Lyfjalög

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 22:15:40 (6608)


[22:15]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Það frv. til lyfjalaga sem hér er til umræðu á þskj. 300 er umfjöllun um afar mikilvægan málaflokk, hluta af heilbrigðisþjónustunni í landinu. Svo er um hlutina búið í frv. að ástæða hefur verið til að taka um það ítarlega umfjöllun, ítarlega umræðu og mér sýnist sem e.t.v. sumum hv. nefndarmönnum úr heilbr.- og trn. þyki svo um það sem hér er verið að leggja til, það sem þeir eru að boða að þeir séu heldur óværir undir umræðunni. Ég hefði talið nauðsynlegt, virðulegur forseti, að hæstv. heilbrrh. væri hér og hlýddi á þessa umræðu þó honum kunni að þykja erfitt að hlýða á gagnrýni þá sem hér er sett fram á því sem hann boðar og fer eindregið fram á það að hann eyði tíma sínum að þessu sinni í það að hlusta á þessa umræðu. Það er nauðsynlegt að krefjast þess af hæstv. ráðherrum að þeir fylgist

með sínum málaflokkum og fylgi því eftir sem þeir eru að leggja til. Ég segi það aftur að ég sakna þess að langtímum saman í þessari umræðu og líklega lengst af frá því að hún hófst í upphafi þingfundar í dag hafa varla sést í þingsal utan hæstv. forsetar, sem hafa gegnt skyldu sinni, hv. þm. Sjálfstfl. og fulltrúar þess flokks í hv. heilbr.- og trn. sem eru þó að leggja til ýmsar breytingar við þetta lyfjalagafrv. Það finnst mér óeðlilegt og mig undrar það að þeir skuli ekki sjá ástæðu til þess að hlýða á umræðuna og hugsanlega að leggja eitthvað orð í belg eða hafa einhverjar skoðanir á því sem hér fer fram.
    Hv. formaður nefndarinnar hefur setið stíft undir þessum umræðum og ber að virða það að hann hefur hlýtt á þær. Mér þykir ekki ólíklegt að hann eigi eftir að taka til máls síðar og e.t.v. svara einhverju af því sem hér hefur komið fram í umræðunum eða segja álit sitt á þeim skoðunum sem hér hafa verið settar fram af hv. ræðumönnum. Og ég sakna þess reyndar einnig að hæstv. ráðherra skuli ekki nú þegar hafa komið aðeins inn í umræðuna til þess að gefa svör við fjölmörgum spurningum sem hafa nú þegar komið fram. Það hefði hugsanlega stytt umfjöllun um málið. Það hefði a.m.k. leitt til þess að þeir sem tala á eftir þyrftu ekki að ítreka spurningar vegna þess að þeir álíta að hæstv. ráðherra sé kannski að koma sér undan því að svara þeim spurningum eða honum sé eitthvað illa við að láta álit sitt í ljósi. Ég vænti að svo sé ekki en ég tel að það hefði verið skynsamlegra að hann hefði komið aðeins inn í umræðuna og svarað ýmsum spurningum og reynt að stytta þar með þær umræður sem annars fara óhjákvæmilega fram. Við hljótum að halda áfram að velta vöngum yfir ýmsu því sem hér er um að ræða og ýmsu af því sem við viljum fá svör við á meðan við ekki fáum þau svör skýlaust og afstöðu ráðherra hæstv. til ýmissa þeirra spurninga og álitamála.
    Ég sagði í upphafi að lyfjamál væru óhjákvæmilegur og mikilvægur hluti af heilbrigðisþjónustunni í landinu og umfjöllun um lyfjamálin er því líka viðkvæm, hliðstæð því sem er um ýmsa aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar. Það höfum við hv. alþm. margoft orðið vör við þegar heilbrigðisþjónustan og einstakir þættir hennar hafa verið til umfjöllunar í hv. Alþingi að það eru oft og tíðum skiptar skoðanir, þó kannski fyrst og fremst um áherslur og hvernig með mál skuli fara. Almennt held ég að það sé vilji allra hv. þm. og hæstv. ráðherra að búa svo að heilbrigðisþjónustunni í landinu að hún geti starfað af miklum krafti og veitt þeim sem á henni þurfa að halda þá þjónustu sem henni ber og við ætlumst til eða krefjumst af henni, að við höfum góða heilbrigðisþjónstu og hún sé veigamikill hluti af okkar velferðarkerfi.
