Lyfjalög

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 15:45:45 (6592)


[15:45]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þeir hv. nefndarmenn í heilbr.- og trn. sem hér hafa talað og lýst því hvernig þetta frv. er komið til með að líta út hafa gert mjög góða grein fyrir því hver áhrifin af þessu frv. geta orðið ef það verður samþykkt á Alþingi. Þeir hafa jafnframt lýst því yfir að það séu ákveðin atriði í frv. sem tengjast samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og sem trúlega er ekki hægt að komast hjá að afgreiða.

Látum það nú vera ef sú afstaða hefði verið tekin að afgreiða þann hluta þessa frv. og láta á það reyna hvernig sú framkvæmd kæmi út, skoða síðan málið eftir einhvern tiltekinn reynslutíma og athuga þá með framhald á því máli hvort eitthvað af þessu frv. til lyfjalaga sem við erum að ræða væri nothæft til að vinna úr áfram. Það er alveg ljóst með öllum þeim breytingartillögum sem við höfum fyrir framan okkur að það hefur verið mjög illa staðið að vinnslu þessa frv. Það er búið að liggja fyrir á þremur þingum. Það var kynnt á fyrsta þingi þessa kjörtímabils, það var talað um það á 116. löggjafarþingi og síðan er það lagt fram núna á 117. löggjafarþingi og nú þykir hæstv. ríkisstjórn nóg komið og vill afgreiða frv. þó að bæði sé búið áður að taka inn í það ýmsar leiðréttingar og síðan koma núna brtt. í mörgum liðum. ( Heilbrrh.: Ertu á móti þeim?) Nei, ég er alls ekki á móti því að lagfæra slíkt en ég bara tel upp það sem komið er af brtt. og vinnslan sem hér er búin að fara fram sýnir að það sé jafnvel enn mjög margt eftir að leiðrétta í þessu frv. Ég held að betra væri að taka eins og ég sagði áðan þann pakka sem við verðum að taka á okkur sem er EES-hlutinn af þessu frv. og afgreiða hann, fresta síðan gildistöku þessa frv. og skoða málin eftir ákveðinn reynslutíma.
    Það er alveg greinilegt að það er ýmislegt sem ætlað er að ná fram með þessu frv. Í fyrsta lagi á að koma á frjálsri samkeppni í lyfjasölu og það á reyndar fyrst og fremst að vera í smásölunni. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að í þessu frv. sé verðlagning á lyfjum algerlega frjáls. Fyrst um sinn verður hún það eingöngu á lausasölulyfjum en síðan virðist jafnvel eiga að gera það á lyfseðlisskyldum lyfjum líka. ( Heilbrrh.: Hvar stendur það?) Í frv. er hins vegar komið fram að það sé hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum og þar með er aðeins reynt að stemma stigu við þessari frjálsu verðlagningu.
    Svo er í þriðja lagi auglýsingaheimildin. Það á að vera heimilt að auglýsa lausasölulyf rétt eins og hverja aðra markaðsvöru. Það er auðvitað alveg nýtt því að það hefur hingað til verið algerlega bannað að auglýsa lyf.
    Við vitum það öll að auglýsingar hafa ákveðið áróðursgildi og með því er verið að koma upplýsingum á framfæri við neytendur til þess að sömu neytendur kaupi þá vöru sem verið er að auglýsa. Markmiðið hlýtur að vera að auka neysluna á vörunni. Það liggur í hlutarins eðli. Í þessu tilviki er verið að heimila það að auglýsingar séu notaðar og auka þannig eftirspurn eftir lausasölulyfjum. Mér skilst að það séu um það bil 3.000 lyfjategundir á markaði hér og það er spurning hversu margar af þeim yrði farið að auglýsa. Ég vil vara eindregið við því að þetta ákvæði í lyfjalögunum verði samþykkt. Það nær ekki nokkurri átt að ætla sér að auglýsa lyf, sem tilheyra heilbrigðisþjónustunni og eiga ekki að auglýsast eins og hver önnur markaðsvara, með þessum hætti.
