Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 16:51:30 (6596)


[16:51]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er ágæt ábending og má segja að það komi í sama stað niður því að stjórnin verður ekki stjórn öðruvísi en að meiri hlutinn ákveði það. En ég held að það sé engu að síður mjög mikilvægt að sú skoðun okkar allra liggi fyrir að við viljum að stjórn bókasafnsins telji viðkomandi hæfan til að gegna embættinu. Það er mikil framför frá því sem var í frv. upphaflega. Ég viðurkenni að það er vandasamt að setja svona formúlur inn. Þegar lögin um Landsbókasafnið voru í upphafi undirbúin voru menn með hugmyndir um að orða þetta einhvern veginn þannig að það væri greindur og samviskusamur maður sem gegndi þessu starfi og það yrði sett í lögin. Það var ákveðið að gera það ekki vegna þess að menn höfðu ekki mælikvarða á það hvað væri greind og samviskusemi en þó er þetta út af fyrir sig umhugsunarverð ábending frá því fyrir tæpum 100 árum þegar menn voru að undirbúa þessi mál á sinni tíð.