    Mér dettur ekki í hug að halda að hæstv. núv. heilbrrh. hafi aðrar skoðanir eða annan vilja ef litið er til málsins í heild en ég verð þó að segja það sem mína skoðun og láta það koma hér fram að mér finnst ýmislegt sem hæstv. núv. ríkisstjórn hefur verið að gera á sviði þessara mála, á sviði velferðarmála og ekki síst í heilbrigðismálunum, hafa verið með þeim hætti að stundum undrar mann að það geti verið að hlut að máli eigi þeir aðilar sem vilja kenna sig við jafnaðarmennsku og hafa a.m.k. á hátíðarstundum það að leiðarljósi að þeir skipi flokk jafnaðarmanna. Svo er oft og tíðum vegið að þessum málaflokki og þá auðvitað líka á þann hátt að byrðum er velt af þeim sem betur mega sín og betur standa í þjóðfélaginu á þá sem verr eru settir og þurfa á þessari mikilvægu þjónustu að halda. Því miður eru það oftar og oftast nær þeir sem af einhverjum ástæðum, veikindum, sjúkleika margs konar, hafa orðið undir og eiga þá auðvitað líka erfiðara með að standa undir kostnaði. Þess vegna höfum við reynt að byggja upp velferðarþjóðfélag sem hefur það að leiðarljósi að samhjálp þegnanna standi undir þeim kostnaði og það bitni ekki á þeim sem minnst mega sín og eiga um sárt að binda, samhjálpin komi á móti og aðstoði þá við að bera byrðarnar.
    Þetta frv. sem hér er til umræðu er lagt fram undir þeim formerkjum að það eigi að auka frelsi í málaflokki lyfja, það eigi að ná niður kostnaði, það eigi að lækka útgjöld hins opinbera og það eigi að auðvelda einstaklingum að opna lyfjaverslanir í þeim tilgangi að gera þetta kerfi, þetta lyfjasölu- og lyfjadreifikerfi okkar skilvirkara og ódýrara.
    Auðvitað hafa hér verið flutt margvísleg rök fyrir því að þetta sé ekki á rökum reist og flestar þær umsagnir sem hér hefur verið vitnað til og hér hafa verið lagðar fram með þingskjölum bera það með sér að svo er hreint alls ekki. Þær bera flestar með sér það álit að við það að frv. þetta fái lagagildi og þær breytingar sem hér eru lagðar til verði gerðar á lyfjadreifingu og lyfsölu þá muni öll umsvif og umsetning lyfjadreifingarinnar verða dýrari, verða kostnaðarsamari fyrir þjóðfélagið og auðvitað að lyfjaverð muni hækka.
    Ávísun, meðferð, notkun, dreifing og sala lyfja, þetta er allt saman hluti af heilbrigðisþjónustunni. Og þó að frelsið og markaðshyggjan virðist eiga mjög upp á pallborðið hjá þessari hæstv. ríkisstjórn sem nú situr þá er það ljóst að það getur ekki átt við í svo viðkvæmum málaflokki eins og þessi hluti heilbrigðisþjónustunnar í raun er. Við megum ekki draga úr samhjálpinni á þennan hátt og velta byrðunum á herðar þeirra sem þurfa að nota þessa þjónustu en það er því miður það sem einkennt hefur fyrst og fremst störf núv. hæstv. ríkisstjórnar þegar hún hefur verið að leita að sparnaði í þessum mikilvæga málaflokki.
    Það er afar hæpið að markaðstengja á þennan hátt einn þáttinn, eins og hér er lagt til, einn þátt heilbrigðisþjónustunnar. Mig langar til þess að grípa hér t.d. niður í umsögn Alþýðusambandsins um frumvarpið þar sem einmitt er dregin fram sú staðreynd að lyf sé ekki hægt að meðhöndla eins og hverja aðra neysluvöru sem neytendur ákveða alfarið sjálfir hvort þeir kaupa eða láti vera að kaupa. Þetta er kannski undirstöðuatriðið, það getur ekki verið að mönnum detti það í hug að um lyf gildi sömu lögmál og um aðra neysluvöru. Það er í fæstum tilfellum sjúklingurinn sem hefur einhver áhrif á ákvörðunina um það hvort

hann þurfi á lyfjum að halda, hvort hann eigi að kaupa lyf eða hvaða lyfja hann eigi að neyta. Það er auðvitað heilbrigðisstarfsfólkið sem hefur þar mest um að segja og þá kannski fyrst og fremst læknirinn sem ávísar lyfjunum sem hlýtur að ráða mestu um það hvort sjúklingarnir nota lyf. Þetta held ég að þurfi að liggja alveg ljóst fyrir og menn þurfi að gera sér ljósa grein fyrir að hér getur markaðshyggjan ekki ráðið ferðinni eins og þó virðist vera boðað og þó undarlegt megi virðast að þá skuli hæstv. núv. heilbrrh. hafa ánetjast þeirri skoðun eða þeirri hugsun.