    Það er eitt af markmiðunum að verð á lyfjum eigi að lækka og sagt að lægra vöruverð leiði gjarnan af samkeppni en sú samkeppni byggir einmitt á meiri neyslu. Það er hægt að ná niður vöruverði með aukinni samkeppni einmitt vegna þess að neyslan eykst. Ég held að þetta muni gilda varðandi lyf sem eru afgreidd án lyfseðils, þ.e. lausasölulyf. Um það hafa allir umsagnaraðilar verið sammála. Um leið og komnir eru fleiri útsölustaðir og aukin samkeppni, auglýsingar og hugsanlega lægra verð á þéttbýlisstöðunum, mun neyslan aukast. Alla vega hefur það gerst í löndunum í kringum okkur.
    Maður skyldi halda að Félag ísl. stórkaupmanna væri mjög ánægt með það að fá svona frv. þar sem þeir sjá fram á það að geta þá bætt við sig fleiri vörum. Þeir sendu þó frá sér bréf núna í apríl sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Tilefni þessa bréfs er að vekja athygli á fáeinum, mikilvægum atriðum í tengslum við frv. til nýrra lyfjalaga sem ætlunin mun vera að leggja fyrir þingið á næstunni. Ítrekaðar óskir okkar til ríkisstjórnar, heilbrrh., heilbr.- og trn. þingsins og fleiri aðila, um að tekið sé tillit til okkar sjónarmiða í tengslum við þetta mál hafa ekki borið árangur og sýnist okkur nú eiga að koma í veg fyrir að við getum haft minnstu áhrif á starfsumhverfi fyrirtækja okkar.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um að innflutningur og dreifing lyfja er afar mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustunni. Hvergi í nágrannalöndum okkar er betri þjónusta á þessu sviði en hérlendis. Þá er ástæða til að minna á að lyfjameðferð er mjög ódýr í samanburði við skurðaðgerðir eða aðrar þær læknisaðgerðir sem krefjast innlagnar á sjúkrahús eins og sést glöggt af því að lyfjakostnaður ríkisins er aðeins um það bil 5% af útgjöldum til heilbrigðis- og tryggingamála. Við teljum að ný lög um þennan málaflokk séu óþörf. Þær breytingar og umbætur sem menn geta verið sammála um að gera þurfi rúmast vel innan núgildandi laga. Við óttumst að verði frv. gert að lögum muni skapast óvissuástand og ringulreið í lyfjamálum og þeim verði í auknum mæli stjórnað með tilskipunum. Við biðjum þig enn fremur að hafa í huga eftirfarandi atriði þegar kemur að afgreiðslu málsins:
    Við teljum umrætt frv. ekki boða það frelsi í lyfsölumálum sem gefið hefur verið í skyn. Við teljum að markmið um lægri lyfjakostnað náist ekki með þessu frv. Ekki eru í frv. skýr ákvæði um hvernig grundvöllur lyfjaverðs verður ákvarðaður. Helst er að sjá að það verði háð geðþótta ráðherra hverju sinni.
    Við teljum að EES-samningurinn skapi svo mikla óvissu að varhugavert sé að gera aðrar breytingar á lyfjalögum en þær sem EES-samningurinn krefst. Með tilkomu EES mun opnast fyrir samhliða innflutning lyfja. Í frv. er ekkert tekið á því hvernig að þeim innflutningi skuli staðið.
    Erlendis hafa menn vaxandi áhyggjur af fölsuðum lyfjum sem geta innihaldið virk efni í lakari gæðaflokki eða jafnvel röng efni. Samhliða innflutningur eykur líkurnar á að þannig ,,lyf`` komist á markað hérlendis.

    Með von um að þessar upplýsingar komi að gagni þegar málið kemur til afgreiðslu hins háa Alþingis.``
    Undir það skrifa formaður lyfjahóps FÍS, sem er Birgir Thorlacius, og framkvæmdastjóri Félags ísl. stórkaupmanna, Stefán Guðjónsson. Með þessu er reyndar líka umsögn lyfjahóps Félags ísl. stórkaupmanna um frv. til lyfjalaga eins og það leit út 28. apríl 1993. Síðan hafa komið inn nokkrar breytingar, en ég hygg þó að þessar umsagnir eigi enn þá við.
