Útflutningur hrossa

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 14:40:05 (6660)


[14:40]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að gera hér að umræðuefni annað frv. sem er í landbn. heldur aðeins það frv. sem hér er á dagskrá. Ég sé ástæðu til að þakka hv. landbn. fyrir að hafa brugðist svo skjótt við að leysa það brýnasta vandamál sem við var að etja og leggja til rýmkaðar heimildir með flutningum á hestum til útlanda með skipum. Það er verulegt fjárhagslegt atriði fyrir þá sem flytja hross út með skipum og mun einnig hafa áhrif á verðlagningu á flutningi með flugvélum því að allt er þetta í samkeppni. Erindi mitt var þess vegna að þakka fyrir framlagningu þessa frv. og taka undir það sem formaður landbn. sagði hér áðan að ég tel ástæðulaust að vísa málinu til nefndar af þeirri ástæðu að það er flutt af nefnd og tekið út úr frv. sem landbrh. hefur flutt og er í þeim sama anda og hér er verið að leggja til.