Lyfjalög

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 23:32:33 (6610)


[23:32]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að sú umræða sem fram hefur farið í dag og kvöld um frv. til lyfjalaga og þær breytingar sem hv. heilbr.- og trn. hefur lagt til á því leiði í ljós þegar saman er dregið að þrátt fyrir allt og andóf af ýmsu tagi sé innst inni talsverður stuðningur við meginefni frv. A.m.k. gat ég ekki merkt annað á ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar en að hér væri á ferðinni verkefni sem hafi raunar áður í tíð hans sem heilbrrh. og síðar verið ofarlega á hans verkefnalista. Þ.e. að brjóta upp þetta trénaða kerfi smásölu og heildsölu sem við höfum búið við um alllangt skeið með allt of litlum breytingum. Minn skilningur er raunar sá að langflestir hv. þm. sem hér hafa talað, þó með nokkrum undantekningum, því miður, séu í raun og sanni sammála því að það sé verðugt verkefni og nauðsynlegt að taka á því.
    Það voru líka býsna fróðlegar upplýsingar sem fram komu hjá hv. þm. Svavari Gestssyni um þann undirgang sem hann lýsti mjög skemmtilega hér. Ég merki að hann ásamt einhverjum ónefndum þingmönnum öðrum hafi þá orðið fyrir vegna þrýstings hagsmunahópa sem eiga hlut að máli. Nú kann ég það ekki því þessir hagsmunahópar hafa nú um skeið lítið viljað við mig ræða og beint sjónum sínum greinilega eitthvað annað. Auðvitað er það ekkert óeðlilegt að þeir aðilar sem hafa haft af því lifibrauð að selja lyf í smásölu og að því er virðist haft sæmilegt upp úr sér margir hverjir og kannski flestir og svo hinir sem hafa dregið fram lífið á því að flytja inn lyf og versla með þau til smásala bregðist þannig við að þeir finni öllum breytingum ýmislegt til foráttu. Það er kannski bara mannlegt. Ég man satt að segja ekki eftir því að hagsmunahópar hafi farið í fararbroddi fyrir breytingum á því kerfi sem þeir hafa búið við og búa býsna vel við og njóta góðs af. Ég man a.m.k. ekki eftir því að þess væri að vænta að ýmsir hagsmunahópar sem búa í kerfi sem býr vel að þeim hafi haft frumkvæði eða sérstakan áhuga á því að breyta því, jafnvel á þann veg að þeir beri ekki það sama úr býtum á eftir.
    Auðvitað er það kjarni þessa máls, virðulegur forseti. Kjarni þessa máls sem við ræðum er sá að þetta frv. mun lækka lyfjaverð. Hvernig? Jú, með því að lækka álagningu hjá heildsölum, hjá innflytjendum og hjá smásölum. Flóknara er þetta mál nú ekki.
    Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ég átti satt að segja ekki von á því hjá ýmsum hér að þeir tækju upp stóran slag, skulum við segja, um varðveislu þessara forréttinda, um varðveislu þessa kerfis, sem hv. þm. Svavar Gestsson nefndi lénskerfi, með réttu eða röngu, en er vissulega þannig að þar ríkir ákveðin innri goggunarröð. ( Gripið fram í: Og ytri líka.) Það tekst illa að komast inn í þennan hóp 43 apótekara eða þar um bil. Þeir þurfa að ganga í gegnum erfiða síu, að því að sagt er, úti á landsbyggðinni í slakari umdæmum en eftir að þeir hafi þraukað þá nálgist þeir höfuðborgina þar sem gullið glóir.
    Ég verð að játa það, virðulegi forseti, að ég átti ekki von á því að margir hv. þm. tækju upp harðan slag fyrir þessu fyrirkomulagi og vildu engu eira til að vernda það og festa í sessi. En auðvitað er það í heild og breidd sú niðurstaða sem hv. þm. eru að sækjast eftir með því að kasta í burtu um lengri eða skemmri tíma þeim breytingum sem þó er verið að gera á þessu fyrirkomulagi.
