Lyfjalög

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 22:58:39 (6609)

[22:58]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa nú farið fram mjög ítarlegar umræður um lyfjamál og efni þessa frv. Það er ekki í fyrsta sinn á þessu kjörtímabili sem mjög ítarlegar umræður fara fram um lyfjamál. Satt að segja þá held ég að fá mál eða engin hafi verið eins mikið rædd á þessu kjörtímabili og einmitt lyfjamálin. Það má segja að það hafi hafist með reglugerðum sem hæstv. fyrrv. heilbrrh. gaf út sumarið 1991 þar sem gert var ráð fyrir því að taka lyfjaverð mjög mikið niður. Síðan voru þær reglugerðir endurútgefnar nokkrum sinnum vegna þess að þær reyndust vera svo vitlausar, það þurfti að laga þær svo oft. Það má því segja að þessi málaflokkur hafi verið í mikilli óvissu um langt skeið. Þegar unnið var að fjárlögum fyrir árin 1992 og 1993 þá gerðu menn sér tilteknar vonir um sparnað í lyfjakostnaði ríkisins. Niðurstaðan af því varð því miður sú að sá sparnaður náðist ekki eins og gert hafði verið ráð fyrir vegna þess að svo flausturslega hafði verið að málum staðið.
    Jafnhliða deilum um lyfin, sem er út af fyrir sig mjög eðlileg að séu uppi vegna þess að þessi þáttur í heilbrigðisþjónustunni er dýr og það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvernig á að lækka þennan kostnað og leiti allra leiða í þessum efnum, reyndu menn þetta með ýmsum hætti í gegnum almannatryggingakerfið. Þá var reynt að semja hér frv. til nýrra lyfjalaga og þau eru búin að vera nokkrum sinnum fyrir þinginu, ætli það sé ekki í þriðja sinn á þessu kjörtímabili. Það er allt saman mjög eðlilegt, það er rökrétt að heilbrrn. reyni að leita leiða einmitt þarna til þess að ná niður kostnaðinum. Ég tel að í rauninni hafi verið farið mjög vel af stað í þessum efnum í tíð fyrrv. hæstv. heilbrrh. sem var í stólnum á undan mér, Guðmundi Bjarnasyni, þar sem var tekið á þessum málum með talsvert mikið öðrum hætti en við

kynntumst síðan hjá eftirmanni hans, hæstv. ráðherra Sighvati Björgvinssyni. Það er ekki hægt að neita því að í tíð hæstv. ráðherra, Guðmundar Bjarnasonar, þá náðist alveg gríðarlegur árangur að mörgu leyti að því er varðar lyfjaverðið og álagingu lyfjanna. Sá árangur sem náðist í hans tíð birtist síðan skattgreiðendum má segja í fjárlögum áranna 1991 og áfram.
    Fyrrv. hæstv. heilbrrh. og kannski eftirmaður hans, ég hef ekki séð það nákvæmlega, hafa hins vegar reynt að finna leiðir til þess að reikna sér alveg gríðarlega mikinn sparnað og það hefur verið satt að segja mjög sérkennilegt hvernig hefur verið að því farið vegna þess að menn hafa alltaf reiknað sparnaðinn frá því sem hefði orðið ef ekkert hefði verið gert. Með öðrum orðum ef enginn heilbrrh. hefði verið til og enginn fjmrh. hefði verið til og engin fjárln. og helst ekki Alþingi heldur og ekki einu sinni forseti Alþingis, að lyfjaverðið hefði spunnist hér upp eftir öllu og algjörlega hömlulaust. Þetta náði miklu hámarki á árinu 1993 í ákveðnum skýrslum sem hæstv. þáv. heilbrrh. lagði fram, m.a. hér á Alþingi. Fyrrv. hæstv. ráðherra reiknaði þetta t.d. út frá því að hann sagði sem svo: Ef ég hefði ekki verið í ráðuneytinu þá hefðu lyfjaútgjöldin 1991 orðið 2.935 millj. kr., ef ekkert hefði verið að gert, en af því að eitthvað var að gert þá urðu lyfjaútgjöldin hins vegar önnur, eða 2.422 millj. kr. Þannig reiknaði hann sér sparnað upp á hálfan milljarð frá því sem hefði orðið ef enginn heilbrrh. hefði verið til og engin fjárln. og ekkert Alþingi og ekki nokkur maður að passa þennan ofboðslega kostnað.
