Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:41:16 (6626)


[00:41]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki nokkur efni til þess að frá þessari umræðu þurfi menn að hlaupa nú skyndilega klukkan hálfeitt. Ég varð sérstaklega var við það að lyktum ræðu minnar að hv. 5. þm. Suðurl. gekk hér í salinn og hélt fundi í hliðarherbergi, hafði lítið sem ekkert verið við þessa umræðu en þreyttist mjög hratt um leið og hann kom hér til salar og vildi ganga til hvílu. Ég held að það væri fagnaðarefni að hann gæfi sér einhverjar stundir til þess að hlýða hér á umræðu og heiðra okkur með nærveru sinni. Það væri að vissu leyti óvænt fagnaðarefni.
    En ég vil segja það, virðulegi forseti, að eftir talsvert langa meðgöngu í þessu máli þá finnst mér satt að segja ekki stórmannlegt að menn ætli að hlaupa frá þessu hálfkaraða verki en það er það áhyggjuefni sem ég hafði hvað helst, að menn þyrðu ekki að takast á við þetta og vildu frá því hlaupa og það er kannski að koma á daginn. En ég vil segja að það er ekki nokkur efni til þess og ég trúi ekki öðru en menn séu í stakk búnir til þess og vilji ræða þetta mál til hlítar og í botn.