Lyfjalög

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 15:40:47 (6675)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti skildi það svo að það hefði verið gert ráð fyrir því þegar menn ræddu saman sl. nótt að þetta mál kæmi hér á dagskrá og til umræðu um þetta leyti. Það er gert ráð fyrir að þessi fundur standi til kl. 5 í dag. Eins og komið hefur fram er hér hæstv. ráðherra sem málið heyrir undir og forseti biður hv. þm. að taka tillit til þess eins og venja er ef þingmenn forfallast af þeim ástæðum sem hér hefur verið greint frá. Það er alveg ljóst að umræðu um þetta mál lýkur ekki í dag þannig að það verður tækifæri til þess að ræða málið þegar hv. 5. þm. Austurl., formaður nefndarinnar, verður kominn aftur til þings. Það má því nota tímann sem eftir er fram að kl. 5 til þess að ræða málið eins og gert hafði verið ráð fyrir og beinir forseti því til hv. 4. þm. Austurl., og reyndar þess sem er fyrstur hér á mælendaskrá sem er hv. 10. þm. Reykv., að umræðan geti hafist þannig að við getum nýtt þann tíma sem eftir er af þessum fundi.