    Auðvitað er það skiljanlegt, virðulegi forseti, að það geti verið skiptar skoðanir um ágæti breytinga af þessum toga. En að það skuli vera til að mynda efst í huga hv. þm. Svavars Gestssonar, sem á yngri árum hafði það að meginmarkmiði, ef ég man rétt, að ganga milli bols og höfuðs á heildsalastéttinni, brjóta hana upp, hirða eitthvað af þeim gróða sem þar lægi inni og þjóðnýta. Öðruvísi mér áður brá.
    En svo ég víki að meginatriðum þess frv. sem hér er um að ræða þá vil ég undirstrika og það er aðalatriði málsins og það hryggir mig eilítið að ekki fleiri hv. þm. skuli ræða þetta mál út frá þeim punkti að hér er um neytendamál að ræða fyrst og síðast. Hér er um að ræða hagsmuni þess fólks sem þarf lyf en í öðru sæti koma hagsmunir þeirra sem selja. Í öðru sæti koma hagsmunir þeirra sem selja. Það getur ekki verið meginmál löggjafarvaldsins að gæta fyrst að því hvernig fari fyrir þeim aðilum sem fram undir þetta og síðar hafa með höndum sölu á lyfjum, innflutning á lyfjum, hvernig þeirra hagur muni eftir nauðsynlegar breytingar verða. Meginmálið er það hvernig við tryggjum best í fyrsta lagi eins lága álagningu og þar með lágt verð á lyfjum til sjúklinga og neytenda almennt og nokkur kostur er.
    Í öðru lagi. Hvernig tryggjum við fullkomið öryggi í þessari lyfjadreifingu?
    Í þriðja lagi. Hvernig tryggjum við traust, gott og lipurt aðgengi neytandans gagnvart þessari heilbrigðisþjónustu?
    Þetta eru auðvitað lykilatriðin og út frá þessum þremur meginstraumum eigum við fyrst og síðast að ræða þetta mál og á þeim grundvelli byggir frv. og brtt. sem hér eru til 2. umr.
    Viðvíkjandi þeim brtt. sem hér eru fram lagðar af hv. meiri hluta heilbr.- og trn. og eru sannarlega allmargar þá vil ég nú halda því sérstaklega hér til haga að margar þeirra hafa auðvitað komið eftir ítarlegt og ágætt starf í heilbrn. vegna ábendinga m.a. hv. þm. stjórnarandstöðu. Þeir hafa í raun og sanni og það er auðvitað þakkarvert viðurkennt það úr þessum ræðustól að þær breytingar væru flestar þeim til þægðar og til bóta þessu frv. Þær voru auðvitað gerðar í fullkomnu samkomulagi við ráðherra og ráðuneyti. Það hefur ævinlega verið markmið þess sem hér talar og hann gat þess þegar hann mælti fyrir þessu frv. að auðvitað væri mikilvægt ef nokkur kostur væri að ná um þetta víðtækri samstöðu og mér heyrist satt að segja að það sé ekki eins langt í það og margir mundu nú ætla eftir þá löngu og ströngu umræðu sem hér hefur farið fram og á eftir að verða lengri.
    Hér er um neytendamál að ræða. Í fyrsta lagi: Hvað gerir þetta frv. varðandi bætt aðgengi? Jú, það tryggir fullkomlega, talsvert betur en nú er, að ekkert heilsugæsluumdæmi á landinu verði án lyfjasölu, án þess að þar verði lyfjabúð af einum eða öðrum toga. Með öðrum orðum, ef svo ber við, sem í raun og sanni hefur nú borið við um alllangt skeið og um árabil og áratuga skeið, að ekki hefur tekist að fá apótekara hér og þar á landinu þá er það tryggt í þessu frv. að undir þeim kringumstæðum geta heilsugæslustöðvarnar gegnt því hlutverki sem lyfsalar eða lyfjabúðir að öðru jöfnu gegna. Það er alveg kýrskýrt. Enn fremur er tekið í þessu frv. á skyldum og réttindum sjúkrahússapóteka, alveg skýrt og gert klárt með hvaða hætti þessi sjúkrahússapótek eiga að starfa og einnig, sem ég hygg að nauðsynlegt sé til að gæta að jöfnuði í þessum efnum, hvernig leikreglum þau eiga að lúta. Með öðrum orðum að þar eigi bókhald sérstaklega að vera aðskilið frá annarri starfsemi sjúkrahússins.
