Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:15:23 (6611)


[00:15]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi ræða sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hélt hér var að mínu viti afskaplega merkileg og hún var mjög góð. Og það er eins farið fyrir mér og ég sé að farið er fyrir hv. þm. og formanni hv. heilbr.- og trn., Gunnlaugi Stefánssyni, að við erum báðir jafnsteinhissa því þessi ræða er náttúrlega ekki í neinu samræmi við það sem í frv. er. Frv. er bara allt öðruvísi. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hélt ræðu sem er alls ekki um frv. Hann hélt bara ræðu um það hvernig hann vildi hafa þessi mál og ég get að öllu leyti tekið undir það. Þeim væri miklu betur skipað með þeim hætti sem hæstv. ráðherra lýsir hér yfir, en það er bara ekkert af þessu í frv., hæstv. ráðherra. Og ef það er nú breytt afstaða hjá hæstv. ráðherra í þessum efnum þá finnst mér alveg sjálfsagt að málið verði aftur tekið til hv. heilbr.- og trn. og skoðað þar og þessi sjónarmið sem hérna koma fram hjá hæstv. ráðherra sett inn í frv.
    Ég sit ekki undir því við þessa umræðu að ég hafi verið að verja núverandi kerfi. Það var síður en svo. Ég notaði meira en helminginn af mínum ræðutíma hér áðan til þess að skýra út nákvæmlega hvernig ég vildi sjá breytt lyfjadreifingar- og lyfsöluskipulag í landinu. Það er í öllu meginatriðum með svipuðum hætti og hæstv. ráðherra lýsti hér áðan. En frv. er bara í engu samræmi við þetta þannig að auðvitað verður að taka málið aftur til nefndarinnar og skoða það.