    Hæstv. fyrrv. ráðherra sagði einnig að ef ekkert hefði verið að gert þá hefði lyfjakostnaðurinn orðið 3.314 millj. kr. árið 1992 en honum hefði tekist að koma lyfjakostnaðinum niður í 2.620 millj. kr. Síðan tók hæstv. ráðherra sig til og lagði saman það sem munar, bæði árið 1992 og 1991 og niðurstaða hans varð sú að hann væri búinn að spara þarna stórkostlega fjármuni frá því sem hefði orðið ef ekkert hefði verið að gert. Ég skoðaði þessa hluti á sl. ári og bar saman raunkostnað lyfja ríkisins á árinu 1991 við 1992. Samkvæmt þeim tölum sem ég hafði frá Ríkisendurskoðun þá var varið til lyfja á árinu 1991 2.501 millj. kr. nákvæmlega. Sambærileg tala á sama verðlagi fyrir árið 1992 var 2.764 millj. kr. Með öðrum orðum lækkuðu lyfin ekki milli áranna 1991 og 1992, þau lækkuðu ekki í verði, þau hækkuðu í verði um 10,5%. Það er algjörlega óvefengjanlegt að raunkostnaður lyfja á þessum tíma, 1991 til 1992, hækkaði um 10,5%.
    Síðan hafa menn velt því fyrir sér hvað hefur verið að gerast síðan. Það sem hefur gerst síðan er það að hlutur sjúklinga hefur aukist. Og nú ætla ég að leggja fyrir hæstv. heilbrrh. nokkrar tölur og biðja hann að taka vel eftir og átta sig á því með mér hvort þetta er einhver vitleysa sem hér veltur senn fram.
    Heildarlyfjaútgjöld á Íslandi eru sögð vera 5 milljarðar. Það étur það hver upp eftir öðrum úr þessum ræðustól og ég hef heyrt það notað m.a. af einhverjum opinberum aðilum --- 5.000 millj. kr. fara í meðul á ári. Innan spítala er mér sagt að þessi kostnaður sé 700 millj. kr. Þannig að í heildina tekið, á markaðnum ef svo mætti segja, fyrir utan sjúkrahús eru menn að borga fyrir lyf eitthvað um 4.300 millj. kr., 4,3 milljarða. Núna er það þannig samkvæmt skýrslu sem borist hefur frá heilbrrn. að gert er ráð fyrir því að sjúklingarnir borgi, eins og það er orðað í plaggi frá ráðuneytinu, 32% af kostnaðinum. Það stendur í skýrslu sem sagt var frá 23. jan. sl., orðrétt, með leyfi forseta: ,,Með þessum breytingum hækkaði hlutdeild sjúklinga í heildarlyfjakostnaði úr 24--25% í 31--32% að meðaltali en hlutdeild Tryggingastofnunar ríkisins lækkar að sama skapi.``
    Sem sagt, breytingin er sú að sjúklingarnir eru núna að borga 32%. Hvað borguðu sjúklingarnir að meðaltali í tíð næstsíðasta hæstv. heilbrrh., Guðmundar Bjarnasonar, á árinu 1991? Hvað borguðu þeir þá? Þeir borguðu 18%. Það sem sjúklingarnir borga hefur því hækkað, hæstv. heilbrrh., um 600 millj. kr. á ári. Miðað við þessar tölur er hækkunin sem sjúklingarnir hafa orðið að taka á sig 600 millj. kr. frá því sem ella hefði verið.