    Hér er stigið framfararskref í þá átt að bæta þetta aðgengi. Þannig að það er bókstaflega rangt, virðulegur forseti, þegar því er haldið fram að þetta frv. til breyttra lyfjalaga leiði til þess að þjónustan úti á landi minnki. Þvert á móti mun hún aukast. Hún verður öruggari og tryggari hér eftir en hingað til. Það er málið.
    Menn hafa eðli máls samkvæmt staldrað hér við það markmið þessa frv. að lækka álagningu, lækka verð á lyfjum. Því það er auðvitað alveg hárrétt sem ég gat um í framsöguræðu við 1. umr. og sem hér hefur verið áréttað, að það er ekki hægt að una því að við Íslendingar notum lyf, ekki meira og ekki minna en nágrannaþjóðir okkar, en kostnaðurinn við þetta er sá alhæsti, sá alhæsti, sem þekkist á Norðurlöndum. Það er auðvitað staða sem við getum ekki sæst á og það er ekki eingöngu, eins og hv. þm. Finnur Ingólfsson kom hér inn á í sinni ræðu, á heildsölustiginu. Það er því miður ekki síður á smásölustiginu. Þetta hlýtur auðvitað að verða verkefni sem okkur ber skylda til að taka á og það er gert í þessu frv. Ég held að það sé ástæðulaust að fara mörgum orðum um þann þátt þessa frv., sem lýtur að samhliða innflutningi, sem lýtur að
EES-þáttum þess, en er auðvitað mjög veigaþungt í verðmyndunarkerfi lyfjanna. Þar er verið að brjóta upp þetta nýlendukerfi, þetta danska nýlendukerfi, sem hefur byggst upp á því að tilteknir innflytjendur hafa einokun á tilteknum merkjum og eru þar með mjög ráðandi um verðákvarðanir eðli máls samkvæmt. Nú er hægt og heimilt, eftir gildistöku þessa frv., að flytja lyfin inn frá öðru landi en upprunalandinu, sem hefur í raun og sanni þýtt Danmörk í langflestum tilfellum fram undir þetta. Og það er auðvitað reynsla annarra þjóða og verður væntanlega sú sama hér að þetta mun leiða til verulegrar lækkunar á verði lyfja.
    En áður en lengra er haldið, virðulegi forseti, þá er auðvitað nauðsynlegt að rifja það upp með nokkrum orðum við hvaða verðmyndunarkerfi við búum og höfum búið við núgildandi lög í þessum efnum. Það kerfi sem mér heyrist að margir þingmenn vilji halda í lengst allra orða. Það er kannski einfaldast að greina frá því í dæmi. Ég hygg að öllum hv. þm. sé ofarlega í huga þegar ákvörðun var tekin um afnám aðstöðugjaldsins. Vissulega hafa menn deilt um það hér fram og til baka í hversu miklum mæli afnám aðstöðugjaldsins hafi skilað sér til neytandans í lækkuðu vöruverði. En að sjálfsögðu var eftir því leitað af hálfu stærsta kaupandans í lyfjamálunum, ríkisins, að þessi lækkun skilaði sér í lækkaðri álagningu heildsölu og smásölu hvað viðvíkur lyfjunum. En þá bar auðvitað svo við að ýmislegt þurfti að athuga og rannsaka og það var ekki fyrr en fjórtán mánuðuðum, ég segi og skrifa fjórtán mánuðum, eftir að afstöðugjaldið var af tekið að ráðherra heilbrigðismála fékk á sitt borð tillögu sem gekk í þá átt að afnám aðstöðugjaldsins leiddi til lækkunar álagningu í heildsölu og smásölu af lyfjaverði. Og það var ekki fyrr en núna 1. apríl sem þessi lækkun gat komið til framkvæmda. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að rekja í smáatriðum hverjar ástæður þessa voru en vil minna á það, ef einhver man ekki eftir því, hvernig lyfjaverðlagsnefnd ber að standa að verðlagningu lyfja.
