Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:42:46 (6627)


[00:42]
     Guðmundur Bjarnason (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Það má út af fyrir sig taka undir það með hæstv. heilbr.- og trmrh. að það er svo sem ekki þörf á því að hætta umræðunni skyndilega kl. 12.30 Það verður reyndar ekki gert héðan af því að hún er þegar komin vel fram yfir það. Ef ekki næst einhver niðurstaða í það, sem hæstv. forseti gat um af ræðustól sínum áðan, að ef þessari umræðu um störf þingsins lyki fljótt mætti kannski halda áfram einhvern stuttan tíma, ef ég tók rétt eftir hjá hæstv. forseta, þá langar mig að spyrja hann hvað hann eigi við með því að halda áfram einhvern stuttan tíma. Ef hann getur kveðið upp úr með það þá getur vel verið að við þurfum ekki lengur að spyrjast fyrir um það hvað eigi að halda þingfundinum áfram.
    Það er líka ástæða til að nefna það út af ummælum hv. formanns heilbr.- og trn., hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar, áðan að það sé nægur tími til að halda áfram umræðunni í kvöld og nótt, eða í nótt héðan af, til þess að ræða málin til hlítar, ræða þau út og ræða við hv. þm. sem hafa verið að fjalla um þetta mál. Það vill nú svo til, og ég gat um það í ræðu minni áðan, að við höfum ekki séð neinn hv. þm. sem skipa meiri hluta nefndarinnar í umræðunni í allan dag nema hv. formann. Ég man ekki eftir neinum þeirra og reyndar engum þingmanni Sjálfstfl. í allt kvöld nema þeim forsetum sem hafa skipst á að gegna sínu embættishlutverki. Engum öðrum. Það lýsir bara því að menn hljóta að vera eitthvað ,,nervusir`` við þessa umræðu eða hafa einhverjar sérstakar tilfinningar til þeirrar umræðu sem hér fer fram og vilja gjarnan vera sem fjærst henni meðan hún stendur yfir. Það er til lítils fyrir okkur stjórnarandstæðingana að krefjast svara og álits manna á þessu máli ef þeir þora ekki að vera hér til staðar, hlýða á umræðuna og taka þátt í henni.
    Ég vil að vísu þakka ráðherra, eins og fleiri sem hér hafa talað á undan mér, fyrir ýmislegt sem hann sagði í ræðu sinni hér áðan. Eins og ég gat um í ræðu fyrr í kvöld hygg ég að sumt af því sem hann sagði nú hefði getað stytt umræðuna nokkuð. En ég hygg líka að ef heldur fram sem horfir að þá sé ýmislegt líka sem reyndar kom þar fram sem þurfi að spyrja nánar um eða fjalla nánar um ef ekki verður gert hlé á umræðunni handa nefndinni til að ráðgast um málið og hæstv. ráðherra að ráðgast við sína meirihlutanefndarmenn. Ef svo yrði nú og út úr því kæmu hugmyndir um það að einhverjar breytingar væri hægt að gera til að nálgast sjónarmið stjórnarandstöðunnar þá mundi það sannarlega stytta umræðuna. Annars getur hún auðvitað orðið löng.
    Að lokum, hæstv. forseti, aðeins um samkomulag um þinghaldið í vikunni. Það kann að vera að það hafi ekki verið gengið frá samkomulagi um það að hætta þingfundi milli kl. 12 og 1 í nótt, en hins vegar kom það fram í þingflokki okkar í gær þegar rætt var um þinghaldið í vikunni í heild að meiningin væri sú að umræðan stæði ekki lengur núna, enda væri gert ráð fyrir löngum fundi á fimmtudag sem gæti þýtt fund fram eftir nóttu og svo hugsanlega allan föstudaginn. Ef það á að vera eitthvert samkomulag í heild um þinghaldið þá finnst mér, þó ekki hafi verið gengið frá formlegu samkomulagi, sem kann að vera, ekki sat ég þann fund, að forseti þurfi að skýra okkur frá því hvað hann hugsar sér að gera nú í nótt.