    Þessi auknu útgjöld sjúklinganna, þ.e. þessi skattlagning á hina veiku, nemur 2,4 milljörðum kr. á fjórum árum sem allir sjá á þessum kvöldfundi að er fundið þannig út að það er margfaldað saman 4 og 600. Niðurstaðan 2,4 milljarðar kr. á fjögurra ára bili. En hvað hefur þá sparast að mati ráðuneytisins frá því sem hefði orðið ef ekkert hefði verið að gert? Ráðuneytið telur að sparnaðurinn sé 625 millj. kr. á ári. Með öðrum orðum er það sem sjúklingarnir hafa tekið á sig frá því sem ella hefði orðið svipuð tala eða eilítið lægri en það sem talið er að sparast hefði ef ekkert hefði verið að gert. Þetta rökstyður, hæstv. forseti, þá niðurstöðu að mínu mati að niðurskurðurinn á lyfjanotkuninni sé takmarkaður, hann er vafalaust einhver eins og hér hefur komið fram en aðalatriðið er að það sjúklingarnir sem eru að taka á sig alla hækkunina og þar með lækkunina fyrir ríkissjóð. Það sem stendur eftir er að ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. er að leggja á sjúklinga skatta, á þá sem kaupa meðul á Íslandi, um 600 millj. kr. á ári af því að hlutfall sjúklinganna er farið úr 18% upp í 32%.
    Það er í rauninni mjög nauðsynlegt að hæstv. núv. heilbrrh. geri sér grein fyrir að það er enginn marktækur sparnaður í þessu kerfi þar sem svo til það eina sem gerst hefur er það að sjúklingarnir eru skattlagðir um 600 millj. kr., eða u.þ.b. um 2,5 milljarða á kjörtímabilinu, sem lagðir eru á það veika fólk á Íslandi sem verður að kaupa sér meðul í dag. Þetta er veruleikinn sem blasir við. Og það er von að Jafnaðarmannaflokkur Íslands sé eilítið niðurlútur yfir tíðindum af þessu tagi og telji ástæðu til þess að flýta flokksþinginu hjá sér og halda það í janúar svo hann geti vígbúist fyrir kosningarnar, eins og það heitir, vegna þess að hann verður auðvitað að skýra kjósendum sínum frá því hvað það á að þýða að hafa jafnaðarmannaflokk í ríkisstjórn sem skellir á sjúklingasköttum upp á 600 millj. kr. Sjúklingaskattur upp á 600

millj. kr. á ári á þá sem kaupa lyf.
    Ég vil leyfa mér, hæstv. forseti, að inna hæstv. heilbrrh. alveg sérstaklega eftir því: Vefengir hann þessa útreikninga sem byggjast ósköp einfaldlega á þeim veruleika að lyfjamarkaðurinn er um 5 milljarðar kr., 700 millj. þar af eru inni á spítölunum, 4,3 milljarðar eru þar fyrir utan, 32% af því sem sjúklingarnir borga í dag eru 1.400 millj. kr., 18% eins og þetta var eru 770 millj. kr., mismunurinn er í kringum 600 millj. kr. á ári sem verðlag á lyfjum hefur hækkað til sjúklinganna frá því sem ella hefði orðið? Það er auðvitað mjög nauðsynlegt, hæstv. forseti, að fá það alveg á hreint hvort hæstv. núv. heilbrrh. gerir sér grein fyrir því hvaða tölur í rauninni það eru sem hann, sem einn af leiðtogum Jafnaðarmannaflokks Íslands, er að bjóða veiku fólki upp á á Íslandi í dag.