    Í lyfjaverðlagsnefnd eru fimm aðilar, það er fulltrúi Hagstofu, Tryggingastofnunar, Apótekarafélagsins, Lyfjafræðingafélagsins, starfandi lyfjafræðingur, og síðan fimmti maður, sérfróður um lyfsölumál,

og skipar ráðherra hann án tilnefningar. Það hefur gengið á ýmsu með þann mann. Þeir hafa nú ekki verið langlífir þessir sérfræðingar ráðherrans og hagsmunaaðilar yfirleitt kært þá jafnharðan út úr þessari nefnd. Sá síðasti sem skipaður hefur verið, það var raunar sá þriðji á rúmu ári, situr þó enn. En það tók þennan lyfjaverðlagshóp fjórtán mánuði að reikna sig niður á hálft prósent í minnkun álagningar í heildsölu og eins prósents í smásölu.
    Þetta fyrirkomulag getur auðvitað ekki gengið, virðulegur forseti. Á þessu ber okkur auðvitað brýn skylda til að taka. Og í því frv. og þeim brtt. sem fram hafa komið frá hv. þingnefnd er lagt til að sérstök lyfjaverðsnefnd komi þar að málum varðandi verðákvörðun lyfja og að því miðað með skipan hennar að þar verði skilvirkni höfð að leiðarljósi og hún vinni hratt og vel eins og lög segja til um.
    Í þessari umræðu er því haldið fram að það geri sig og segi sig sjálft að ef til þess komi að lyfjaverslunum fjölgi þá hljóti það að leiða til hækkaðs tilkostnaðar og þar með hækkaðs verðs á lyfjum. Þetta hygg ég að sé allt of skammsýn ályktun. Við þekkjum það auðvitað úr núverandi kerfi að það er dýrt og þunglamalegt. Þeim apótekurum sem eiga að taka við tilteknum héruðum er gert það að kaupa dýran lager, í mörgum tilfellum dýrt húsnæði og ganga inn í það kerfi sem byggt hefur verið upp á löngum tíma ella verða af embættinu.
    Ég sé það auðvitað fyrir mér að tilkostnaður geti lækkað mjög verulega við þetta umfang og við smásölu hér á landi. Það gefur auga leið að minni hyggju að þar geti verið lækkaður tilkostnaður. Og það vil ég segja, af því að hér hafa hv. þm. margir hverjir staldrað við þann þátt að það sé nánast ,,tabú`` að nota hugtakið markað þegar rætt er um sölu og kaup á lyfjum. Ég er því algerlega ósammála og það er auðvitað ekki samanburðarhæft þegar í annan stað er því lýst yfir, sem satt er, að það sé ekki vilji hjá þessum ráðherra sem hér talar að fara í rík útboð á þjónustu í heilbrigðiskerfinu og hann vilji hins vegar frekar styrkja og styðja það kerfi sem fyrir er. Á hinn bóginn er þar um óhlutbundna þjónustu að ræða, en í lyfjamálunum er um hlutbundna þjónustu að ræða sem gegnir öðru máli um. Það væri bókstaflega rangt hjá okkur ef við nýttum ekki þá þætti markaðarins sem í samkeppni hafa sannarlega í verslun og þjónustu leitt til lækkaðs verðs. Auðvitað verður ekkert slegið af í öryggismálum og auðvitað þýðir þetta ekki að lyf séu allt í einu einhver mjólkurvara út úr búð eða einhver varningur af þeim toga sem fólk satt að segja kaupir meira af eftir því sem verðið er lægra.
    Ég minnist orða hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur þegar hún sagði hér í umræðunni að það væri hægt að leiða það af líkum að ef þjónustan væri verri þá þýddi það lægra lyfjaverð, ef þjónustan væri betri þá hækkaði það lyfjaverðið. Ég er þessu gjörsamlega ósammála. Ég held þvert á móti að við höfum öll efni til að bæta þjónustu en lækka líka lyfjaverð og það er hinn rauði þráður þessa frv. sem við erum hér að fjalla um.
