi færi þeir rekstur sinn milli sveitarfélaga en verði þó áfram með sama þjónustusvæði.
    Ein undantekning er þó á þessum skilyrðum, það er sú lagfæring sem gerð var á 22. gr. frv. en þar segir að við starfslok sé leyfishafa eða dánarbúi heimilt að selja reksturinn lyfjafræðingi sem öðlast hefur lyfsöluleyfi samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Ekki er getið um að kaupandinn þurfi í þessu tilviki nýtt leyfi eða umsögn viðkomandi sveitarfélags. Enda verður það að teljast hæpið að sveitarstjórn geti lagst gegn veitingu lyfsöluleyfis til aðila sem ætlar að taka við apóteki sem er í rekstri og því síður að hæstv. ráðherra geti í slíku tilviki synjað um leyfi.
    20. greinin, eins og hún verður ef tillögur meiri hluta heilbr.- og trn. verða samþykktar, á að tryggja stöðu landsbyggðarinnar umfram það sem er í frv. sjálfu. Ég dreg í efa að svo sé og tel að framkvæmd verði erfið og hæpin. Ég nefni hér nokkur atriði sem vert er að hafa í huga varðandi þá brtt. við 20. gr. frv. sem nú liggur fyrir.

    Miðað við að leyfin verði staðbundin er um ákveðið sérleyfi að ræða sem stjórnvöld veita og telja verður að almennar reglur leiði til þess að við veitingu þess konar leyfa verði að auglýsa eftir umsóknum. Á því er ekki tekið í frv. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bregðast við, hvernig ætlar hann að standa að auglýsingum lyfsöluleyfa? Ætlar hann að hafa þann háttinn á að fyrst láti umsækjandi hæstv. ráðherra vita af áhuga sínum á ákveðnu svæði og á ákveðnum stað þar sem hann langar ósköp til að reisa apótek og síðan verði auglýst eftir umsóknum?
    Ef fleiri en einn sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru sækja um nýtt lyfsöluleyfi á sama stað, hvernig ætlar hæstv. ráðherra að velja á milli umsækjenda? Eftir hvaða reglum á að fara eða verður það eingöngu háð vilja ráðherra hver fær leyfið?
    Í brtt. meiri hlutans við 20. gr. er kveðið á um að við mat umsóknar um lyfsöluleyfi skuli meðal annars stuðst við íbúafjölda að baki væntanlegrar lyfjabúðar. Það segir hins vegar ekkert um það við hvaða íbúafjölda skuli miða. Þá segir að tekið skuli mið af fjarlægð frá næstu lyfjabúð. Það segir hins vegar ekkert um það hver fjarlægðin á að vera eða hver á að taka ákvarðanir um þessar viðmiðanir. Er það hæstv. ráðherra eða kannski sú sveitarstjórn sem á að veita umsögn hverju sinni. Getur farið svo að um þetta gildi mismunandi reglur, ein í Hafnarfirði, önnur á Akureyri, enn önnur á Akranesi og fjórða á Selfossi?
    Þessar viðmiðanir skipta afar miklu máli fyrir þann sem sækir um reksturinn en einnig fyrir þá sem nýta þjónustu lyfjabúðarinnar. Er ekki nauðsynlegt að setja í lögin heimild til ráðherra til þess að afmarka í reglugerð stærð eða íbúafjölda að baki hverri lyfjabúð? Fyrirvarinn um að hæstv. ráðherra sé heimilt að hafna umsókn ef umsagnaraðili leggst gegn veitingu ný leyfis leiðir til gagnályktunar. Ég hlýt að álykta sem svo að ráðherra geti þá ekki hafnað umsókn um leyfi ef umsagnaraðilinn leggst ekki gegn umsókninni að því gefnu að hann uppfylli 1. til og með 3. tölulið 2. mgr. 20. gr.
    Niðurstaðan gæti því orðið sú að ef ráðherra og sveitarstjórn greinir á hvort opna eigi lyfjabúð í sveitarfélagi eða fjölga þeim, þá verði hæstv. ráðherra að veita leyfið ef viðkomandi sveitarstjórn mælir með umsókn, þó svo að hæstv. ráðherra sjálfur sé því mótfallinn að veita lyfsöluleyfið. Þetta er vissulega jákvætt fyrir sveitarfélögin og ákveðinn örygisventill fyrir þau ef rétt reynist.