    Í þessari umsögn frá Alþýðusambandi Íslands um málið er sett fram sú skoðun að það sé hægt að nota núverandi kerfi í grundvallaratriðum en gera á því þær breytingar sem lúta að ákvörðunum um heildsölu- og smásöluálagningu ef fyrst og fremst sé verið að leita að leiðum til þess að spara í málaflokkinum.
    Þá er einnig bent á það sjónarmið að tekið sé tillit til félagslegra og byggðapólitískra þátta þá geti þeir þættir sem hér eru lagðir til grundvallar ekki náð fram þeim markmiðum sem við leggjum þó ríka áherslu á því það bendir allt til þess að lyfjakostnaður á landsbyggðinni, úti í dreifbýlinu, verði hærri en hann kann að verða hér á höfuðborgarsvæðinu, nái hugmyndir frv. fram að ganga eins og þær eru hugsaðar.
    Það hefur töluverðri athygli verið beint að spurningum sem Vigfús Guðmundsson, lyfsali á Húsavík, hefur sent hv. nefnd og vissulega er full ástæða til því þar er velt upp nokkrum grundvallarspurningum sem alþingismenn verða að svara og reyna eftir megni að átta sig á hvort þeir geta sætt sig við að greiða því frv. sem hér liggur fyrir atkvæði eins og það lítur út.
    Þessi ágæti lyfsali spyr þeirrar grundvallarspurningar hvort lyfjadreifingin eigi að vera hluti af heilbrigðiskerfinu eða hvort hún eigi að vera háð markaðslögmálum almennrar verslunar eins og ég hef hér verið að nefna og draga fram og kemur fram einnig í öðrum álitum sem hv. nefnd hafa verið send. ( GunnS: Bréfið hefur verið lesið fjórum sinnum.) Og það virðist því miður, hv. formaður nefndar, ekki hafa dugað til að lesa það fjórum sinnum. Ég get vel ímyndað mér að það þurfi að lesa það æðimikið oftar ef það á að fá hv. þm. og hans stuðningsmenn í hv. heilbr.- og trn. til þess að taka eitthvert tillit til þess sem hér er verið að segja og hér er verið að vara við. Þetta minnir mann eiginlega á þá umræðu sem nú er í hv. sjútvn. og í þjóðfélaginu þegar forsvarsmenn fiskvinnslunnar í landinu ganga fyrir sjútvn. til þess að reyna að gera henni grein fyrir því hvað er á ferðinni og hvaða hætta er þar fyrir hendi ef brtt. sem nú liggja fyrir í hv. sjútvn. um fiskveiðilagafrumvarpið verða gerðar að lögum. Og það er alveg sama hvernig þeir ágætu aðilar reyna að koma skoðunum sínum á framfæri við hv. alþm. sem þar sitja, a.m.k. suma þeirra, það er eins og þeir vilji ekki taka rökum og það er einmitt það sama sem virðist vera um að ræða í þessu frv. og þeim athugasemdum sem gerðar eru við það af hálfu þeirra sem hafa komið til fundar við nefndina og lagt fram ýmsar álitsgerðir, það er eins og það sé alveg sama hversu oft það er tuggið inn í höfuðið á þessum ágætu stuðningsmönnum frumvarpsins, það er eins og þeim sé fyrirmunað að taka rökum og átta sig á því hvað þeir eru hér að leggja út í. ( JVK: Formaður heilbrigðisnefndar er líka í sjútvn.) Já, það er gott að minna á það og þá fer maður kannski að skilja samhengi hlutanna, maður fer kannski að skilja samhengið í því að það virðist þurfa að lesa erindin og tyggja þau, ekki bara fjórum sinnum, kannski fjörutíu sinnum, eða ég veit ekki hvað oft, í þeirri von að hv. þm. taki eitthvert tillit til þeirra athugasemda sem settar eru fram. ( GunnS: Og stundum í fjárln. líka.) Já, meinar hv. þm. að hann eigi sæti í fjárln. líka og það þurfi einnig þar að tyggja hlutina aftur og aftur inn í höfuðið á honum í þeirri von að fá hann til þess að skilja einföldustu staðreyndir? Eins og t.d. þetta að það gengur ekki að gera lyfjadreifinguna háða markaðslögum almennrar verslunar einu sinni enn, hv. þm.