    Við höfum á að skipa í þessu frv. lyfjaverðsnefnd sem tekur sannarlega við af breyttu umhverfi, annars vegar í innflutningi og hins vegar í smásölu. Þessi lyfjaverðsnefnd á að skipa málum varðandi hámarksverð í heildsölu annars vegar og smásölu hins vegar. Ég veit svo sannarlega og trúi því að þessi lyfjaverðsnefnd komist mjög fljótlega að því að það sé fullkomið svigrúm til þess að lækka enn frekar álagningu en gert hefur verið fram að þessu. Sannarlega er ástæða til að fagna þeim árangri sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason og Finnur Ingólfsson, þegar þeir réðu ríkjum í heilbrrn., náðu í þessum efnum. Það er vissulega þakkarvert. Og það er alveg hárrétt sem fram hefur komið af þeirra hálfu að það er hægt að ganga lengra og það er eitt af markmiðum þessa frv. sem við erum hér að fjalla um.
    Það er kalsað um það hér í þessari umræðu að það verði tvenns konar verðlagning í gangi, annars vegar Reykjavíkurverð og hins vegar landsbyggðarverð. Ég vil minna á það, virðulegi forseti, að í þessu frv. eru ákvæði um hámarksverð og auðvitað gildir hámarksverð eitt hið sama um landið allt, um það þarf ekki að fjalla nánar. Á hinn bóginn er auðvitað eftirtektarvert að fylgjast með því í apótekum í Reykjavík, auglýsingum þessara apóteka frá einum tíma til annars þegar tilefni gefast eða þegar engin tilefni gefast, þegar boðið er upp á 10% afslátt í einstaka apótekum hér og þar og alls staðar, sem gefur manni auðvitað tilefni til þess að ætla enn og aftur að það sé svigrúm til varanlegrar lækkunar á álagningu og á verði lyfja. Með öðrum orðum, virðulegur forseti, út af landsbyggðinni, því hér hefur verið staldrað við þætti sem að henni lúta, sé ég fyrir mér og fullyrði að þjónusta batnar og verð lækkar og það er ekki lítill árangur þegar menn spyrja að leikslokum og skoða reynsluna af framgangi þessara mála.
    Ég held líka að það sé fullkomlega ástæðulaust að gera lítið úr þeim þætti þessa frv. sem lýtur að auknu upplýsingastreymi til neytenda því það er hárrétt sem margir lyfjafræðingar hafa sagt við mig, þ.e. lyfjafræðingar sem horfa til þess að nú loksins gefist tækifæri til þess að þeir geti notað sína menntun og þekkingu með beinum hætti gagnvart notandanum en þurfi ekki að vera innanbúðarmenn hjá einhverjum apótekurum, vafalaust ágætum, og sjá fram á það í núgildandi kerfi að það verði ekki á næstu árum og jafnvel ekki á næstu áratugum sem möguleikar gefist fyrir þá að spreyta sig á því að reka eigin lyfsölu. Þeir eru margir spenntir fyrir því að fá þar möguleika og margir horfa einmitt út á landsbyggðina. Og ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, af því að einatt var nú nefnt hér í umræðu um þessi mál að þetta frv. og ekki síst í ljósi þess að það væri að koma þá þýddi það hreinlega stórt stopp í þá veru að það fengjust engir lyfjafræðingar út fyrir borgarmörkin.
    Nú nýverið var einmitt ungur lyfjafræðingur að hefja störf á Siglufirði sem var einn þeirra staða sem sérstaklega var nefndur í þessu sambandi. Staður sem telur ekki mjög marga og er auðvitað þannig í

sveit settur landfræðilega að sá lyfjafræðingur á litla kosti að selja á stærra svæði eins og raunar algengt er. Þar voru tveir ágætir umsækjendur og vandi að velja. Annar þeirra hefur nú þegar hafið störf og ég er sannfærður um að þegar opnast þessir nýju möguleikar þá verði það þvert á móti þannig að við sjáum nýtt þjónustufúst og vinnufúst fólk koma til starfa út á landsbyggðina og þjónusta fólk þar. En þó höfum við ævinlega þennan varaventil í þessu frv. og það er heilsugæslan, að hún muni þá hlaupa undir bagga og sinna þessari bráðnauðsynlegu heilbrigðisþjónustu.