    Virðulegi forseti. Umsögn lyfjahópsins er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Öll umræða um lyfjadreifingu hér á landi hefur verið á frekar neikvæðum nótum og á lágu plani. Af hálfu stjórnvalda hefur borið mest á ásökunum í garð þeirra aðila sem að lyfjadreifingu standa. Lítið hefur verið rætt um gæði þeirrar þjónustu sem umræddir aðilar veita og þær skyldur sem á herðum þeirra hvílir. Lyfjakostnaðurinn hefur verið mjög áberandi í umræðunni og hann almennt talinn fram úr hófi hár. Til ýmissa aðgerða hefur verið gripið til að draga úr kostnaðinum en með mjög mismunandi og stundum neikvæðum árangri.
    Allir geta verið sammála um að lyfjakostnaði skuli haldið niðri innan skynsamlegra marka, en lyfjakostnaðurinn er ekki einangrað fyrirbrigði sem hægt er að hringla með án þess að áhrifa gæti annars staðar. Það er viðurkennd staðreynd að lyfjameðferð er mjög ódýr meðferð í samanburði við skurðaðgerðir eða aðrar aðgerðir sem krefjast innlagnar á sjúkrahús. Notkun sumra þessara lyfja hefur orðið nokkuð mikil og þar með hækkað lyfjakostnaðinn. Þó svo að sparnaður annars staðar í heilbrigðiskerfinu hafi orðið meiri en sem nemur hækkun lyfjakostnaðar af þeirra völdum hafa menn hlaupið upp til handa og fóta og býsnast yfir lyfjakostnaði.`` --- Þó hefur það einnig verið rannsakað að lyfjakostnaður á Íslandi er með því langlægsta sem gerist á Norðurlöndum. --- ,,Með öðrum orðum, lyfjakostnaðurinn hefur verið slitinn úr samhengi við aðra þætti innan heilbrigðiskerfisins. Það skortir alveg heildaryfirsýn sem taki tillit til samvirkandi þátta kerfisins. Það er ekki að sjá að hið nýja frv. til lyfjalaga breyti miklu hvað þetta varðar nema síður sé. Samkvæmt því verði lyfjamálum í auknum mæli nánast stjórnað með tilskipunum frá degi til dags. Lyfjagreiðslunefnd á að ákvarða greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjakostnaði sjúkratryggðra með hliðsjón af fjárlögum hverju sinni.
    Í frv. eru mjög mörg óskýr atriði og það væri ábyrgðarhluti af hálfu þingmanna að samþykkja frv. óbreytt án frekari útskýringa frá heilbrrh. Þrátt fyrir að frv. hafi verið samþykkt af þingflokkum beggja stjórnarflokkanna liggur ekki ljóst fyrir hvernig grundvöllur lyfjaverðs verður ákvarðaður. Talað er um að frjálsræði verði aukið í verðlagningu lyfja. Það kemur fram að lyfjaverðsnefnd skuli ákveða hámarksverð lyfja. Þar mun væntanlega vera átt við verð lyfsins út úr apóteki. Hvergi er minnst á það hvort framleiðslu- eða innkaupsverð lyfja verður áfram hluti af lyfjaskráningu og háð samþykki yfirvalda eða hvort álagning lyfseðilsskyldra lyfja í heildsölu verði frjáls.
    Þá eru öll atriði varðandi samhliða innflutning lyfja vægast sagt óljós. Enn hafa ekki sést nokkrar tillögur varðandi tilhögun eða eftirlit með samhliða innflutningi. Í dag eru gerðar strangar kröfur varðandi áletrun lyfjaumbúða. Verður dregið úr þessum kröfum gagnvart samhliða innflutningi? Í dag þurfa framleiðendur lyfja að fá einstaka framleiðslustaði samþykkta af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum og innflutningur lyfja, sem framleidd eru annars staðar, er ekki leyfilegur þó um sama lyf sé að ræða. Verður samhliða innflutningur heimilaður frá fleiri framleiðsluaðilum en samþykktir hafa verið af íslenskum yfirvöldum? Það er spurning.