    Þetta finnst mér vera eitt af grundvallaratriðunum sem sett eru fram í athugasemdum Vigfúsar sem oft er búið að vitna til.
    Mig langar líka að minna á það að heildarvelta lyfja í landinu er áætluð vera um 5 milljarðar kr. Auðvitað er það há upphæð, vissulega er það há upphæð og það ber að leita leiða til þess að ná niður kostnaði á öllum sviðum og reyna að gæta aðhalds í opinberum rekstri. Ekki ætla ég að gera lítið úr því. En það má líka nefna hér eða minna á aðra athugasemd sem fram kemur í þessum minnispunktum Vigfúsar. Þar er bent á það og minnt á það að Íslendingar nota nú minnst lyf allra Norðurlandabúa að Færeyingum einum undanskildum. Það er í þessari lyfjaumræðu stundum látið að því liggja að það sé engu líkt í hvaða óhófi við Íslendingar neytum lyfja. Staðreyndin er bara sú að það er ekki þannig, hv. þm. og hæstv. ráðherra. Við höfum með aðferðum sem við höfum tiltækar innan ramma núverandi löggjafar getað dregið fram og leitt fram verulegan sparnað í lyfjakostnaði í útgjöldum hins opinbera og útgjöldum einstaklinga og það var gerð rækileg grein fyrir því áðan af hv. síðasta ræðumanni og ástæðulaust að rekja það allt saman aftur. En mig langar þó að nefna tvö atriði sem fyrrv. hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir og voru innan þess lagaramma sem við störfum nú eftir og varðaði álagningarhlutfall. Álagning í heildsölu var lækkuð úr 17% í 13,5% og álagning í smásölu var lækkuð úr rúmlega 70% niður fyrir 60%. Þetta voru umtalsverðar breytingar í lyfjaverðlagningunni.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson sem hér talaði næstur á undan sagði að síðan hefði ekkert gerst í þessum álagningarmálum. Mig minnir þó reyndar að ég hafi heyrt það í umræðum nýlega í fjölmiðlum, og vænti þess að hæstv. ráðherra eða hv. formaður nefndarinnar leiðréttir mig þá ef það er rangt, að álagning hafi lækkað um 0,5% eða svo. Og mig minnir líka að ég hafi séð það eða heyrt að sú lækkun ætti að

leiða til 50 millj. kr. sparnaðar á ársgrundvelli. Ég verð þá líka leiðréttur ef þetta er rangminni hjá mér, þessar tölur. Þá bið ég hæstv. ráðherra og hv. þm. að reikna út fyrir mig ef 0,5% spara 50 millj. hver sparnaðurinn er af því að lækka álagningu í heildsölu úr 17% í 13,5% og álagningu í smásölu úr 70% í 60% sem gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það náðist nefnilega fram allnokkur sparnaður í tíð fyrrv. ríkisstjórnar þó það hafi verið reynt að gera lítið úr því í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar og allt það brambolt sem síðan hefur verið gert hefur auðvitað fyrst og fremst einkennst af því, eins og margsinnis hefur verið bent á, að hækka greiðsluhlutfall eða greiðsluþátttöku sjúklingsins eða lyfjaneytandans í lyfjakostnaðinum úr 18% í yfir 30%. Ég hef beðið um það í fjárln. sem við eigum báðir sæti í, ég og hv. formaður heilbr. og trn., að fá þar úttekt á því hver sé hinn raunverulegi sparnaður í lyfjaútgjöldum, reyndar í heilbrigðisútgjöldunum í heild, heilbrigðisþjónustunni sem hæstv. núv. ríkisstjórn státar mjög af að hafa náð fram, hver hinn raunverulegi sparnaður af þessum aðgerðum sé og hver sé tilfærslan á sköttum úr samneyslunni í álögur á neytandann. Breytingin er frá því að við greiðum til heilbrigðisþjónustunnar, þar með talið lyfjakostnaðinn, greiðum það í gegnum okkar tekjuskatt og okkar neysluskatta og önnur sameiginleg útgjöld í það að láta þann sem þarf á þessari þjónustu borga fyrir það sem hann þarf á lyfjum eða heilbrigðisþjónustu að halda. Ég vil að þing og þjóð fái alveg afdráttarlaust þær upplýsingar þannig að menn geti séð það svart á hvítu hver er skattatilfærslan og hver er hinn raunverulegi sparnaður sem hæstv. núv. ríkisstjórn er alltaf að hæla sér af.
