Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 01:55:43 (6641)


[01:55]
     Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 2. þm. Austurl. lýsti yfir áhyggjum sínum vegna byggðaþáttar þess máls sem hér er til umræðu og sagði orðrétt að hann hefði áhyggjur af því að lyf yrðu dýrari á smæstu stöðum. Ég vil orða þetta öðruvísi. Ég hef miklar áhyggjur af því ef þetta frv. verður ekki samþykkt að þá haldi lyfjaverð á landsbyggðinni áfram að vera eitt það hæsta sem um getur í Evrópu. Og ég get ekki tekið undir það með hv. þm. Jóni Kristjánssyni að það sé góður kostur fyrir landsbyggðarfólk og ég get ekki stætt mig við að landsbyggðarfólk þurfi að búa áfram við slíkan aðstöðumun. Þess vegna er það mjög brýnt að þetta mál nái fram að ganga af því að það miðar að því að lækka verð á lyfjum á landsbyggðinni líka. Ég bið hv. þm. að benda mér á eitt einasta orð í frv. eða brtt. sem miðar að því að hækka verð lyfja á landsbyggðinni. Þvert á móti gæti ég bent á mörg orð í brtt. og frv. er miða að hinu gagnstæða, lægra lyfjaverði á landsbyggðinni. Og ég veit að hv. þm. Jón Kristjánsson vill það því hann er baráttumaður fyrir landsbyggðina. En það virðist eins og hann hafi fengið rangar upplýsingar eða ekki kynnt sér málið gjörla sem ég veit að hann gerir jafnan áður en hann talar í málum.