    Í dag hvílir sú kvöð á umboðsaðilum erlendra fyrirtækja að eiga á lager öll þau lyf sem skráð eru hérlendis frá viðkomandi fyrirtæki. Þurfa þeir sem kunna að fá leyfi til samhliða innflutnings lyfja að uppfylla sömu skilyrði? Í dag eru greidd skráningargjöld og árgjöld af skráðum lyfjum og verða greidd slík gjöld af samhliða innfluttum lyfjum?
    Það eru margar spurningar sem vakna. Erlendis hafa menn vaxandi áhyggjur af fölsuðum lyfjum, þ.e. lyfjum sem framleidd eru af óprúttnum aðilum og komið á markað í nákvæmum eftirlíkingum af umbúðum löglegra lyfja. Þessi lyf geta innihaldið efni í lakari gæðaflokki og jafnvel röng efni. Það er ljóst að samhliða innflutningur eykur líkurnar á að þannig ,,lyf`` komist á íslenskan markað.
    Það er álit lyfjahóps Félags ísl. stórkaupmanna að í heildina sé umrætt frv. til lyfjalaga opið í alla enda. Það veitir heilbrrh. nánast ótakmörkuð völd með setningu reglugerða. Þá hefur hópurinn áhyggjur af því að með gildistöku þeirra laga sem frv. boðar þurfi ekki lengur að taka tillit til rekstrarumhverfis dreifingaraðila. Þá skal á það minnst að aðilar hópsins sinna mjög mikilvægum þætti í heilbrigðisþjónustu landsmanna, svo sem öruggu birgðahaldi og dreifingu á lyfjum og síðast en ekki síst faglegri upplýsingastarfsemi til heilbrigðisstétta.``
    Síðan er í lok bréfsins rakið að frv. hafi verið sent til nokkurra aðila og m.a. til Félags ísl. stórkaupmanna og þess vegna er það lyfjahópur þeirra samtaka sem sendir þetta frá sér. Það er alveg greinilegt eins og ég sagði áðan að stórkaupmönnum, þó að þeir sjái líklega fram á að þarna sé einhver aukin velta hjá þeim og þar af leiðandi meiri ábati, líst samt sem áður engan veginn á það frv. sem hér er verið að tala um og hafa mikið við það að athuga.
    Apótekarar hafa verið mjög duglegir að senda frá sér ýmsar athugasemdir við þetta frv. og hægt að nefna hér nokkur þeirra atriði sem þeir hafa sett fram þar sem þeir ræða markmið og framtíðarstefnu í lyfjadreifingu. Það er spurning hvort þetta frv. uppfyllir þau atriði. Það er markmið að lyfjadreifing á Íslandi sé þannig skipulögð að ávallt sé tryggt nægjanlegt framboð lyfja á sem hagstæðustu verði að uppfylltum ströngum kröfum um öryggi og þjónustu. Það væri e.t.v. rétt að hæstv. heilbrrh. svaraði því á eftir hvort það sé alveg örugglega tryggt með þessum lyfjalögum að þessu markmiði sé náð og það jafnframt að uppfylltum ströngum kröfum um öryggi.
    Í öðru lagi er stefna apótekara sú að lyfjadreifing sé hluti af heilbrigðiskerfinu og lyf séu ekki dagvara, hvorki matvara né nýlenduvara, og eiga þess vegna hvorki að flokkast né seljast með þeim. Til að koma í veg fyrir ónauðsynlega neysluaukningu og til að tryggja öryggi neytenda í hvívetna er nauðsynlegt að fagmenn sjái um og ábyrgist alla dreifingu lyfja. Lyfjadreifingarkerfið á að tryggja að fólk um land allt eigi greiðan og öruggan aðgang að lyfjum. Einnig er nauðsynlegt að halda þeirri reglu að allir landsmenn fái sín lyf á sama verði. Það er ekki gert ráð fyrir því að svo verði í frv. Það er hvergi tekið fram að landsmenn eigi að fá lyfin sín á sama verði.