    Þetta hef ég því miður ekki fengið enn þá, ég hef ekki fengið svör við þessu, ég hef ekki fengið þessa vinnu unna þrátt fyrir ítrekaðar óskir mínar í fjárln. um að fá þetta gert og hlýtur að líða að því að það verður að taka það upp með formlegum hætti í hv. Alþingi að krefjast þessarar úttektar þannig að okkur sé ljóst hvað hér er á ferðinni. Ég hef leyft mér að halda því fram að meginhluti af viðbótarsparnaði í lyfjaútgjöldum sé þannig fenginn að einstaklingarnir hafi greitt þann mismun. Ef hægt er að tala um sparnað, það er auðvitað sparnaður fyrir ríkiskassann, það er sparnaður í ríkisútgjöldum en það er enginn sparnaður í lyfjaneyslunni í heild. Hvað hafa 5 milljarðarnir ef það eru 5 milljarða sem við veltum, hvað mikið hafa þeir lækkað eða vorum við kannski að eyða meira en 5 milljörðum í lyf áður en til þessara aðgerða er gripið?
    Það fylgir lögmálum markaðarins, framboðsins og eftirspurnarinnar sem hæstv. jafnaðarmaðurinn sem nú skipar stól heilbr.- og trmrh. er að tileinka sér, að eftir því sem varan verður dýrari, eftir því sem þarf að greiða meira fyrir hana þá er auðvitað reynt að spara að neyta þeirrar vöru. Ég get vel ímyndað mér að þessi aukna kostnaðarþátttaka einstaklinganna hafi leitt til þess í einhverjum mæli að lyfjamagnið hafi dregist saman. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. En ég tel að það væri mjög gagnlegt og nauðsynlegt að reyna að ná því saman, fá um það upplýsingar eins nákvæmar og mögulegt er hversu mikill þessi sparnaður hefur verið og hvernig hann skiptist í raun.
    Í nál. minni hluta heilbr.- og trn. við frv. þetta sem hér er til umræðu er rætt ofurlítið um svokallaðan samhliða innflutning lyfja sem tengist m.a. aðild okkar að EES. Vissulega ber að fagna því ef með því móti næst niður kostnaður við lyfin, ef við náum og getum keypt lyf ódýrar eða á lægra verði inn til landsins en við verðum þá líka að gæta okkar mjög á því að við fáum ekki yfir okkur verri lyf, kannski fölsuð lyf eða hættuleg lyf. Ég leyfi mér að minna á það, ég hygg að það hafi verið á síðasta ári að það varð alvarlegt slys af þessum ástæðum í Portúgal. Þangað tókst að koma inn á markað lyfjum sem ekki stóðust þær gæðakröfur sem til var ætlast og af því hlutust alvarlegar afleiðingar. Þetta er eitt af því sem við þurfum að hafa í huga þegar við gerum breytingar á okkar innflutningi og þó að við sækjumst eftir því að draga úr kostnaði og fá ódýrari lyf þá getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef ekki er gætt ýtrustu varkárni. Við verðum að gæta þess að eftirlit allt sem okkur ber að hafa og nauðsynlegt er að hafa á lyfjainnflutningi og lyfsölu sé eins fullkomið og gott og mögulegt er. Þetta vil ég undirstrika og bið hæstv. heilbr.- og trmrh. að hafa í huga eftir því sem þetta framboð verður meira og eftir því sem við kaupum lyf frá fleiri aðilum og eftir því sem leitað er víðar að hinum ódýrustu lyfjum.