    Ég tek eftir því að hann og fleiri eru að halda því fram að sá sparnaður sem hafi orðið hafi ekki komið niður á neinum, heilbrigðisþjónustan sé svona svipuð í grófum dráttum og hún hefur verið. Það er náttúrlega rangt. Heilbrigðisþjónustan er að mörgu leyti miklu lakari á sumum sviðum. Fleiri deildum er lokað en áður í sparnaðarskyni á sumrum. Það er þrengt að þjónustu við aldraða, það er þrengt að þjónustu við fæðandi konur og það hefur verið þrengt að þjónustu við ýmsa aðra aðila fyrir utan þá skatta sem fólk er látið borga. Það er dálítið umhugsunarefni að það skuli vera þannig á Íslandi árið 1994 að lágtekjufólk, með eins og einn eða tvo krakka á framfæri, skuli velta því fyrir sér í alvöru hvort það borgi sig ekki betur að kaupa fúkkalyf handa barninu heldur en að borga á göngudeild verulega fjármuni fyrir þjónustu við barnið. Það er náttúrlega alveg svakalegt. En dæmi um þetta eru til. Menn hafa verið svo önnum kafnir við að skera niður og spara að menn hafa ekki verið tilbúnir til þess að líta á vandamál af þessu tagi.
    Ég tel mig hafa sýnt fram á það, hæstv. forseti, með þessum tölum að í raun og veru eru það sjúklingarnir sem hafa borgað þennan sparnað í kerfinu.
    En eins og ég sagði áðan er það eðlilegur hlutur og ekkert nema gott um það að segja að ráðuneyti heilbrigðismála velti því fyrir sér hvernig á að spara í lyfjakerfinu því þetta er dýrt kerfi. Það er ekki hægt að neita því. Og það er í raun og veru ekkert undarlegt þó að menn staldri sérstaklega við apótekarana í þeim efnum. Það verð ég að segja alveg eins og er. Það er kerfi sem mér hefur aldrei getist að og hef margoft haft uppi málatilbúnað og tillögur á Alþingi í þeim efnum. Hins vegar er ekki hægt að fara í gegnum Alþingi með eitt frv. bara vegna þess að það slátri lénskerfi apótekaranna, eins og það heitir, ef ýmsir aðrir hlutir eru verulega gagnrýniverðir. Ég held þess vegna að menn verði að átta sig á því að þessi mál þurfa að vera í talsverðu jafnvægi og betra jafnvægi en mér finnst þau vera í frv. eins og það lítur út núna. Ég er fullkomlega sammála því að það er engin reisn yfir því fyrir velferðarkerfið á Íslandi að vera með apótekarana trjónandi hæsta á skattskrám flestra byggðarlaga á landinu ár eftir ár, það er eiginlega til skammar. Það er því út af fyrir sig ástæða til þess að taka undir þau sjónarmið að þar á að taka á. Ég tel hins vegar að það megi gera það með dálítið öðrum hætti en menn eru hér uppi með hugmyndir um og sú gagnrýni sem ég vil hafa uppi við þetta frv. er aðallega tvíþætt.
    Í fyrsta lagi að það er augljóst mál miðað við allar venjur í samkeppnisþjóðfélagi, miðað við allar forsendur sem heilbrrn. líka viðurkennir, að með því að auka verulega fjölda þeirra sem versla með lyf er alltaf hætta á því að notkun lyfja aukist. Þetta er t.d. skoðun heilbrrn. að því er varðar áfengismál. Heilbrrn. hefur tekið undir, og gerir enn að ég best veit, stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um það að fjölgun á áfengisútsölustöðum þýði aukinn áfengisvanda, þýði fleiri áfengissjúklinga, þýði dýrara áfengismeðferðarkerfi. Ég er viss um að þetta er rétt. Ég hef engan séð sýna fram á að þeir hlutir séu eitthvað öðruvísi. Þess vegna er það alveg ljóst að þær hugmyndir sem hér eru uppi geta haft það að nokkru leyti í för með sér að notkun á lyfjum aukist frá því sem nú er og ég tel það út af fyrir sig slæmt.
