Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 17:05:16 (6599)


[17:05]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að hafa hér mörg orð því að hv. formaður nefndarinnar hefur flutt ræðu fyrir hönd allrar nefndarinnar þar sem alger samstaða var um þetta mál. Ég tel þó rétt að það komi fram að það var mjög ánægjulegt að vinna að þessu máli í hv. menntmn. sem kemur kannski fyrst og fremst til af því að nefndarmenn voru sammála um það að gera eins gott úr málinu og mögulegt væri.
    Þær brtt. sem komnar eru fram af hálfu nefndarinnar eru svo til allar til bóta. Það var smávegis ágreiningur eins og oft vill verða á hv. Alþingi um nafnið og sú sem hér stendur var hlynnt því að safnið héti Þjóðbókasafn Íslands Háskólabókasafn sem undirtitill en gerir það í sjálfu sér ekki að neinu aðalatriði í þessum efnum, en einhvern veginn segir nafnið þjóðbókasafn svolítið meira í minni málvitund en Landsbókasafn þó að maður sé í sjálfu sér ánægður og hafi verið það gegnum árin með það nafn og þyki vænt um það nafn. En ekki meira um það.
    Mér fannst mjög mikilvægt að það kom fram hjá hæstv. menntmrh., sem er í sjálfu sér það sama og kom fram fyrr í vetur þegar hann svaraði fyrirspurn þeirrar sem hér stendur varðandi framtíðarnýtingu á Safnahúsinu, að hann teldi að það ætti áfram fyrst og fremst að vera safnahús og fyrir bækur. Það finnst mér vera góð yfirlýsing og ég efast ekki um að hæstv. ráðherra mun vinna áfram á þeim grundvelli. En vegna þess að hér hefur komið fram hjá hæstv. menntmrh., bæði þá og eins í dag, hugmyndir um það að e.t.v. væri ástæða til þess að stofnun Árna Magnússonar flytti inn í Safnahúsið, þá vil ég nota þetta tækifæri til þess að koma fram með efasemdir um að það sé rétt þó að ég hafi ekki kynnt mér það mál algerlega til hlítar. Þegar Árnastofnun var sett á laggirnar voru það rök að stofnunin skyldi vera í háskólaumhverfinu og eins voru það rök þegar ákveðið var að byggja þjóðarbókhlöðu á Melunum að hún væri í nágrenni háskólans og Árnastofnunar. Á því svæði tengdust Árnastofnun og Handritastofnun sem er hýst í Landsbókasafni Íslands.
    Svo eru það líka rök í málinu að mínu mati að Árnastofnun er frekar lokuð stofnun. Mér finnst að Safnahúsið eigi fyrst og fremst að vera opið fyrir þjóðina með sýningum, hugsanlega sýningum líka frá Árnastofnun, ég er ekki að segja það, en sýningum og menningaruppákomum. Auk þess vitum við það að handritin þurfa sérstakt hitastig og rakastig og það getur líka orðið mál sem væri erfitt að leysa í þessu húsi þar sem það er friðað.
    Þessar vangaveltur mínar vildi ég láta koma fram við þessa umræðu, hæstv. forseti, en erindi mitt hingað upp var þó fyrst og fremst að koma fram þeirri skoðun minni að hér séum við að afgreiða mjög merkilegt mál sem þjóðin hefur lengi beðið eftir.