Rannsóknarráð Íslands

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 17:31:53 (6604)


[17:31]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa ánægju minni með það að hv. menntmn. tókst á skömmum tíma að afgreiða þetta mál. Ég kynnti mér það nokkuð þegar það var fram lagt við 1. umr. og tók þátt í henni þar sem ég lýsti því sem minni skoðun að það væri mikils vert að Alþingi tækist að afgreiða ný lög um það sem ég taldi þá að ætti að heita Rannsóknarráð Íslands, sem og varð niðurstaða nefndarinnar, á þessu vorþingi þannig að það yrði samfella í þeirri vinnu sem hefur verið að undirbúningi þess frv. sem er verið að fjalla um.
    Ég nefndi í ræðu minni við 1. umr. að mér fyndist eðlilegt að láta reyna á þessa skipan sem var lögð til á ráðinu. Mér fannst þetta á margan hátt skemmtileg hugmynd sem þar var sett fram og full ástæða til að láta reyna á hana.
    Ég vil að lokum segja að þó svo það sé vissulega rétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að þessi breyting tryggi ekkert nýtt fjármagn til rannsóknarstarfa, og það hlýtur að vera hlutverk Alþingis og ríkisstjórna á næstu árum að gera það, þá er það mín skoðun að þessi breytta skipan eigi að tryggja betri nýtingu þeirra takmörkuðu fjármuna til rannsóknar- og þróunarstarfs, þó að þá þurfi að auka, sem við verðum sjálfsagt að sætta okkur við hér eftir sem hingað til. Þeir fjármunir verða sannarlega alltaf takmarkaðir ef við setjum þá í samhengi við það sem aðrar og miklu stærri þjóðir hafa ráð á að verja til þessara þátta. Ég geri mér einnig von um að þessi breyting verði til þess að vísinda- og rannsóknarstarf verði markvissara og beinist inn á brautir þar sem við höfum vegna okkar náttúrufars og atvinnuhátta möguleika á að hasla okkur völl í þeirri auknu samkeppni sem er í allri menntun og vísindastörfum í dag.