    Þá er ekki kveðið nægjanlega skýrt á um það með hvaða hætti skuli farið með heimildir heilsugæslustöðva til reksturs lyfjabúða þar sem enginn einkaaðili hefur sótt um leyfi til að reka apótek. Ef sú staða breytist og sótt er um lyfsöluleyfi í heilsugæsluumdæminu, eiga stjórnir heilsugæslustöðva þá umyrðalaust að láta af slíkum rekstri?
    Hvað gerist þá ef viðkomandi sveitarstjórn sem oftar en ekki á fulltrúa í stjórn heilsugæslustöðva leggst af hagsmunaástæðum eða öðrum ástæðum gegn veitingu leyfisins og telur betra að stjórn viðkomandi heilsugæslustöðvar sinni lyfsölunni áfram? Hvernig mun hæstv. ráðherra bregðast við því? Eða hefur hann á prjónunum að móta um þetta skýrar reglur sem taka af allan vafa og kveða á um með hvaða hætti verður farið með þá fjárfestingu sem lagt hefur verið í og fyrir hendi er hjá heilsugæslustöðvunum? En heilsugæslustöðvar eru nú ríkisreknar þó þær hugmyndir séu uppi að færa þær aftur yfir til sveitarfélaganna.
    Þetta yrði enn vandasamara ef sveitarfélagið ræki heilsugæslustöðina, hefði í raun lyfsöluleyfið en ætti jafnframt að vera umsagnaraðili um umsóknir annarra til þess að starfrækja lyfjabúðir á svæðinu. Hvernig sem á þetta er litið getur orðið um verulega hagsmunaárekstra að ræða hvort sem um er að ræða ríkisreknar heilsugæslustöðvar eða reknar af sveitarfélagi, ef af því verður.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, einnig minna á þær athugasemdir við 20. gr. sem fram komu við 1. umr. um frv. og varða þau skilyrði sem sett eru fyrir veitingu lyfsöluleyfa. Í fyrsta lagi þar sem segir í 2. tölul. brtt. meiri hluta heilbr.- og trn. að viðkomandi þurfi að hafa starfað sem lyfjafræðingur í þrjú ár. Þó má veita undanþágu frá þessu skilyrði ef sérstaklega stendur á.
    Þarna bentum við í minni hluta nefndarinnar á að e.t.v. væri eðlilegt að umsækjandi hefði starfað þessi þrjú ár í apótekinu eða a.m.k. hluta þess tíma.
    Þá segir í 3. tölul. að umsækjandi skuli hafa verslunarleyfi eða hafa gert samninga við aðila með verslunarleyfi. Lyfjafræðingurinn getur samkvæmt þessu gert samning við einhvern verslunareiganda í nágrenninu. Reyndar er það nú ekki svo að verslunareigandinn þurfi að vera í næsta nágrenni, það er ekkert skilyrði fyrir því. Geri lyfjafræðingur slíkan samning þýðir það að hann ber sjálfur einungis faglega ábyrgð á rekstrinum en ekki fjárhagslega. Þetta ákvæði opnar möguleika á hringamyndun í rekstri apóteka sem aftur stangast á við næstu grein, 21. gr., , þar sem kveðið er á um að koma skuli í veg fyrir einokun og hringamyndun. Þetta ákvæði 20. gr. opnar þó þann möguleika að fullu.
    Við 22. gr. frv. eru tillögur til breytinga. Þær eru í rétta átt nema þó þau óvissuatriði sem ég nefndi áðan og felast í brtt. meiri hlutans þar sem leyfishafa er við starfslok heimilt að selja reksturinn lyfjafræðingi sem öðlast hefur lyfsöluleyfi og sama gildir um dánarbú. Leyfi þessi eru þó staðbundin miðað við önnur ákvæði frv.
    Þá eru lagðar til breytingar við 24. gr. frv. Hér er að stærstum hluta um að ræða orðalagsbreytingar sem allar eru til bóta og málið á frv. hefur verið lagað verulega. Það er með ólíkindum hversu slæmt mál er oft á frumvörpum sem berast frá ráðuneytum. Ég hef oft velt því fyrir mér fyrir hverja sumir lagatextar hafa verið skrifaðir. Ég tek það fram að þetta á ekkert endilega bara við heilbr.- og trrn. heldur ráðuneytin yfirleitt. Eru þeir skrifaðir fyrir það fólk sem á að fara eftir þeim eða eingöngu fyrir lögfræðinga sem eiga að túlka textann? Það má vera að það sé atvinnuskapandi fyrir þá að hafa lagatextana óskýra og á slæmu máli en það er óskaplega algengt að við sjáum þannig frágang á frumvörpum sem berast hv. Alþingi.