    Ég held líka, virðulegur forseti, að þar sé dálítið stórt mál að menn horfi á þau hagsmunatengsl sem með réttu eða röngu hafa verið við lýði í þessu lyfsölukerfi okkar. Hér hefur verið á það bent hvort ekki kunni að skjóta skökku við að í frv. er tekið á því afdráttarlaust að læknar geti ekki verið starfsmenn lyfsala. Ég held að þetta sé grundvallaratriði. Ég held líka að það sé grundvallaratriði að læknar hafi það ekki með höndum mikið lengur, eins og verið hefur raunar núna í undantekningartilfellum, að þeir bæði ákvarði um það hvað skuli selja og í hversu miklum mæli og fari síðan hinum megin við borðið og selji það. Það getur auðvitað ekki gengið. Ég held að það sjái hver einasti maður að það gengur þvert á allt siðferði. Ég er hræddur um að það gengi ekki sums staðar annars staðar í okkar ágæta stjórnkerfi. Þannig að um þetta trúi ég að sé almenn samstaða þó það hafi komið dálítið á óvart, ef ég skildi hv. þm. Finn Ingólfsson rétt, sem um margt hélt hér prýðilega ræðu og málefnalega enda þekkir hann þessi mál býsna vel, að það ætti að vera í hans hugmyndum nýtt og breytt kerfi, ákveðin gulrót fyrir lækna úti á landbyggðinni, að fá lyfjatöskuna með og . . .  (Gripið fram í.) Þá hef ég misskilið það og bið velvirðingar á því. En um þennan þátt held ég að hljóti að vera samstaða.
    Það breytir auðvitað ekki því að læknar verða eftir sem áður starfsmenn heilsugæslunnar og enginn kemur til með að amast við því að þeir rétti lyf yfir borðið, en að þeir verði ekki starfsmenn viðkomandi lyfsala. Það er auðvitað grundvallaratriðið. Þeir halda auðvitað áfram að vera þjónar fólksins og takast á við þau verkefni, sérstaklega úti um land þar sem fáir starfsmenn eru, sem á þeim brenna frá einum tíma til annars. Það gefur auga leið.
    Í brtt. hv. nefndar er gert ráð fyrir því að gildistími frv. að stórum hluta fari aftar í tíma og verði að ári. Það er auðvitað álitamál. Þau rök hafa verið ofarlega á baugi í þessum efnum að vegna þeirra breytinga sem hér eru lagðar til þá gefist allnokkur aðlögunartími. Ég hygg að það séu ákveðin sanngirnisrök sem þar séu á ferðinni og þess vegna er þessi breyting fram komin. Hún á ekkert skylt við vangaveltur hv. þm. Finns Ingólfssonar að það sé einhver ótti núverandi ráðherra að takast á við þetta verkefni. Hann er óður og uppvægur að takast á við það nú þegar ef svo bæri undir. En ég held að að séu ákveðin sanngirnisrök í því engu að síður þegar jafnstóru og viðamiklu kerfi sem hefur verið lítt breytt um áratuga skeið er loksins breytt þá gerist það með aðlögun. Að vísu held ég að apótekarar hér og þar og alls staðar hafi ekki áunnið sér slíkan helgunarrétt, eins og hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir ýjaði að, að þeir ættu skaðabótarétt á hendur löggjafarvaldinu. Það held ég að sé gersamlega af og frá og út af fyrir sig held ég að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um það. Það er út af fyrir sig enginn slíkur helgunarréttur á þessum viðskiptum og stóri kaupandinn, eins og hv. þm. Finnur Ingólfsson kom inn á, hefur náttúrulega um það talsvert val hvar hann gerir sín viðskipti. Það er út af fyrir sig ekkert í núgildandi lögum sem mælir svo fyrir um að Tryggingastofnun ríkisins eigi að kaupa lyf með þeim hætti sem nú er þó að að sé auðvitað eðlilegt að hún geri það. Þannig að af þeim þætti málsins held ég að þurfi ekki að hafa stórar áhyggjur.