    Í núverandi lyfjadreifingarkerfi eru margir kostir. Helstu kostir þess eru m.a. að þetta kerfi er ekki neysluhvetjandi. Það er mikið öryggi í afgreiðslu lyfja til sjúklings. Gæði lyfja eru tryggð og hætta á því að sjúklingar fái fölsuð lyf er engin. Það er vaktþjónusta til skiptis hjá apótekum. Eftirlit hins opinbera er mjög auðvelt. Greiðsluskipting á milli sjúklings og hins opinbera er einföld. Sama verð er alls staðar og það legg ég ríka áherslu á. Sama verð er alls staðar og apóteksþjónusta er um allt land. Hætta á slysum vegna lyfja er í algeru lágmarki. Hvers kyns ríkisafskipti eru möguleg innan núverandi lyfjalaga. Bestu samvinnumöguleikar eru við aðra hluta mennta- og heilbrigðiskerfisins um t.d. kennslu lyfjafræðinga og lyfjatækna og ekki síst ráðgjöf, upplýsingar og þjónusta við neytendur.
    Það sem gæti hugsanlega í fáum orðum leitt af frelsi í lyfjadreifingunni, sem hér er aðalmarkmiðið, er hækkun á lyfjaverði, aukin lyfjaneysla, eins og ég gat um áðan með auglýsingum og auknu framboði, óæskileg fjölgun lyfja á markaði, óæskileg fjölgun útsölustaða í þéttbýli, sem hlýtur að kalla á meiri fjárfestingu eins og kom fram hjá hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur þegar hún gerði grein fyrir nál. minni hluta heilbr.- og trn., óæskileg fækkun útsölustaða í dreifbýli, sem minnkar þjónustuna við dreifbýlið, ófullnægjandi lyfjabirgðir í apótekum og mismunandi lyfjaverð eftir landsvæðum.
    Það er mjög hætt við því að það frelsi sem er stefnt að muni leiða til þessa og jafnframt í framhaldi af þessu öllu saman stóraukins kostnaðar við eftirlit, m.a. vegna aukinnar hættu á því að fölsuð lyf komist á markaðinn. Ég tel að þau atriði sem hafa verið nefnd séu ekki sérlega eftirsóknarverð fyrir neina þjóð.
    Það er mikið gert úr því að það þurfi að leggja fram nýtt frv. til lyfjalaga vegna þess að lyfjakostnaður sé svo mikill hér á landi. Þó hefur lyfjakostnaður farið lækkandi frá árinu 1985 og í tíð fyrrv. heilbrrh. náðist talsverður árangur við það að lækka lyfjaverð innan þeirra marka sem núverandi lög leyfa. Hæstv. heilbrigðisráðherrar á þessu kjörtímabili hafa einnig reynt að ná niður lyfjakostnaði og tekist það að því leyti að ríkissjóður þarf að greiða minna af kostnaðinum en honum er velt yfir á neytendur. Kostnaður ríkisins af lyfjum hefur því lækkað en ekki er hægt að segja að heildarkostnaður lyfjanna hafi lækkað sem því nemi því að sjúklingar greiða í dag stærri hluta en áður. Samt verður því ekki neitað að það hefur náðst nokkur árangur í lækkun lyfjaverðs og ég tel alveg hægt að ná fram þeim markmiðum að lyfjaverð lækki innan núgildandi laga.