    En víkjum aftur að 24. gr. Þar er ákvæði þess efnis að lyfsalar skuli tölvuskrá allar upplýsingar af lyfseðlum á formi sem samþykkt er af landlækni og tölvunefnd sbr. lög nr. 121 síðan 1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Landlæknir getur krafist þessara upplýsinga allt að einu ári aftur í tímann. Það má vera að slík upplýsingaskylda þurfi að vera fyrir hendi. Nokkrir þeirra sem mætt hafa á fund hv. heilbr.- og trn. hafa vissulega reynt að færa rök fyrir því en mér finnst þetta hins vegar allt of opin heimild til landlæknis. Samkvæmt ákvæðinu þarf landlæknir ekki að bera undir neinn þá ákvörðun að kalla inn upplýsingar heilt ár aftur í tímann. Tilefni til slíkra aðgerða geta verið mörg og misjöfn, t.d. grunur um óhóflega ávísun lækna eða læknis á eitthvert tiltekið lyf. Mér hefði fundist eðlilegt að taki landlæknir ákvörðun um að kalla eftir þessum upplýsingum þurfi embættið að bera þá ákvörðun undir annan aðila, t.d. lyfjamálastjóra eða Lyfjaeftirlitið. Ekkert slíkt ákvæði er í frv. og ekki heldur í þeim breytingartillögum sem hér eru til umfjöllunar.
    Þá hefði mér einnig fundist eðlilegt með tilliti til þess að landlækni er veittur réttur til að krefja um upplýsingarnar að láta tölvunefnd eina um að ákveða hvaða upplýsingar af lyfseðlum lyfsalar þurfi að skrá og í hvaða formi það skuli vera.
    Þá tekur tillögugreinin ekki á því hvað gerist ef landlækni og tölvunefnd greinir á. Hver sker úr ef slíkur ágreiningur kemur upp?
    Þá var það þannig í frv. og er í frumvarpstextanum að lyfjaheildsölum var ekki gert að skrá þessar upplýsingar á sama hátt og lyfsölum. Úr þessu hefur verið bætt í brtt. nefndarinnar við 30. gr.
    Í XIII. kafla frv. er fjallað um lyfjaþjónustu á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Þar er í 34. gr. veitt heimild til sjúkrahúsa að starfrækja sérstök sjúkrahússapótek. Í 36. gr. segir að sjúkrahússapóteki verði heimilt að afgreiða lyf til sjúklinga sem útskrifast af sjúkrahúsi og til göngudeildar sjúklinga. Sjúkrahússapóteki er þó aðeins heimilt að afgreiða lyfseðla sem merktir eru sjúkrahúsinu og gefnir út af læknum þess.
    Vissulega getur starfræksla sjúkrahússapóteka verið til að bæta þjónustu við sjúklinga, það er ekki nokkur vafi. Ég tel hins vegar að það vanti mikið á að þeir sem sömdu frv. hafi fastmótaðar hugmyndir um slíkan rekstur. Ég hygg að eðlilegra hefði verið að takmarka afgreiðslu lyfja frá sjúkrahússapóteki við útskrift sjúklinga. Orðið ,,göngudeildarsjúklingur`` er að mínu mati hægt að teygja út í það óendanlega. Hvað um sjúklinga sem koma til læknis sem starfa jöfnum höndum við sjúkrahús og heilsugæslu eins og oft er úti á landi, þar sem heilsugæsla og sjúkrahús eru oft í einni og sömu byggingunni? Hvað ef sjúklingur kemur í meðferð eftir legu á sjúkrahúsi á stofu sérfræðings úti í bæ? Er hann þá enn göngudeildarsjúklingur vegna þess að hann er í viðtali hjá sama lækni og stundaði hann inni á sjúkrahúsinu? Ekkert af þessu er alveg ljóst í texta frv. eða í greinargerð.
    Ég tel mig vita hvað þeir sem sömdu frv. hugsuðu en sú hugsun kemst bara alls ekki til skila í lagatextanum og ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að þarna fari nú fyrir lítið þetta dýrkaða frelsi. Ríkið ætlar þarna nefnilega í beina samkeppni við einkareksturinn. Markmið frv. eru sem sagt að falla eitt af öðru. Það er ekkert orðið eftir.