    Það er hins vegar, virðulegi forseti, alveg bráðnauðsynlegt að glöggva sig enn frekar á því við hvaða ástand við búum í dag og höfum gert um áratuga skeið. Ég hef nefnt hér og farið nokkrum orðum um smásöluna. Í heildsölunni er það nú raunar þannig að það eru ekki 43 heildsalar sem hafa þar tögl og hagldir heldur eru það mestan part tvö innflutningsfyrirtæki, sem hafa í raun og veru um 70% markaðar. Ég sé það fyrir mér að með hinum samhliða innflutningi rísi upp nýir aðilar. Það getur vel verið að margir þeirra verði ekkert mjög stórir og vissulega er það rétt að við gjöldum þess að nokkru að markaðurinn er að sönnu ekki stærri en hann er. Þó hann sé 5 milljarðar, sem er býsna stór peningur á íslenskan mælikvarða, þá er það kannski ekkert á mælikvarða lyfjaheimsins þar sem velt er 900 milljörðum króna á ári í rannsóknir einar saman, 900 milljörðum króna. En það breytir því ekki og það höfum við séð á öðrum innflutningi, þar sem létt hefur verið af hömlum, að Íslendingar eru býsna ólseigir að leita eftir þegar tækifæri gefast að nýjum leiðum, ódýrari leiðum en áður voru. En auðvitað verður að gæta að því þegar að hinum samhliða innflutningi kemur að fyllsta öryggis sé gætt og á því er tekið mjög skelegglega í frv. með lyfjanefndinni og verksviði hennar. Þannig að hér er ekki látið skeika að sköpuðu heldur þvert á móti tekið á þessum nauðsynlegu þáttum sem menn þurfa auðvitað að hafa mjög í heiðri og í huga þegar kemur að ákveðinni opnun á þessu kyrrstæða kerfi sem við höfum búið við.
    Hér hefur líka verið sagt, virðulegi forseti, að ef aðgengi verði of gott, þjónustan verði of góð við fólkið, ef verðið verði of lágt, þá þýði það mikla aukningu á lyfjanotkun. Samkvæmt þessari nálgun málsins má verðið ekki lækka of mikið og það má ekki vera of góð þjónusta úti á landi. Ég er þessu ósammála og menn hafi borið þetta saman við stefnu í áfengismálum. Ég vil minna á það, virðulegi forseti, að að langstærstum hluta til, um 75%, verða viðskipti með lyf á þann veg að það er læknir sem ákvarðar í raun og sanni í samráði við sjúklinginn sinn hvaða lyf hann ætli að kaupa og í hversu miklum mæli. Þetta gengur ekki að öllu jöfnu þannig fyrir sig að sjúklingurinn gangi út í búð eða örvist á þann veg að hann finni sig knúinn til að kaupa meira og meira. Að langstærstum hluta til með lyfseðilsskyldu lyfin er það

þannig að það er læknirinn, okkar fagmaður, trúnaðarmaður okkar allra, sem ræður þar för.
    Á hinn bóginn hefur það breyst nokkuð og það er held ég fagnaðarefni líka að sjúklingurinn sjálfur er farinn að láta sig varða hvað hann setur ofan í sig, með hverju læknirinn mælir. Sjúklingurinn er farinn að spyrja: Hvað kostar þetta, læknir góður? Og í annan stað: Hefur þetta lyf aukaverkanir? Þekking fólks hefur sem betur fer aukist stórlega á þessum vettvangi og frv. gerir einmitt ráð fyrir því að auka þessa þekkingu mun meira. Það er liðin tíð sem betur fer að hinn íslenski maður og hin íslenska kona lúti því valdi frá einum tíma til annars sem þau þurfa að sækja til. Læknar hafa til langs tíma verið taldir, oft með réttu, nærri guðlegum verum, en þeir eru auðvitað ekki óbrigðulir frekar en nokkurt okkar og sannarlega hefur fólk áttað sig á því í ríkum mæli og það hefur jafnframt komið fram í afstöðu til lyfja að heilsan er auðvitað fyrst og síðast á ábyrgð okkar sjálfra. En við njótum hjálpar og aðstoðar frá samhjálpinni, frá heilbrigðisþjónustunni, starfsfólkinu, læknum, hjúkrunarfræðingum og frá þeim sem ráðstafa lyfjum frá einum tíma til annars. Þess vegna m.a., virðulegi forseti, af því að það bar nú á góma í umræðu í þinginu ekki fyrir margt löngu, var kynningarátaki heilbrigðisráðuneytisins vegna samheita- og sérlyfja ekki síður beint gagnvart almenningi og vakin athygli hans á þeim valkostum sem byðust í þessum efnum, ekki eingöngu þrengt inn á heilbrigðisstéttirnar.