    Í öðru lagi verð ég að segja það alveg eins og er að ég óttast það að verð á lyfjum í dreifbýlinu muni fara hækkandi og að líklega muni lyfjaverð í heild hækka. Ég hef engin rök séð sem skjóta niður röksemdir sem koma t.d. ágætlega fram í þessu skjali Alþýðusambandsins. Það væri fróðlegt að vita hvað hæstv. heilbrrh. segir um það mál en ég sé ekki betur en að það séu tiltölulega trúverðug rök sem flutt eru í þessari umsögn Alþýðusambandsins fyrir því að verð á lyfjum muni geta farið talsvert hækkandi. Það eru að sjálfsögðu takmörk fyrir því hversu mikið það getur hækkað, það liggur í augum uppi. Staðreyndin er hins vegar sú að það er nokkuð hart, að ekki sé meira sagt, að vera búin að ganga svo að sjúklingum að þeir séu núna farnir að borga 1,4 milljarða í staðinn fyrir 770 millj. fyrir lyf á ári og það þurfi að leggja á þá enn þá meira vegna þess að menn eru að taka upp kerfisbreytingu í þessum málum sem geti haft það í för með sér að verð á lyfjum hækki talsvert frá því sem er í dag.
    Ég held satt að segja að þetta séu atriði sem er ástæða til að staldra við sérstaklega. Það er að segja þessi spurning: Hvaða afleiðingar hefur málið? Ég skil ráðherrann svo að hann leggi ofurkapp á það að ganga milli bols og höfuðs á lénskerfi apótekaranna. En ég segi hins vegar að málið er kannski pínulítið illa búið til ákvörðunartöku á Alþingi þegar þess er gætt að við 2. umr. málsins rétt áður en þinginu lýkur eru fluttar, ætli það séu ekki einar 40--50 brtt. við frv. og ætlast til þess að þingmenn greiði atkvæði um þetta mál og þessar miklu breytingar vitandi vits og með fullri meðvitund og þekkingu á málinu núna alveg á síðustu dögum þingsins. Þess vegna hefði ég talið að það væri rétt að ákveða það einn, tveir, þrír að hæstv. ráðherra fengi eitthvað af því góða fólki sem er til í ráðuneytinu til að semja í hvelli nýtt lagafrv. vegna þess að það er það sem hér er verið að gera. Það er alveg steypt um upphaflegu frv. og ég tek

það fram að margar af þeim brtt. sem eru samdar af meiri hluta hv. heilbr.- og trn. tel ég heldur til bóta. Margar af þeim sýnist mér að séu heldur til bóta en þær eru hins vegar svo viðamiklar að það er tæplega Alþingi bjóðandi að ætla sér að taka þær í gegnum þingið með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Eðlilegra hefði verið að semja í snatri á grundvelli þessara tillagana og með hliðsjón af athugasemdum sem fram hafa komið nýtt frv. um málið.
    Auðvitað er það þannig þegar farið er að skrifa frv. af þessu tagi að þá er eins og allt sé á öðrum endanum í þjóðfélaginu oft á tíðum. Ég þekki það. Ég hef farið hér í gegnum þessa stofnun með frv. til laga um lyfjadreifingu og til lyfjalaga. Það var alveg ótrúlegur fyrirgangur í lénsherrunum, ég get ekki neitað því. Ég mun ekki fara yfir það núna í þessum ræðustóli, ég kann ekki við það, ég geri það í ævisögu minni sem kemur út á næstu öld. En það var alveg ótrúlegur fyrirgangurinn og undirgangurinn í lénsherrunum þegar átti að fara að draga burst úr nefi þeirra. Það var satt að segja ævintýralegt. Þess vegna kippi ég mér svo sem ekkert upp við það þó það sé einhver ógn af einhverjum brtt. og umsögnum af þessu tagi sem er með meira og minna faglegu yfirbragði eins og gengur en eru ekki allar eins faglegar þegar upp er staðið vegna þess að menn eru að slá skjaldborg um hagsmuni þar sem menn eru að græða stórkostlega fjármuni á fullkomlega óeðlilegu kerfi.
