Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:59:05 (6634)


[00:59]
     Margrét Frímannsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni. Ég hafði skilið það þannig að hér yrði fundur eitthvað fram eftir kvöldi og jafnvel til hálfeitt eða eitt, en við mættum hins vegar búast við næturfundi næsta fimmtudag. Það verður hins vegar að ráðast af því hvernig samkomulag næst um því að hingað eru þingmenn vissulega komnir til þess að vinna og mér finnst það harkalega að þeim stjórnarandstæðingum vegið sem hafa lagt sig fram við vinnu í hv. heilbr.- og trn. og tekið að fullu þátt í þeirri miklu vinnu sem hefur farið fram í nefndinni eins og hv. formaðurinn hefur gert

sjálfur.
    Að segja það að við ætlum að víkja okkur undan því að vinna okkar störf á hv. Alþingi held ég að eigi síst við um þá sem hér sitja og þá stjórnarandstæðinga sem hér sitja og starfa með hv. þm. í heilbr.- og trn. Þessi orð hljóta að eiga betur heima á þingflokksfundi hjá Alþfl. á morgun því að fulltrúar Alþfl. hafa ekki verið svo margir hér í dag eða kvöld. Ég held því að það sé nær að beina þeim orðum til þeirra að þeir séu að víkja sér undan vinnu.
    Það hefur farið fram málefnaleg umræða í hv. heilbr.- og trn. en ágreiningurinn er þó töluverður. Við höfum verið í umræðum í dag, sú umræða hefur verið málefnaleg en e.t.v. hefði mátt stytta hana verulega ef þingmenn hefðu fengið strax að loknum sínum ræðum svör við þeim spurningum sem við settum fram. En við bíðum enn sum hver eftir því að fá svör. Það má vel vera að það eigi eftir að taka einhvern tíma enn. En ég held að það væri skynsamlegra að við stoppuðum núna og tækjum umræðuna aftur upp síðar.