    Í greinargerð frv. sjálfs er tekinn kafli upp úr nál. nefndar sem hæstv. þáv. heilbr.- og trmrh., Sighvatur Björgvinsson, skipaði þann 18. ágúst 1991 og skilaði áliti til ráðherra í byrjun apríl 1992. Það er fróðlegt að velta nokkuð fyrir sér þeim athugasemdum og þeim ábendingum sem koma fram í þessu nál. Með leyfi hæstv. forseta langar mig að lesa hér eina eða tvær málsgreinar úr þessu áliti sem sett er hér inn í athugasemdir við lagafrv. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þá er vert að vekja athygli á að af og til koma mjög dýr lyf á markað. Framleiðendur þeirra hafa að jafnaði einkaleyfi til framleiðslu á þeim til nokkurra ára. Þessi lyf geta verið svo dýr að útgjöld sjúkratrygginga vegna eins slíks lyfs geta hæglega numið tugum og jafnvel hundruðum millj. kr. Mikilvægt er að gerðar séu ráðstafanir til þess að þessi dýru lyf séu ekki notuð í stað ódýrari lyfja ef hjá því verður komist út frá læknisfræðilegu sjónarmiði.``
    Hér langar mig að gera hlé á lestrinum eða tilvitnunum í þessa skýrslu og vekja aðeins athygli á því sem hér er verið að segja. Við erum stöðugt að taka inn í notkun ný lyf, lyf við nýjum sjúkdómum, lyf sem koma í veg fyrir ýmiss konar annan kostnað í heilbrigðisþjónustunni og það er eins og menn vilji fyrst og fremst alltaf horfa á það að lyfjakostnaðurinn hækkar, þessi nýju lyf eru svo dýr og það er jafnvel eins og hér er ýjað að ástæða til að gera ráðstafanir til að þessi lyf séu ekki notuð. Það er að vísu sagt: Ef hægt er að nota ódýrari lyf. Gott og vel en það er afar ólíklegt að slíkt sé hægt þegar um er að ræða

ný lyf sem eru að leysa önnur eldri af hólmi. Við getum nefnt það að t.d. magasárslyf sem oft eru til umræðu og sagt er að Íslendingar noti í miklum mæli. Þau hafa hins vegar komið í veg fyrir og leyst af hólmi skurðaðgerðir í stórum stíl við magasári og þá auðvitað dregið úr öðrum kostnaðarþáttum í heilbrigðisþjónustunni. Það er eins og það sé aldrei hægt að horfa á málið í slíku samhengi að þó við þurfum að hækka lyfjakostnaðinn þá hefur það þó því betur oftar en ekki það í för með sér að hægt er að draga úr öðrum kostnaði við heilbrigðisþjónustuna. Þetta finnst mér vera ástæða til að undirstrika vegna þess að hér er eins og það sé ýjað að því að þetta sé óásættanlegt og það verði að leita allra leiða til að komast hjá því að taka í notkun ný lyf sem eru að koma á markaðinn. Lyf sem betur fer oft og tíðum leysa aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar af hólmi.
    Síðan segir í þessari sömu skýrslu, með leyfi forseta:
    ,,Þegar óvænt útgjöld koma til, eins og vegna nýrra dýrra lyfja, þarf að vera hægt að beita sveigjanleika annaðhvort með auknum fjárveitingum eða að nefnd skipuð fulltrúum Tryggingastofnunar ríkisins, lyfjanefndar, landlæknis og ráðuneytisins gæti ákveðið aðra tilhögun á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga en almennar reglur leyfa.``
    Hér langar mig aftur til að staldra aðeins við og reyndar að spyrja hæstv. ráðherra, hvort hann geti gefið mér og öðrum hv. þm. nánari skýringu á því að hverju er hér verið að ýja, hvaða hugmyndum er hér verið að koma á framfæri. Er það hugmynd þeirra nefndarmanna sem settu þetta á blað og hæstv. heilbrrh. hefur vafalaust rætt við er þeir skiluðu skýrslu sinni að ef það komi ný og dýr lyf á markaðinn þá verði þau ekki heimiluð, það verði ekki heimiluð notkun þeirra, nema sjúklingurinn sem þarf á þeim að halda, greiði þau annaðhvort í meira mæli eða að fullu. Mér finnst að þetta sé ábending eða athugasemd sem ekki sé hægt að taka við öðruvísi en að fá nánari útskýringar á því hvað er átt við.
    Nú kann að vera að á þessu máli sé ekki tekið í því frv. til lyfjalaga sem hér liggur fyrir, að það sé ekki opnað fyrir heimild af þessu tagi. En ef svo er þá hefði ég viljað að hæstv. ráðherra upplýsti okkur um það ef það er hugsunin eða meiningin annaðhvort að stöðva það að við getum tekið þessi nýju lyf í notkun hér á landi eða að reyna með einhverjum hætti að koma í veg fyrir það ellegar ef það er ekki hægt að láta þá einstaklingana sem á þeim þurfa að halda greiða sérstaklega fyrir þau lyf hærra gjald en fyrir önnur.