    Þegar verið er að ræða um núverandi lyfjadreifingarkerfi hefur því verið haldið fram að kerfið sé gamalt, það hljóti að vera úrelt og hugmyndafræðin að baki þess taki ekki mið af markaðslögmálum nútímans. Aldur kerfisins einn og sér segir ekkert til um virkni þess og aðlögunarhæfni. Það hefur margoft verið lagað að breyttum aðstæðum í tímans rás. Núverandi lyfjalög eru frá árinu 1984 þannig að þau eru ekki nema 10 ára gömul. Hagur sjúklings hefur þar alltaf verið hafður í fyrirrúmi og þeir sem finna kerfinu allt til foráttu ættu að hugsa um það hvort þeir eru að óska eftir breytingum vegna breytinga eða hvort það er vegna hagsmuna sjúklinga. Hér hefur ekki ríkt lögmál hins frjálsa markaðar lyfjadreifingar og það tel ég eðlilegt. Ég tel óeðlilegt að slíkt ríki hvað varðar lyf. Apótekarar starfa fremur sem þjónustuaðilar en sem kaupmenn. Sjúklingarnir hafa ekki nauðsynlegar forsendur til að geta metið lyfseðilsskyld lyf sem þeir fá í apótekinu. Það er raunar furðulegt að hugsa til þeirra auglýsinga sem hafa gengið frá hæstv. heilbrrh. eða ráðuneytinu um það að sjúklingarnir eigi að gæta þess að þeir fái ódýrustu lyf sem mögulegt er á markaðnum. Ég tel að það sé ekki hægt um vik hjá sjúklingnum að segja til um það heldur ætti því frekar að vera beint til læknanna. Það eru læknarnir sem ráða því hvað skrifað er upp á á lyfseðlum og hvaða verð er á lyfjum sem þeir velja. Ég geri ráð fyrir að þeir séu að velja fyrst og fremst þau lyf sem hæfa þeim sjúkdómi sem þeir ætla sér að lækna, en séu ekki fyrst og fremst að hugsa um verðið þó að að sjálfsögðu sé hægt að taka tillit til þess. Það verður alltaf læknirinn eða sérfræðingurinn sem ávísar sjúkling lyfjum og sjúklingurinn hefur ekki nema takmarkaðan möguleika til að hafa áhrif þar á.
    Eins og ég sagði áðan hefur verið hægt að ná fram nokkrum sparnaði í lyfjakostnaði hins opinbera með breytingum á reglugerðum og það er alveg hægt innan marka núverandi lyfjalaga.
    Virðulegi forseti. Það er vissulega mjög margt sem hægt er að segja um þetta frv. Það hefur stundum verið vitnað til þess að í öðrum löndum væri mikið frelsi í lyfjadreifingu. Það er oft og tíðum vitnað til Þýskalands sem mikillar fyrirmyndar um markaðskerfi. Vissulega er mest frelsi í lyfjadreifingu í Þýskalandi en þar er líka hæsta verðið. Það segir því ekki allt um það að þótt verið sé að auka frelsi leiði það til lægra verðs.

    Það er nánast furðulegt til þess að vita að það skuli eiga að auglýsa lyf rétt eins og hverja aðra markaðsvöru. Mér finnst að hér sé um svolítið einkennilega frjálshyggju að ræða, sem ég veit að hægt er að kenna þetta frv. við. Það liggur við að maður geti ályktað sem svo að hér sé um eins konar gervifrjálshyggju að ræða því að ég get ekki séð að þetta geti leitt til þess sem stefnt er að.
    Virðulegi forseti. Ég hef senn lokið máli mínu við 2. umr. um þetta mál. Ég hef rétt til að taka til máls aftur ef mér sýnist svo. Ég tel að þetta frv. sé stórgallað. Eitt væri hægt að skoða ef hæstv. ríkisstjórn er til viðtals um það að ljúka einhverjum málum fyrir þinglok og það væri að gera nokkrar fleiri breytingar á frv. eða, eins og ég sagði áðan, að taka út EES-kaflann og fresta gildistöku þessara laga. Það væri a.m.k. strax til bóta.
    Það er rétt að leggja áherslu á það í lokin, virðulegi forseti, að allir umsagnaraðilar hafa haft efasemdir um og jafnvel verið andvígir þessu frv. Það er merkilegt til þess að vita að ráðherra Alþfl. er orðinn svo blindaður af frjálshyggjuboðskapnum að hann neitar að viðurkenna staðreyndir. Þetta frv. er, eins og ég hef verið að rekja, til engra bóta í lyfjadreifingarmálum. Það er hægt að ná fram hagræðingu innan núverandi kerfis án þess að rústa því skipulagi sem fyrir er og hefur gefið góða raun.