    Meiri hluti heilbr.- og trn. gerir nokkra breytingu á 40. gr. þar sem áður var fjallað um lyfjagreiðslunefnd og hlutverk hennar. Nú er lagt til að nefndin heiti lyfjaverðsnefnd sem er heldur skárra. Sú breyting er gerð á skipun nefndarinnar að nú er gert ráð fyrir að í nefndinni eigi sæti þrír menn, þar af einn tilnefndur af Hæstarétti Íslands. Ráðherra skipar hina tvo. Þetta er skárri niðurstaða en áður þar sem hæstv. ráðherra átti að skipa fimm menn til setu í nefndinni. Hann mátti velja þá alla sjálfur. Lyfjaverðsnefnd er ætlað að ákveða hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum í heildsölu og smásölu. Það má vissulega finna í 40. gr. nokkrar leiðbeiningar fyrir lyfjaverðsnefnd til að taka mið af við verðákvarðanir sínar en hvergi er þó að finna almennar reglur fyrir nefndina til að byggja ákvarðanir sínar um hámarksverð á. Ákvarðanir nefndarinnar eru mikilvægar fyrir kaupendur lyfja en þær eru einnig mikilvægar hvað varðar rekstrargrundvöll apótekanna. Það hlýtur að vera nauðsynlegt að hafa í lögum einhverjar viðmiðanir þannig að bæði kaupendur og seljendur lyfja geti lagt mat á hvort nefndin hafi farið að lögum og hvort um réttmæta ákvörðun sé að ræða. Með því að ákveða að skipunartími lyfjaverðsnefndar ráðist af kjörtímabili ráðherra er verið að gera því skóna að einhver önnur sjónarmið en þau að eðlileg og réttlát verðlagning lyfja eigi sér stað á hverjum tíma. Með þessu fyrirkomulagi finnst mér verið að ýja að því, bara ýja að því að ákvörðun nefndarinnar fylgi frekar pólitískum vilja hæstv. ráðherra hverju sinni en þeim sjónarmiðum sem nefndin á að hafa til hliðsjónar við ákvarðanir sínar. Þetta fyrirkomulag dregur úr faglegu trausti nefndarinnar og setur hana í pólitíska stöðu þó svo að einn fulltrúi tilnefndur af Hæstarétti eigi að vera frjáls og óháður pólitískum duttlungum hæstv. ráðherra.
    Meiri hluti nefndarinnar segir að sú tillaga að láta Hæstarétt tilnefna einn fulltrúa í nefndina sé vegna þess að nefndin fjalli um mikla hagsmuni og mikilvægt sé að ákvarðanir hennar verði hafnar yfir gagnrýni. En hver verður staða þessa eina fulltrúa sem tilnefndur er af Hæstarétti Íslands? Við verðákvarðanir verður hann einn af fjórum fulltrúum í nefndinni. Engin trygging er fyrir því að hann verði skipaður formaður nefndarinnar og það er meira að segja frekar ósennilegt miðað við það pólitíska vægi sem nefndinni er ætlað samkvæmt tillögum meiri hluta heilbr.- og trn. Setjum nú svo að samstaða verði milli fulltrúa Hæstaréttar og fulltrúa samtaka lyfjaheildsala eða lyfsala eða einhvers annars eins aðila í nefndinni og þeir telji að tillaga þeirra um verð sé faglega rétt og byggist á mati á eðlilegum tilkostnaði en tillaga hinna tveggja fulltrúa ráðherra í nefndinni taki ekki tillit til þessa. Sé formaður nefndarinnar annar tveggja fulltrúa ráðherra hafa þessir tveir menn meiri hluta í nefndinni í krafti atkvæðavægis meiri hluta formannsins. Þarna gæti fulltrúi Hæstaréttar því þurft að sitja undir því að ákvörðun nefndarinnar væri gagnrýnd þó svo hann sjálfur væri trúr því hlutverki sem honum er ætlað sem er að sjá til þess að ákvarðanir nefndarinnar verði hafnar yfir gagnrýni. Hér hefði í alla staði verið eðlilegra að sá fulltrúi sem Hæstiréttur tilnefndi væri formaður lyfjaverðsnefndar með tvöfalt atkvæðavægi.
