Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:53:37 (6632)


[00:53]
     Jón Kristjánsson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Ég varð undrandi þegar ég heyrði ræðu hv. formanns heilbr.- og trn. áðan þar sem hann sagði að vegna þess að það hafi verið unnið heiðarlega og vel að málinu í nefndinni, sem hann telur að sé einsdæmi í þinginu, þá eigi menn nánast að halda sér saman í ræðustól á Alþingi og a.m.k. ef ágreiningur er um málið þá eigi að lofa stjórnarandstæðingum að tala um það hér og stjórnarliðar eigi að vera í fríi heima eins og þeir eru yfirleitt. Hingað kemur svo einn og einn maður, lítur inn um miðnættið til að sjá (Gripið fram í.) hvað umræðum líður.
    Það er ekkert einsdæmi að það sé unnið heiðarlega í nefndum. Það er sem betur fer yfirleitt gert á Alþingi og það á ekki að þurfa að kaupa hv. nefndarformenn til þess með stuttum umræðum eða þögn um ágreining um mál. Þetta vildi ég sagt hafa. Ég skora á hæstv. forseta að slíta þessari umræðu eða fresta henni svo að hv. þm. gefist tími til þess að íhuga málið og það sé hægt að taka málið til nefndarinnar og vinna skarplega að því á heiðarlegan hátt.