    En þó menn hafi full rök fyrir því að taka á þessu kerfi þá verða menn auðvitað að vanda sig og það vantar talsvert á það að hægt sé að segja það með þessu frv. þar sem er um að ræða á milli 60 og 70 brtt. sem verður að gera á síðustu dögum þingsins. Og það er ekki boðlegt Alþingi að halda þannig á málum að það þurfi alltaf að vera svona síðustu dagana. Þó verð ég að segja að ég hef svo sem séð hann fullt eins svartan og jafnvel svartari en mér finnst þetta ekki gott vegna þess að hér er um að ræða mikilvæg lög þar sem lyfjalögin eru. Þau þurfa að vera góð, vönduð, örugg og traust í alla staði.
    Það fer auðvitað ekki fram hjá neinum að undirgangurinn sem hefur verið hér í húsinu og í kringum húsið síðustu daga hefur kannski gert sér með vissum hætti vonir um það að hann fengi bergmál í hinum stjórnarflokknum. Á síðasta þingi tóku menn eftir því að það var eitthvað erfitt hjá þeim. Og einstakir forustumenn Sjálfstfl. höfðu svo mikið við að þeir skrifuðu heilu greinarnar til að reyna að verja sig fyrir því að þeir væru nú ekkert á móti þessu kerfi. Fyrrv. hæstv. heilbrrh. baunaði því á Sjálfstfl. að hann væri á móti frelsi í viðskiptum með lyf. Sjálfstfl. sagði: Ég er ekkert á móti frelsi í viðskiptum með lyf. Út af fyrir sig komu fram ágætar röksemdir í þeim greinum sem birtust um þetta mál eins og þegar hæstv. núsitjandi forseti þingsins skrifaði grein sem heitir: Hvers vegna? Og svo spurningin: Eru sjálfstæðismenn á móti frjálsri verslun með lyf? Og hann sagði að það væri ekki. Sjálfstfl. væri ekkert á móti frelsi. Hann þykist alltaf vera með frelsi en er það yfirleitt aldrei. Svo sagði hæstv. forseti í greininni, með leyfi forseta:
    ,,Við teljum að bullandi óheft sókn verði sett af stað í stofnun lyfjaverslana ef þetta verður með þeim hætti að hver sem er, einungis ef hann er lyfjafræðingur, geti sett upp verslun.``
    Ég tel að þetta sé skynsamleg aðvörun hjá hv. 1. þm. Vesturl. Auðvitað getur bullandi óheft sókn í þessa fiskstofna, sem eru sjúklingarnir, haft stórkostlega hættulegar afleiðingar bæði fyrir ríkið og fyrir sjúklingana. Hins vegar er það alveg bersýnilegt að þessi mál hafa haft í för með sér miklar innantökur fyrir Sjálfstfl. sem er alltaf troðfullur af þverstæðum þegar kemur af því að innleiða svokallað viðskiptafrelsi af því að hann þarf alltaf á sama tíma að varðveita aðaleinokunarhagsmunina í þjóðfélaginu og er með menn í því og stendur sig ágætlega í því stundum að koma fram í þessu tvöfalda hlutverki að vera bæði með frelsinu og líka á móti því. Hann er t.d. eiginlega alltaf með frelsinu fyrir kosningar sérstaklega alveg síðustu dagana en yfirleitt á móti því strax eftir kosningar og svo dregur úr andstöðunni við frelsið eftir því sem nær dregur kosningum á nýjan leik. Þannig hefur Sjálfstfl. komist upp með þetta lengi. En það er hins vegar engin ástæða til þess að hrökkva til við slíkt.
