Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:49:34 (6630)


[00:49]
     Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Í tilefni af ummælum hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar um það að nú væri ástæða til þess fyrir hv. heilbr.- og trn. að koma saman og líta yfir málið aftur með hæstv. ráðherra og í tilefni af því að hv. þm. Finnur Ingólfsson gaf það óbeint í skyn að hann tæki undir þessi ummæli, þá finnst mér mjög ómaklega að verki staðið. Ég get vel skilið það að hv. þm. Guðmundur Bjarnason geti misskilið hlutina vegna þess að hann hefur ekki verið á fundum nefndarinnar en hv. þm. Finnur Ingólfsson veit betur af því að það vill svo einkennilega til að í þessu máli var unnið ærlega og heiðarlega saman. Öll nefndin kom að vinnunni, ekki eins og gerist oft og gengur í stjórn og stjórnarandstöðu þar sem unnið er á grundvelli meiri hluta gegn minni hluta. Hér unnu saman stjórn og stjórnarandstaða af fullum heilindum á mörgum og löngum og ströngum fundum og tekið tillit til skoðana og athugasemda allra hv. þm., hvort sem þeir væru í stjórn eða stjórnarandstöð og að þessu var góð eining. Ég tel því að stjórnarandstaðan sé að gera hér mikil mistök með því að velja þetta mál til pólitískrar gíslingar á lokadögum þingsins og reyna að búa til stöðu sem gerir það að verkum að það gefur ekki gott fordæmi fyrir formenn nefndarstarfa í framtíðinni að fitja upp á slíkum vinnubrögðum sem við höfum gert í þessum máli. ( SvG: Formaðurinn hefur í hótunum.) Hér er ekki verið að hafa í hótunum heldur þvert á móti verið að leggja áherslu á þau vinnubrögð sem við höfum reynt að viðhafa og það væri eðlilegt og gott fyrir málið í heild sinni að við getum haft þau í heiðri líka við umræðu málsins í þinginu en ekki þau gerð að fordæmi til þess að hv. þm. varist slík vinnubrögð þegar horft er til framtíðar.