Minning Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 13:33:40 (6645)

[13:30]
     Forseti Salome Þorkelsdóttir) :
    Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, fyrrv. alþingismaður og formaður Sóknar, andaðist í gærmorgun, 26. apríl, á Vífilsstaðaspítala, 72 ára að aldri.
    Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir var fædd 8. ágúst 1921 að Efri-Steinsmýri í Meðallandi, Vestur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hennar voru hjónin Bjarnfreður bóndi þar Ingimundarson í Vestmannaeyjum Árnasonar og Ingibjörg Sigurbergsdóttir bónda í Fjósakoti í Meðallandi Einarssonar. Hún naut barnafræðslu að vetrinum árin 1930--1934, nokkrar vikur hverju sinni. Eftir það tók við vinnumennska í sveit og við sjó, var í vist í Reykjavík og síðan vinnukona í Hólmi í Landbroti.
    Haustið 1942, rúmlega tvítug, fór hún til starfa við fiskvinnslu í Vestmannaeyjum og varð síðar húsmóðir þar. Árið 1949 varð hún að fara berklaveik að Vífilsstöðum og dvaldist þar á annað ár. Eftir það bjó hún í Reykjavík eða nágrenni við ýmis störf fram til ársins 1963. Þá um haustið fluttist hún austur að Köldukinn í Holtum í Rangárvallasýslu og vann þar að bústörfum rúman áratug.
    Snemma árs 1974 fluttist Aðalheiður aftur til Reykjavíkur og árið 1976 var hún kosin formaður Starfsmannafélagsins Sóknar og gegndi formennsku og ýmsum öðrum störfum fyrir félagið til 1987. Við alþingiskosningarnar 1987 var hún í kjöri í Reykjavík fyrir nýstofnaðan Borgaraflokk og náði kosningu. Hún sat á Alþingi á fjórum þingum kjörtímabilsins til 1991. Síðustu árin átti hún heimili á Hvolsvelli.
    Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir ólst upp á barnmörgu heimili, var sjöunda af 20 systkinum. Hún átti mjög takmarkaðan kost á skólanámi en öðlaðist reynslu og þekkingu á fjölbreyttum starfsferli sínum. Hún vann löngum að félagsmálum og kjaramálum verkafólks. Formaður verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum var hún 1945--1949. Jafnframt formennsku í Sókn var hún í miðstjórn Alþýðusambands Íslands frá 1980. Hún var í framkvæmdanefnd um kvennafrídag 1975 og starfaði í nefnd til að semja frv. til laga um málefni aldraðra og frv. til nýrra framfærslulaga. Í bankaráði Búnaðarbanka Íslands var hún 1990--1993.
    Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir þekkti kröpp kjör af eigin raun í æsku og langt fram eftir ævi. Hún vildi rétta hlut þeirra sem minnst máttu sín og annarra sem henni þótti hallað á í þjóðfélaginu. Hugur hennar í þá átt birtist ræðum og greinum í blöðum og tímaritum og um hana var gefin út Lífssaga baráttukonu. Henni var kappsmál að bæta hag kvenna og vannst þar margt til bóta undir forustu hennar í Sókn. Í sömu átt beindust störf hennar á því fjögurra ára tímabili sem hún starfaði á Alþingi.
    Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]