Útflutningur hrossa

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 14:57:33 (6667)


[14:57]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. landbn. felur aðeins í sér breytingu á einu orði frá því sem var og er í gildandi lögum, þ.e. að í staðinn fyrir ,,júní`` kemur: maí. Og það er kannski önnur ástæðan fyrir því að ég kom hingað upp, en hin var svo aftur sú ræða sem hv. 2. þm. Vestf. flutti hér áðan og mér þótti vænt um þá ræðu. Það er hárrétt sem hann gat um að hér er um að ræða hagsmuni, kostnaður við flutning á hverju hrossi miðað við þessar aðstæður skilar bóndanum 20 þús. kr. og mér þykir vænt um að þessi hv. þm. skyldi koma hingað upp í ræðustólinn, þakka landbn. fyrir þá leið sem hún fann helsta til þess að koma þessu máli áfram með því að flytja þetta litla frv. með þessari þó enn þá minni breytingu. Ég er sannfærður um það að ef bændur landsins og reyndar aðrir þeir sem eiga hér hagsmuni hefðu hlýtt á þessa umræðu, þá mundu þeir meta mikils með sama hætti og ég gerði innlegg hv. 2. þm. Vestf. í þessa umræðu.