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nefndaráliti okkar í minni hluta heilbr.- og trn. teljum við að ekki sé rétt að samþykkja hér aðrar breytingar en þær sem við neyðumst til vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Þar hljótum við náttúrlega að verða að haga okkur eins og allar aðrar strengjabrúður í Brussel að afgreiða og rétta upp höndina eða ýta á takkann. Þarna er um veigamiklar breytingar að ræða og nauðsynlegt að fylgjast með því hvaða áhrif þær hafa á lyfjaneyslu í landinu. Það verkefni er nægjanlegt hæstv. heilbrrh. það eina ár sem hann á eftir að sitja sem heilbrrh. ef viðvera hans verður svo löng sem ég leyfi mér að efast um. Við viljum að það verði skipuð sérstök nefnd sem fylgist með og gerir úttekt á þessum EES-breytingum og skili ráðherra og Alþingi síðan skýrslu. Það er lágmark að ætla þennan reynslu- og úttektartíma eitt og hálft ár. Þá og fyrst þá að fenginni þessari reynslu er hugsanlegt að huga að breytingum varðandi dreifingu og sölu lyfja.
    Annars búum við við nokkuð gott kerfi. Almenningur hefur ekkert verið að kvarta nema þá helst yfir síaukinni þátttöku í lyfjakostnaði og það er bara ákvörðun hæstv. ráðherra. En að sögn hæstv. ráðherra hefur tekist að lækka lyfjaverð töluvert á síðustu tveimur árum í góðri samvinnu við þá aðila sem að lyfsölumálum koma og þar eru apótekararnir meðtaldir. Það kemur ekkert fram í öllu þessu fjölmiðlafári undanfarna daga sem ráðuneytið hefur staðið fyrir, öllum þessum auglýsingum. En þetta hefur tekist og hæstv. ráðherra hefur flaggað því a.m.k. á hátíðisdögum. Og eins og fram kemur í þeim umsögnum sem hv. heilbr.- og trn. fékk frá fjölda aðila er ekkert, það er ekkert í þessu frv. til lyfjalaga sem tryggir lækkandi lyfjaverð. Þvert á móti getur það falið í sér hækkandi lyfjaverð á landsbyggðinni og jafnvel hér á höfuðborgarsvæðinu samfara aukinni fjárfestingu. Og það er dálítið einkennilegt ef rök heilbrrn. varðandi einmitt þetta, þessa auknu fjárfestingu í þessum geira hefði önnur áhrif en aukin fjárfesting annars staðar, ef við bara hugsum nú aftur í allar þær ræður sem hér hafa verið fluttar við afgreiðslu fjárlaga, það er einkennilegt ef það gilda önnur lögmál varðandi afleiðingar sem aukin fjárfesting eða offjárfesting í þessum geira hefur umfram aðra. Alla vega er það ljóst að landsmenn munu ekki sitja við sama borð hvað lyfjaverð snertir ef frv. verður samþykkt.
    Það eru enn fjölmörg atriði sem ég á eftir að fara hér yfir, virðulegi forseti, og við höfum enn tíma til að sýna hv. þingmönnum, stuðningsmönnum þessarar hæstv. ríkisstjórnar, hvílíkur flumbrugangur það er að samþykkja frv. þrátt fyrir að meiri hluti hv. heilbr.- og trn. hafi reynt að lappa upp á það. Og við munum að sjálfsögðu nýta þennan tíma vel til þess að koma þessum fjölmörgu athugasemdum á framfæri. Og hér á eftir munu koma aðrir nefndarmenn úr hv. heilbr.- og trn. með sín rök og fleiri hv. þm. sem ég veit að hafa brennandi áhuga á því að taka þátt í umræðu um þetta mikilvæga mál. En við erum tilbúin til og höfum verið tilbúin til þess eins og aðrar strengjabrúður að afgreiða EES-ákvæðin. En það er nokkuð sem hv. Alþingi hefur bara samþykkt, aðild okkar að EES og við komumst ekkert undan því. Við getum gert ákveðnar athugasemdir. En ég vil ljúka þessu með því að minna á það að Danir hafa nýtt sér það að banna, þeir geta bannað auglýsingar á lyfjum í sjónvarpi og ég held að við ættum að nýta okkur þessar smugur sem finnast hugsanlega enn þá í þessum EES-samningi og ákvæðum hans og öllum þeim tilskipunum sem EES-samningnum fylgja og koma til með að birtast hér á næstu árum.