    Síðan að lokum tilvitnun í þessa skýrslu, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo:
    ,,Vilji stjórnvöld koma á frelsi í lyfjadreifingunni telur nefndin ráðlegast að fyrst verði komið á hlutfallsgreiðslum fyrir lyf. Fyrst þegar breyttu endurgreiðslukerfi hefur verið komið á er tímabært að rýmka reglur um lyfsöluleyfi þannig að frelsi til að stofna apótek aukist.``
    Hvað segir hæstv. heilbrrh. um þessa ábendingu sem hér er sett fram að það sé alls ekki tímabært enn þá að taka upp eða rýmka reglur um lyfsöluleyfi þannig að frelsi til að stofna apótek aukist? Hér er beinlínis lagt til að gripið verði til annarra aðgerða fyrst og látið á það reyna, það er lagt til að hér verði komið á hlutfallsgreiðslum fyrir lyf og látið verði á slíkt reyna um tíma. Sjá hvaða áhrif það hefur á lyfjamarkaðinn og neyslumunstrið sennilega og þá kostnað við lyfjanotkunina áður en gripið sé til róttækari aðgerða eins og verið er að leggja til í þessu frv.
    Virðulegur forseti. Ég sagði það í upphafi að það væri auðvitað fjölmargt sem hægt væri að ræða um og þyrfti að ræða um þegar fjallað er um svo mikilvægan og viðkvæman málaflokk eins og lyfjamálin eru, þann hluta heilbrigðisþjónustunnar sem hér er til umfjöllunar og ég vil aftur, eins og ég gerði í upphafi, vara við því að markaðshyggjan sé höfð að leiðarljósi. En það er auðvitað líka ástæðulaust að eyða í þessa umræðu lengir tíma en nauðsynlegt er. Ég hygg að ef hæstv. ráðherra leyfði sér eða gæfi sér tíma til þess að taka þátt í umræðunni og svara nokkrum af þeim spurningum sem hér hafa verið settar fram þá mundi hann hugsanlega getað auðveldað umræðuna og stytt hana. En ég vil aðeins undirstrika það álit mitt að ég tel að með ýmiss konar öðrum aðferðum heldur en byltingu á þessu kerfi og með öðrum aðferðum sem hægt er að grípa til en þeim að láta sjúklinginn greiða þá sé hægt að ná fram ýmiss konar og reyndar margvíslegum sparnaði í þessum málaflokki. Og það á auðvitað að beita sér að þeirri leið.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson rakti hér hugmyndir sem hann hefur sett fram í frv. á undanförnum þingum og byggjast að verulegu leyti á nefndarstarfi og frumvarpsvinnu sem unnin var í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstjórnar og er því ástæðulaust að fara mörgum fleiri orðum um það. Ég leyfi mér aðeins að vitna til þess sem þar kom fram og hv. þm. fór rækilega yfir. En ýmsar spurningar hafa komið fram og það var það sem ég var að beina til hæstv. ráðherra að hann svaraði okkur einhverju af því. Hann má gjarnan fara fyrir okkur yfir þann lista sem lyfsalinn á Húsavík hefur sett fram og svara þeim spurningum þannig að við vitum hvert álit hans er og hvort hann ætlar þrátt fyrir þær ábendingar og þær athugasemdir sem þar eru gerðar, hvort hann ætlar þrátt fyrir allt að knýja á um það að frv. eins og það lítur nú út með þeim breytingum sem tillögur eru gerðar um af hálfu meiri hluta nefndarinnar verði lögfest.
    Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir beindi til ráðherrans sex spurningum sem við hefðum gjarnan viljað heyra álit hæstv. ráðherra á. Eins og hvort hann getur sætt sig við og ætlar að sætta sig við mismunandi lyfjaverð í landinu. Hvort hann telur að þetta frv., eins og það liggur nú fyrir, muni bæta þjónustu við almenning. Og hvernig hann getur reiknað út eða sannfært okkur um að frv. muni leiða til verðlækkunar á lyfjum og minni kostnaðar umfram það sem beinlínis tengist EES-samningnum og ég nefndi hér áðan en tel að þurfi að hafa verulega vara á svoleiðis að með svokölluðum samhliða innflutningi lyfja hljótist ekki

slys af.
