Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:17:17 (6612)


[00:17]
     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og hv. síðasti ræðumaður þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessa prýðilega góðu ræðu. Og ef maður vissi ekki betur hvað stæði í frv. þá tryði maður þessu. Hæstv. heilbrrh. sagði að lyfjaverð mundi lækka. Ég sagði hér í dag að það voru tugir manna sem komu til nefndarinnar og það var aðeins einn sem taldi að það gæti verið að lyfjaverð mundi lækka, en hann sagði jafnframt að hann hefði ekki lesið frv. Þannig að þetta passar mjög vel saman.
    Hæstv. ráðherra sagði að þeir sem töluðu á móti þessu frv. væru aðeins að halda utan um apótekara og vígi þeirra. Hefur hæstv. heilbrrh. ekki lesið umsögn Alþýðusambands Íslands, sem er í 8 liðum, mjög athyglisverð gagnrýni einmitt á þetta frv. Áhyggjur Alþýðusambandsins um að lyfjaverð muni hækka og þá sérstaklega á landsbyggðinni og tekur sérstaklega á því að það beytist ekkert á heildsölustiginu.
    Hæstv. heilbrrh. kom mjög víða við í ræðu sinni og sagði m.a. að nú segðu sjúklingar þegar þeir kæmu til læknisins: Hvað kostar lyfið, læknir minn góður? Og er að undra. Ætli þeir spyrji ekki: Ætli ég eigi fyrir þessum lyfjum? Vegna þess að sjúklingurinn tekur enn þá meiri þátt í lyfjakostnaði heldur en hann hefur nokkurn tíma gert. (Gripið fram í.) Nú æsist leikurinn og bræðurnir tala báðir í senn. Er ég er búin með ræðutíma minn? En sem sagt, ef það er tilfellið að þetta er vilji hæstv. ráðherra sem kom fram í ræðu hans, þá er ég tilbúin að endurskoða þetta frv. með honum og við náum án efa sátt í þessu máli.