    Hér hefur eilítið verið staldrað við það að við Íslendingar séum einir á báti þegar kemur að hugleiðingum um breytingar á innflutningi lyfja og lyfjadreifingu og jafnan vísað til Dana í því sambandi og hugmynda sem þeir hefðu sett ofan í skúffu sem hefðu verið eitthvað í líkingu við það frv. sem hér er til umræðu. Nú er það þannig, virðulegi forseti, að það er einmitt mjög mikil gerjun alls staðar á Norðurlöndum um breytingar í þessa veru. Að sumu leyti eru þær tilkomnar vegna umsókna Norðurlandaþjóðanna um inngöngu í ESB, að öðru leyti vegna þess að það er mjög mikið og náið samstarf milli Norðurlandaþjóðanna og þær bera sig mjög saman. Mér er kunnugt um það að Danir fylgjast einmitt mjög grannt með því hvað við erum að gera og við með því sem þeir eru að gera. Þannig að við skulum sjá hvað setur í þeim efnum um framhald þróunar í Danaveldi og mér kæmi ekki á óvart þó að þar færu í gang ekki ósvipaðir hlutir og hér eru lagðir til.
    Virðulegi forseti. Ég get út af fyrir sig orðlengt þetta og farið nánar ofan í saumana á ýmsum atriðum þessa frv. og skýrt margan þann misskilning sem sannarlega hefur verið hér á ferðinni. Sá undirtónn gengur dálítið aftur í þessari umræðu hjá ýmsum. Þó að að sumu leyti viðurkenni nú allir að einhverju þurfi að breyta, þá plumpar upp svona frá ræðumönnum: Ja, þetta er nú bara býsna gott eins og það er, eigum við nokkuð að vera að breyta þessu? Og ég vil árétta það, virðulegi forseti, að þessum ályktunum er ég gersamlega ósammála og ég trúi því ekki þegar hv. þingmenn skoða hug sinn nákvæmlega, að þeir geti setið rólegir undir þeirri staðreynd að á Íslandi sé langhæsta lyfjaverð sem skattgreiðendur borga, allt að 70% og sjúklingarnir sjálfir úr buddunni sinni að 30%. Það er ástand sem verður auðvitað ekki við unað og er skylda löggjafarvaldsins að taka á og breyta.
    Hér gengur auðvitað orð gegn orði í þá veru hvort þetta frv. komi til með að ná þeim markmiðum sem því er ætlað. Reynslan verður sannarlega ólygnust í því. Ég hef hins vegar reynt með örfáum orðum að gera grein fyrir áliti mínu og meiri hluta heilbr.- og trn. í þessum málum og hef leitt getum að því og fært að því rök hvers vegna ég álíti að þjónustan muni batna, að verðið muni lækka og með öðrum orðum að við getum með nokkurri reisn bent á það að við höfum fært lyfjadreifingu og lyfjaverð til nálgunar við það breytta umhverfi sem við búum í. Það er ekki boðlegt lengur að við segjum einfaldlega: Við skulum bara hafa þetta eins og þetta er af því að þetta hefur verið svona. Það áreiti sem við okkur blasir, það þjónustuleysi sem víða er úti um land, það háa verð sem fólkið þarf að borga fyrir þessi lyf er auðvitað áreiti sem við þurfum að bregðast við og það er gert með þeim hætti sem þetta frv. segir til um og mun sannarlega leiða til lækkaðs verðs og betri þjónustu.