    Hún spurði líka hvort hæstv. ráðherra gæti sannfært okkur um að þetta kerfi sem hér er verið að leggja til muni reynast betur hjá okkur en í nágrannalöndunum þar sem menn hafa ekki treyst sér til að taka upp það form sem hér er lagt til og jafnvel í sumum tilfellum horfið frá því þar sem það hefur þó verið reynt. Hv. þm. spurði einnig um hvort það kæmi til álita og hvort það hefði verið skoðað í ráðuneytinu að greiða þyrfti núverandi apótekurum bætur, skaðabætur fyrir þær breytingar sem nú er verið að leggja til. Ekki ætla ég að leggja neinn dóm á það en það væri fróðlegt að heyra álit hæstv. ráðherra á þeim tillögum eða hugmyndum sem hér eru settar fram. Svo var einnig spurt um leyfi lækna til að afhenda lyf t.d. í lyfsölum á vegum heilsugæslustöva ef frv. nær fram að ganga eina og það lýtur út nú.
    Ég vildi aðeins, af því að hæstv. ráðherra hafði ekki svarað þessum spurningum, árétta þær. Vonandi er það ástæðulaust, hæstv. ráðherra muni koma hér og veita okkur svör við þessum spurningum til að greiða fyrir umræðunni og gefa okkur upplýsingar um það hver er í raun hans vilji. Ég vil einnig segja það, hæstv. forseti, að það er í sjálfu sér ekkert í mínum huga sem segir að núverandi lyfjadreifingar- og lyfjasölukerfi sé svo heilagt að það megi ekki breyta því, lagfæra það og finna nýjar og ódýrari leiðir. Vissulega hafa menn í umræðunni á hverju ári við skulum segja hverju sumri þegar skattálagning kemur fram þá hafa menn auðvitað spurt: Er eðlilegt að afkoma apóteka og lyfsala sé með þeim hætti að þeir séu mjög víða með hæstu skattgreiðendum? Það hlýtur að vera mál sem má og á og verður að skoða og taka á sérstaklega án þess að setja í hættu þá þætti lyfsölu og lyfjadreifingarmála sem við þurfum að gæta verulega að, að fyllsta öryggis sé gætt, að allir sitji við sama borð, að allir eigi greiðan aðgang að þessum þætti heilbrigðisþjónustunnar og allir greiði sama verð fyrir lyfin. Þetta eru undirstöðuatriði sem ég tel að við megum ekki fórna og megum ekki setja í uppnám þó svo að við breytum eitthvað þeirri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu sem sumum finnst stinga og gerir vissulega í augun þegar við sjáum skattskrárnar. Auðvitað þarf að skoða þau mál sérstaklega. Í því frv. sem unnið var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar um breytingar á þessum lögum og hv. þm. Finnur Ingólfsson gerði hér grein fyrir áðan þá nefndi hann auðvitað þær leiðir sem við höfum bent á í því sambandi. Hann benti á ýmsa þætti um það hvernig haga mætti lyfsölunni og lyfjadreifingunni án þess að fórna þessum markmiðum öryggis og jafnræðis og réttlætis og án þess að fórna því eða breyta því meginhugtaki að lyfjadreifingin og lyfsalan sé hluti af heilbrigðisþjónustunni í landinu en ekki hluti af þeirri óheftu markaðshyggju sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur haft að leiðarljósi og virðist þá ekki skipta máli hver málaflokkurinn er.
    Ég vil svo taka undir að lokum, hæstv. forseti, það sem lagt er til hér í nál. minni hluta heilbr.- og trn. að sá hluti þessa frv. sem lýtur að ákvæðum EES-samningsins verði afgreiddur. E.t.v. kann það meira að segja að vera svo að með því móti einu náum við fram þeim meginmarkmiðum sem hæstv. ráðherra er þó að leggja til grundvallar í þessari frumvarpsgerð og þessari lagabreytingu, þ.e. að ná fram lækkun á lyfjaverði og draga úr heildarlyfjakostnaði. Það hafa að minnsta kosti ýmsar ábendingar komið um að það sé e.t.v. það eina í þessu frv. sem getur náð fram þeim markmiðum, þ.e. sá þátturinn er lýtur að ákvæðum EES-samningsins og því sjálfsagt að afgreiða þann þátt nú á þessu þingi. En öðrum ákvæðum frv. verði vísað til hæstv. ríkisstjórnarinnar á ný og þau tekin til nánari og ítarlegri umfjöllunar.