    Ég tel hins vegar að þær athugasemdir og ábendingar sem fram hafa komið, m.a. hjá hv. 1. þm. Vesturl., séu að mörgu leyti allrar athygli verðar og skynsamlegar í þessu máli og full ástæða til að hlýða á þær. Í rauninni held ég að málið liggi þannig að það sé ákaflega víðtæk samstaða um þetta mál í þinginu ef menn leyfðu sér eins og einu sinni eða svo að horfa á hlutina eingöngu málefnalega en settu sig ekki í þessar venjulegu skotgrafir stjórnar og stjórnarandstöðu. Og af þessum ástæðum vil ég eindregið hvetja til þess að það verði íhugað að jafnvel verði skrifað nýtt frv., dregnir inn í þá mynd þeir þingmenn sem hafa komið að málinu að undanförnu og þekkja þetta ákaflega vel og hafa starfað af samviskusemi í heilbr.- og trn. auk allra þeirra fjölmörgu aðila sem hafa komið á framfæri ábendingum og athugasemdum, m.a. forustumenn Alþýðusambands Íslands og forustumenn apótekara sem hafa komið á framfæri mörgum ágætum athugasemdum þó svo maður viti mætavel að á bak við það allt saman eru ákaflega ríkir einkahagsmunir, að ekki sé fastar að orði kveðið.
    Ég ætla síðan, hæstv. forseti, aðeins að rifja það upp, sem mér finnst vera aðalatriði málsins, að núv. ríkisstjórn hefur engum sparnaði náð í lyfjum. Hún hefur bara lagt meðalaskatt á sjúklinga. Það er í raun og veru svakalegur hlutur. Eftir öll lætin, alla blaðamannafundina, öll frv., allar auglýsingarnar, alla bandormana, alla leiðarana í Alþýðublaðinu, allar ræðurnar á Alþingi og utan, allar samþykktir Alþfl., Jafnaðarmannaflokks Íslands --- hver er niðurstaðan? Hún er sú að á sjúklinga hafa verið lagðar u.þ.b. 600 millj. kr. á ári af því að hlutdeild sjúklinga hefur hækkað úr 18% upp í 32% af lyfjaverðinu. Hækkunin er úr nálægt 770 millj. kr., miðað við lyfjamarkaðinn í dag, upp í u.þ.b. 1.370 millj. kr. Þetta hlýtur að vera alveg ofboðsleg niðurstaða fyrir unga og efnilega leiðtoga Jafnaðarmannaflokks Íslands að ætla að fara með þetta fyrir kjósendur núna. Þeir segjast ætla að fara að tala við kjósendur. Formaður Alþfl. sagði að það væri meiningin. Þess vegna þurfti að flýta svona mikið flokksþinginu að það á að fara að tala við kjósendur og ekki seinna vænna, þeir hafa ekki gert svo mikið af því að undanförnu. A.m.k. hafa þeir ekki hlustað á kjósendur, svo mikið er víst.
    Niðurstaðan er sú að á einu kjörtímabili, fjórum árum, eru auknar álögur á sjúklinga á Íslandi vegna hækkandi lyfjaverðshlutfalls upp á 2,4 milljarða kr. Og hver er sparnaðurinn sem þeir eru að eigna sér? Hver er hann? Hann er 2.500 millj. kr. á fjórum árum eða eilítið hærri. Sjúklingarnir hafa sparað þetta allt, borgað þetta allt þegar upp er staðið og hlutföllin eru skoðuð nákvæmlega eins og þau eru.
    Auðvitað reyna talsmenn Alþfl. að setja hlutina allt öðruvísi upp. Þeir setja hlutina þannig upp, eins og kunnugt er, að þeir hafi sparað svo mikið frá því sem ella hefði orðið ef enginn heilbrrh. hefði verið til og engin fjárln. og engin maður á Alþingi Íslendinga. Miðað við það þá hefðu þeir sparað stórkostlega fjármuni. En jafnvel þó maður trúi þeirra eigin tölum þá er niðurstaðan sú að sjúklingarnir, fólkið sem þarf meðulin hefur borgað allt. Þannig er nú mátturinn og dýrðin hjá Jafnaðarmannaflokki Íslands. Hann er hjá veiku fólki. Hálfur milljarður til 600 millj. kr. á ári í skatta á sjúklinga sem þurfa að hlaupa í apótekin til að ná í meðulin sín.